133. löggjafarþing — 33. fundur,  22. nóv. 2006.

vísindaveiðar á hval.

283. mál
[18:40]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Magnús Þór Hafsteinsson) (Fl):

Virðulegi forseti. Ég kem upp til að bera fram fyrirspurn til hæstv. ráðherra um vísindaveiðar á hval. Hafrannsóknastofnun gerði á sínum tíma, þ.e. veturinn 2002–2003, vísindaáætlun eða rannsóknaráætlun. Í þeirri áætlun fólst að við ætluðum að veiða 200 hrefnur, 200 langreyðar og 100 sandreyðar á tveimur árum, auk þess að fara í flugtalningar og gervitunglamerkingar á þeim skepnum. Hrefnuveiðar hafa síðan staðið yfir, vísindaveiðar. Að vísu hafa langt í frá verið veidd jafnmörg dýr og til stóð og vísindaveiðar hafa alls ekki farið í gang enn þá á langreyði og sandreyði þrátt fyrir miklar yfirlýsingar í byrjun.

Í haust ákvað hæstv. sjávarútvegsráðherra, og það var mjög góð ákvörðun, að hefja á ný veiðar í atvinnuskyni á stórhvelum, þ.e. á langreyði, og gefið var út veiðileyfi fyrir sjö dýr. Þær veiðar gengu ákaflega vel og jafnframt var gefið út veiðileyfi til að hefja atvinnuveiðar á hrefnu. Það var einungis eitt dýr tekið en vænta má þess að menn muni heldur betur spýta í lófana þegar vorar og halda þeim áfram ef markaðir finnast fyrir þær afurðir sem koma af þessum skepnum. En við getum náttúrlega ekki fundið þá markaði nema hafa einhverjar afurðir í höndunum. Við hljótum að fylgjast spennt með því hvernig því reiðir af nú á næstu vikum og mánuðum. En það er sönnur saga, virðulegi forseti.

Þegar við fórum að sinna hvalveiðum í atvinnuskyni velti ég fyrir mér hvað yrði um framhald vísindaveiða á hvalastofnum við Ísland því enn höfum við ekki veitt allar langreyðarnar, þessar 200 langreyðar, og ekki höfum við heldur byrjað að veiða sandreyðarnar og eitthvað er einnig eftir af hrefnunum sem við ætluðum að veiða. Mér skilst að vísindaveiðunum hafi átt að ljúka á næsta ári. Þarna er því mikið verk óunnið.

Ég spyr því hæstv. sjávarútvegsráðherra: Hvert verður framhald vísindaveiða á hvalastofnum við Ísland?

Seinni spurning mín til hæstv. ráðherra, virðulegi forseti, er: Hvaða vísindarannsóknir eru gerðar á þeim hvölum sem veiddir verða í atvinnuskyni á þessu fiskveiðiári? Á ég bæði við langreyði og hrefnu.