133. löggjafarþing — 33. fundur,  22. nóv. 2006.

vísindaveiðar á hval.

283. mál
[18:43]
Hlusta

sjávarútvegsráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Magnús Þór Hafsteinsson spyr: „Hvert verður framhald vísindaveiða á hvalastofnum við Ísland?“

Framhaldið verður það að á næsta ári er fyrirhugað að ljúka vísindaprógramminu varðandi hrefnuveiðarnar. Það verða því veiddar 39 hrefnur á næsta ári

Það er alveg rétt hjá hv. þingmanni að þetta vísindaprógramm sem upphaflega var ætlað til tveggja ára hefur tekið lengri tíma af ýmsum ástæðum. Ég ákvað hins vegar í sumar að bæta í frá því sem áður hafði verið upphaflega, þ.e. að veiða 50 dýr, og auka þetta upp í 60 dýr. Því var um að ræða talsverðar veiðar í sumar og þær gengu mjög vel. Ég er alveg sammála því að mikilvægt er að reyna að hraða þeim veiðum til að fá þær upplýsingar sem við þurfum á að halda. Þess vegna verður þessu lokið á næsta ári hvað hrefnuna varðar.

Ekki eru fyrirhugaðar sérstakar veiðar í vísindaskyni á öðrum hvalategundum, að sinni að minnsta kosti. Það hefur ekki verið tekin ákvörðun um það frekar. Á hinn bóginn verður á næsta ári farið í umtalsverðar flugtalningar á hvalastofnum. Um er að ræða rannsókn sem við Íslendingar stöndum að ásamt fleirum og ég held að það muni skipta mjög miklu máli og geti varpað heilmiklu ljósi á stöðu mála. Það veldur heilmiklu álagi á rannsóknirnar að rannsóknir standa yfir núna og þess vegna var mjög mikilvægt, að mínu mati, að klára stærri hluta af vísindaprógramminu í hrefnunni á þessu ári og geyma það ekki til næsta árs.

Það er mjög mikilvæg skylda okkar að sinna rannsóknum á hvölum hér við land, enda eru hvalir meginuppistaða spendýrafánu Íslands og mikilvægur hluti vistkerfis hafsins við landið. Hafrannsóknastofnun hefur á undanförnum áratugum lagt rækt við hvalarannsóknir m.a. með þátttöku í viðamiklum hvalatalningum á Norðaustur-Atlantshafi á árunum 1986, 1989, 1995 og 2001. Á tímabilinu 1986–1989 stóð stofnunin fyrir umfangsmiklum rannsóknum á langreyði og sandreyði sem ásamt ofangreindum talningum hafa gerbylt þekkingu okkar á hvalastofnum við landið. Þær rannsóknir sýndu m.a. miklar sveiflur í lífsögulegum þáttum langreyðar, svo sem kynþroskaaldri og þungunartíma. Þessir þættir virðast nátengdir næringarástandi dýranna en það er talið ráðast af fæðuskilyrðum í sjónum og þéttleika hvala vegna samkeppni þeirra á milli.

Kem ég nú að síðari spurningunni: „Hvaða vísindarannsóknir eru gerðar á þeim hvölum sem veiddir verða í atvinnuskyni á þessu fiskveiðiári?“

Síðan reglulegar hvalatalningar hófust hefur langreyði fjölgað verulega hér við land. Þær voru taldar 15.600 á svokölluðu Austur-Grænlands-Íslandsstofnsvæði undir lok 9. áratugar síðustu aldar en 25 þúsund dýr árið 2001, sem eru nýjustu upplýsingar. Ekki hafa verið stundaðar rannsóknir á líffræði langreyðar síðan veiðar lögðust af árið 1989 en vísbendingar voru um hækkun á kynþroskaaldri undir lok rannsóknartímans, en það gæti tengst versnandi fæðuskilyrðum og/eða aukningu þéttleika dýra á svæðinu. Það er mjög áhugavert að gera rannsóknir á lífsögulegum þáttum langreyðar nú til samanburðar við hinar eldri rannsóknir. Sérstaklega er áhugavert að kanna hvort aukinn þéttleiki langreyða hafi leitt til breytinga á kynþroskaaldri, þungunartíðni og holdafari. Líffræðingar frá Hafrannsóknastofnun hafa gert mælingar og tekið ýmiss konar sýni úr þeim sjö langreyðum af níu sem veiddar hafa verið frá því að veiðar í atvinnuskyni hófust að nýju nú í sumar með ákvörðun frá 17. október sl. Holdafar hefur verið kannað með mælingum á spikþykkt og ummáli, auk þess sem sýni voru tekin til mælinga á orkuinnihaldi ýmissa vefja. Kynkirtlum hefur verið safnað til rannsókna á æxlunarstigi dýranna og eyrnatöppum til aldursgreiningar. Einnig er kannað magainnihald dýranna og tekið sýni til erfðarannsókna. Á næsta ári verður síðan safnað heilli beinagrind af langreyði fyrir Náttúrufræðistofnun Íslands til varðveislu og sýninga í framtíðinni.

Ljóst er að útgefið aflamark langreyðar fyrir fiskveiðiárið 2006–2007, þ.e. níu dýr er alls ekki nægjanlegt úrtak til marktækra rannsókna en stofnunin stefnir að því að halda slíkum rannsóknum áfram í tengslum við frekari atvinnuveiðar á næstu árum, sem síðar verða teknar ákvarðanir um. Hafrannsóknastofnun hefur gert ráðstafanir til sýnatöku úr þeim hrefnum sem verða veiddar í atvinnuskyni jafnframt því að fylgjast með þeim hrefnum sem veiddar verða í vísindaskyni af eðlilegum ástæðum. Þessi sýnataka er svipuð og ofangreind sýnataka úr langreyði og er framkvæmd af áhöfnum hrefnuveiðibátanna. Þótt sýnataka úr hverri hrefnu sé mun umfangsminni en sú sem fer fram í tengslum við rannsóknaveiðar á hrefnu beinist viðbótarsýnataka að því að vakta stofnana með tilliti til þátta sem geta breyst í tímans rás.