133. löggjafarþing — 33. fundur,  22. nóv. 2006.

vísindaveiðar á hval.

283. mál
[18:49]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Magnús Þór Hafsteinsson) (Fl):

Virðulegi forseti. Það var ánægjulegt að heyra hæstv. ráðherra lýsa því að það séu þó gerðar rannsóknir á þeim hvölum sem eru veiddir í atvinnuskyni. Það er að sjálfsögðu gott og blessað að athugað sé holdafar og orkuinnihald, kynkirtlar, eyrnatappar — með tilliti þá til aldursgreiningar reikna ég með — erfðir og annað þess háttar. Líka er athugað með magainnihald til að afla vitneskju um það hvað þessir hvalir hafa étið.

Ég tók eftir því að ekkert kom fram í máli hæstv. ráðherra varðandi vísindaveiðar á þessum svokölluðu stórhvelum, þ.e. við ætluðum að veiða 200 langreyðar og 100 sandreyðar á tveimur árum í vísindaskyni. Mig langar því til að leita svolítið nánar eftir svari við þeirri spurningu hvort stjórnvöld hafi með þessu fallið frá þeim fyrirætlunum og ætli að láta vísindaveiðarnar sem við hófum í ágúst árið 2003 einskorðast við hrefnuna og stunda síðan flugtalningar.

Mig langar líka til að inna hæstv. ráðherra nánar eftir því hvort stjórnvöld hafi fallið frá þessum gervitunglamerkingum sem ég reikna með að séu gerðar til að fylgjast með ferðum þessara dýra, hvert þau leita á mismunandi árstímum. Mjög mikilvægar upplýsingar geta fengist úr því. Ég man að á sínum tíma voru slíkar merkingar gerðar og skiluðu mjög áhugaverðum niðurstöðum.

Er þetta sem sagt raunin, að vísindaveiðum Íslendinga muni ljúka með því að við tökum þessar 200 hrefnur, förum í flugtalningar og síðan ekki söguna meir?