133. löggjafarþing — 33. fundur,  22. nóv. 2006.

dýralæknar og heilbrigðisþjónusta við dýr.

298. mál
[19:02]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Þuríður Backman) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Ég las ekki upp fyrirspurnirnar lið fyrir lið en ég þakka honum þau svör sem snúa að fyrirhuguðum breytingum vegna EES-samningsins og hugsanlega endurskoðun á lögum um dýralækna og heilbrigðisþjónustu.

Hvað varðar niðurstöðu hæstv. ráðherra um stöðu héraðsdýralækna á Fljótsdalshéraði þá er ég honum ósammála. Ég veit að bændur og þeir sem þurfa á þjónustunni að halda eru ósammála honum líka. Það er talað um tvo héraðsdýralækna. Þeir eru tveir en annar er í hálfu starfi og mikið álag á þeim, sérstaklega þeim sem er þar í fullu starfi. Það er ekki hægt að líkja saman embættum héraðsdýralækna í svo víðfeðmu héraði sem Fljótsdalshéraði er og svæðinu sem héraðsdýralæknar á norðaustursvæðinu eiga að sinna. Það er ekki aðstaða eða nokkur einasti rekstrargrundvöllur fyrir sjálfstætt starfandi dýralækna í hinum dreifðu sveitum Það er einkum í þéttbýli, þar sem gæludýrin eru. Þess vegna verður að horfa til þess að héraðsdýralæknar sinni einnig almennum dýralæknisstörfum eins og þeir hafa gert.

Eigi að breyta og skilja algjörlega á milli eftirlitsstarfa og dýralæknisstarfa er það augljóst í mínum huga að þá verður að ráða fleiri opinbera dýralækna (Forseti hringir.) til að sinna þessum störfum. Það er ekki rekstrargrundvöllur (Forseti hringir.) fyrir sjálfstætt starfandi dýralækna á svæðinu.