133. löggjafarþing — 34. fundur,  23. nóv. 2006.

búseta í iðnaðarhúsnæði.

[10:31]
Hlusta

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegur forseti. Ég kveð mér hljóðs undir liðnum um störf þingsins til að ræða málefni fólks sem býr í iðnaðarhúsnæði. Þannig er mál með vexti að Sölvi Tryggvason, fréttamaður á Stöð 2, hefur undanfarna daga verið með fréttaskýringar í þættinum Ísland í dag þar sem hann hefur fjallað um þetta mál. Það hefur komið fram í þessum þáttum að fleiri hundruð manns virðast búa í iðnaðarhúsnæði víðs vegar um landið, kannski einkum og sér í lagi á höfuðborgarsvæðinu. Þetta fólk er ekki skráð þarna með lögheimili heldur býr þarna bara. Það er margt sem bendir til þess að þetta húsnæði sé alls ekki samþykkt sem vistarverur fyrir fólk.

Leigumarkaðurinn virðist vera mjög spenntur og fólk reiðubúið til að taka á leigu lítil herbergi, allt niður í 10 fermetra, borga fyrir okurverð og búa í þessu iðnaðarhúsnæði sem er, eins og ég sagði áðan, alls ekki ætlað sem mannabústaðir. Aðbúnaðurinn, miðað við þær myndir sem við höfum séð, virðist vera í samræmi við það, hann er ekki glæsilegur. Í mörgum tilfellum er í þessu húsnæði rekin atvinnustarfsemi, jafnvel á neðri hæðunum, og maður hlýtur að velta fyrir sér hvað mundi gerast ef til að mynda kæmi upp eldur á slíkum stað. Stjórnvöld á hverjum tíma hafa ekki hugmynd um að þarna búi fólk og ef við ímyndum okkur að um sé að ræða verkstæðishúsnæði þar sem eru t.d. gaskútar og fólk sofandi á hæðunum fyrir ofan mætir slökkviliðið á vettvang og slökkviliðsmenn vita ekki hvort fólk er búsett í því eða ekki.

Annar angi af þessu máli er sá að fólkið sem býr þarna er ekki með lögheimili, hefur ekki aðgang að heilbrigðisþjónustu og þetta er allt saman í mjög miklum ólestri. Stór hluti af þeim sem búa í svona húsnæði er erlendir ríkisborgarar en einnig eru dæmi um aðra, fátæka Íslendinga, öryrkja til að mynda. Það var átakanlegt að sjá í gær við hvaða aðstæður Sigurður Valsson öryrki býr í Hafnarfirði. Ég hvet alla þingmenn til að skoða þennan þátt sem sýndur var í sjónvarpinu í gærkvöldi því að það var vægast sagt dapurlegt.