133. löggjafarþing — 34. fundur,  23. nóv. 2006.

búseta í iðnaðarhúsnæði.

[10:42]
Hlusta

Valdimar L. Friðriksson (U):

Frú forseti. Ég fagna því að þessi umræða skuli fara hér af stað og tel hana alveg bráðnauðsynlega. Okkur er sífellt að berast til eyrna að Íslendingar og erlent starfsfólk sérstaklega búi í iðnaðarhúsnæði víða á höfuðborgarsvæðinu. Það á eftir að verða stórslys, m.a. vegna eldhættu, eins og hv. þm. Magnús Þór Hafsteinsson minntist á áðan.

Síðast í morgun fékk ég fréttir af því að nokkrir tugir Pólverja búi uppi yfir stóru dekkjaverkstæði á Smiðjuvegi í Kópavogi. (Gripið fram í.) Já. Það ætti öllum að vera ljóst að á neðri hæðinni er gífurlegur eldsmatur, dekk, ryðvarnardót o.s.frv. þannig að ég velti fyrir mér hvort ekki sé kominn tími til að taka til hendinni og kanna hvers konar aðstæður þessu fólki eru boðnar. Hér á eftir að verða stórslys, sérstaklega eins og þarna þar sem fólki er boðið upp á að búa fyrir ofan dekkjaverkstæði með allri þeirri eldhættu (Gripið fram í.) sem þar er.