133. löggjafarþing — 34. fundur,  23. nóv. 2006.

búseta í iðnaðarhúsnæði.

[10:44]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Frú forseti. Hv. þm. Pétur Blöndal sagði að sumir byggju í skipum og aðrir í bátum. Frú forseti. Sumir búa í fílabeinsturni og sjá ekki út fyrir hann. Þessi ríkisstjórn býr í fílabeinsturni ef hún heldur að ekki sé pottur brotinn í þessum málum.

Það ber auðvitað að þakka það sem hv. þm. Dagný Jónsdóttir sagði áðan, að það væri fullur vilji í félagsmálanefnd til að taka á þessu máli. Það breytir engu um það að staðan er ekki nógu góð og stjórnvöld hafa flotið sofandi að feigðarósi. Hv. þm. Magnús Þór Hafsteinsson hefur fullkominn rétt til þess að taka þetta mál hér upp á vettvangi þingsins. Þjóðin og þingmenn eiga að fá að vita um þessa stöðu.

Því miður er það þannig að við höfum haft fregnir af því í fjölmiðlum að erlent farandverkafólk búi ekki aðeins við lök kjör og illan aðbúnað í iðnaðarhúsnæði, þess eru líka mörg dæmi á síðustu missirum og árum að þeir búi í gámum sem engum nema hundum væru bjóðandi. Sú þróun sem hefur orðið undir þessari ríkisstjórn sýnir það aðgæsluleysi og þann skort á aðgát gagnvart mannlegum verum sem hefur verið aðalsmerki þessarar ríkisstjórnar gagnvart erlendu farandverkafólki sem hingað hefur komið. Ríkisstjórnin hefur fyrst og fremst notað erlent vinnuafl sem hagstjórnartæki til að koma í veg fyrir óðaverðbólgu. Þetta fólk sem hingað hefur komið sem góðir gestir hefur í reynd bjargað íslenskum efnahag. Þakkirnar eru ákaflega litlar af hálfu ríkisstjórnarinnar. Það er ekki fyrr en stjórnarandstaðan og ýmsir einstaklingar í röðum hennar taka þetta mál upp sem hún raknar úr rotinu og er þó varla röknuð í dag.

Frú forseti. Erlendu verkafólki er stefnt hingað til þess að bjarga íslenskum efnahag en margt þess býr hér án réttinda, hefur ekki rétt til heilbrigðiseftirlits og þjónustu á borð við Íslendinga. Þetta er vinnuafl sem er með ýmsum hætti misnotað. Menn fá hér ekki þau réttindi sem (Forseti hringir.) við lítum á sem almenn réttindi handa Íslendingum.