133. löggjafarþing — 34. fundur,  23. nóv. 2006.

búseta í iðnaðarhúsnæði.

[10:50]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að lýsa þeirri skoðun minni að ég tel að þetta mál eigi ágætlega heima undir liðnum um störf þingsins. Það er þingið sem setur lögin, það er þingið sem veitir heimild til að setja reglugerðir samkvæmt lögum. Það eru framkvæmdaraðilar sem setja reglugerðir og eiga að fylgja lögunum eftir.

Það liggur algjörlega fyrir, hæstv. forseti, að þessi umræða á vissulega vel heima undir þessum dagskrárlið. Það kann vel að vera að þetta mál sé viðkvæmt en það þarf að ræða þetta vandamál eins og önnur sem tengjast erlendu fólki hér á landi. Ég held að ekki þurfi að breyta lögum sérstaklega til að fara að framfylgja þeim. Það er fullt af lögum og reglugerðum í gildi sem kveða á um aðbúnað og hollustuhætti að því er varðar fólk, og það er fullt af lögum og reglugerðum sem kveða á um það hvar fólk má búa og hvar ekki þannig að ekki þarf að breyta lögum til að framfylgja þeim eða beita aðhaldi.

Það þarf að krefjast lagfæringa á því húsnæði sem fólk býr í og það á að fylgja því eftir að annaðhvort sé það gert eða þá að búseta í slíku húsnæði sé algjörlega lögð af. Aðstæðurnar eru oft óviðunandi.

Ég tek hins vegar fram, hæstv. forseti, að þau fyrirtæki sem lengst hafa haft útlendinga í sinni þjónustu hér á landi, fiskvinnslufyrirtækin í áratugi, hafa fyrir löngu langflest hver búið vel að því starfsfólki sem þar hefur starfað eins og ég þekki til þeirra mála víðast hvar um landið. Þetta er kannski vegna þeirra óhemju þensluáhrifa og innstreymis af fólki á íslenskan vinnumarkað sem við höfum engan veginn getað höndlað það hvar fólk býr, hvernig búið er að erlendum starfsmönnum hér á landi eða hversu margir þeir eru og hverjir búa á löglegu lögheimili.