133. löggjafarþing — 34. fundur,  23. nóv. 2006.

fjárlög 2007.

1. mál
[10:55]
Hlusta

Frsm. meiri hluta fjárln. (Birkir Jón Jónsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti um frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2007, frá meiri hluta fjárlaganefndar.

Störf nefndarinnar við afgreiðslu frumvarpsins hafa verið með hefðbundnum hætti. Nefndin hóf störf 25. september sl. og átti viðtöl við fulltrúa sveitarfélaga sem gerðu henni grein fyrir erindum sínum. Þá hefur nefndin kallað fyrir fulltrúa ráðuneyta og einstakra stofnana.

Frá því að nefndin hóf störf við afgreiðslu frumvarpsins hefur hún haldið 28 fundi og átt viðtöl við fjölmarga aðila. Fulltrúar frá fjármálaráðuneyti komu á fund nefndarinnar og til viðræðna um tekjuhlið frumvarpsins.

Samkvæmt 2. mgr. 25. gr. þingskapa getur fjárlaganefnd vísað til annarra fastanefnda þeim þáttum fjárlagafrumvarpsins sem fjalla um málefnasvið þeirra. Með bréfi dagsettu 5. október sl. óskaði nefndin eftir álitum fastanefnda þingsins um þá þætti frumvarpsins er varða málefnasvið hverrar um sig. Nefndirnar hafa skilað álitum og eru þau birt sem fylgiskjöl með nefndarálitinu eins og fyrir er mælt um í þingsköpum.

Nefndin hefur lokið afgreiðslu flestra þeirra erinda sem henni bárust. Breytingartillögur þær sem eru til umfjöllunar við 2. umr. nema samtals 9.564,5 millj. kr. til hækkunar á sundurliðun 2.

Hér verður fyrst gerð grein fyrir meginbreytingum er varða tekjuhlið frumvarpsins. Þá er gerð grein fyrir þeim breytingum sem lagt er til að verði gerðar á sundurliðunum.

Í endurskoðaðri tekjuáætlun efnahagsskrifstofu fjármálaráðuneytis er gert ráð fyrir að tekjur verði 376.413,7 millj. kr. sem er 3.058,9 millj. kr. hækkun frá frumvarpinu. Tekjujöfnuður verður um 8.999,2 millj. kr. sem er lækkun um 6.505,6 millj. kr.

Meiri hlutinn þakkar fulltrúum stjórnarandstöðunnar í nefndinni fyrir mjög gott samstarf. Þá hefur nefndin notið aðstoðar Ríkisendurskoðunar og fjármálaráðuneytis. Einnig hafa einstök ráðuneyti veitt nefndinni upplýsingar og aðstoð.

Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með þeim breytingum sem lagðar hafa verið til og skýrðar verða á eftir og gerð er tillaga um í sérstökum þingskjölum.

Undir nefndarálitið rita hv. þingmenn Birkir J. Jónsson, Einar Oddur Kristjánsson, Drífa Hjartardóttir, Ásta Möller, Bjarni Benediktsson og Guðjón Ólafur Jónsson.

Hæstv. forseti. Ég ætla í ræðu minni að fara yfir tekju- og útgjaldahlið fjárlaga við 2. umr. Ég vek athygli á að breytingartillögum hefur verið dreift sem snerta heimildargreinina, 6. gr., og jafnframt breytingartillögur á tekjuáætlun ríkissjóðs fyrir árið 2007. Einnig höfum við lagt fram breytingartillögur við breytingartillögur á þingskjali 422, sem ég er flutningsmaður að og hefur verið dreift til allra þingmanna.

Hæstv. forseti. Ég vil fyrst af öllu ræða þær forsendur sem eru fyrir frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2007. Samkvæmt því frumvarpi sem nú liggur fyrir eftir umfjöllun nefndarinnar fyrir 2. umr. er gert ráð fyrir að tekjur ríkissjóðs verði rúmir 376 milljarðar kr. á árinu 2007 en útgjöldin rúmlega 367 milljarðar. Því verður tekjujöfnuður ríkissjóðs jákvæður um rúma 9 milljarða kr.

Meiri hluti fjárlaganefndar hefur lagt til aukin útgjöld upp á 9,5 milljarða kr. en að sama skapi er gert ráð fyrir að tekjur ríkissjóðs aukist um liðlega 3 milljarða. Þannig lækkar tekjujöfnuður ríkissjóðs sem því nemur. Eins og áður sagði er gert ráð fyrir 9 milljarða kr. afgangi, tekjujöfnuði á fjárlögum ársins 2007.

Hæstv. forseti. Forsendur fjárlaga hafa breyst og kannski sérstaklega vegna ákvarðana ríkisstjórnarinnar um lækkun á matvælaverði sem mun taka gildi 1. mars nk. Í fyrri áætlunum var gert ráð fyrir að verðbólga ársins 2007 yrði 4,5% en í endurskoðaðri áætlun er gert ráð fyrir að verðbólga ársins 2007 verði 3%. Þar kemur sérstaklega til sú lækkun sem mun verða á matvælaverði á næsta ári sem mun hafa þau áhrif að verðlag á matvöru mun lækka og því er forsendum breytt að þessu leyti og gert ráð fyrir að verðbólgan á árinu 2007 verði 3% sem er mikið ánægjuefni.

Hvað einkaneysluna varðar var í fyrri spá fjármálaráðuneytisins gert ráð fyrir samdrætti upp á 1,8% en nú er gert ráð fyrir að samdráttur í einkaneyslu verði um 1% í ljósi breyttra forsendna. Gert er ráð fyrir að atvinnuleysi verði 1,9% á árinu 2007, sem er með því allra lægsta sem gengur og gerist í Evrópu og er náttúrlega mikið fagnaðarefni fyrir okkur sem þjóð, að við skulum búa við svo hátt atvinnustig sem raun ber vitni og vitnar um sterka stöðu ríkissjóðs, því að að sjálfsögðu hefur sú mikla atvinnuþátttaka hér á innlendum vinnumarkaði og lítið atvinnuleysi stuðlað að mjög öflugum ríkissjóði.

Samkvæmt þeim forsendum sem gerðar eru vegna frumvarpsins árið 2007 er gert ráð fyrir að viðskiptahallinn verði sem samsvarar 11,1% af landsframleiðslu en áður var gert ráð fyrir 10,7% viðskiptahalla og er hann því að aukast örlítið sem því nemur. Hér er samt sem áður, hæstv. forseti, um mjög mikinn viðsnúning að ræða því að á árinu 2006, á þessu ári, er gert ráð fyrir um 19% viðskiptahalla. Sá viðsnúningur skýrist af því að innflutningur á næsta ári mun fara minnkandi vegna þess að umsvif vegna stóriðjunnar eru að minnka en að sama skapi munu útflutningstekjur ríkissjóðs vegna álveranna á Grundartanga og á Austurlandi aukast. Þess vegna mun viðskiptahallinn minnka mjög hratt vegna þeirra ákvarðana sem ríkisstjórnin hefur tekið, m.a. um atvinnuuppbyggingu á Austurlandi. Fyrir árið 2008 er gert ráð fyrir að viðskiptahallinn verði um 4% því að þá verða þau fyrirtæki sem hafa verið og eru í uppbyggingu hér á landi, bæði á Grundartanga og á Reyðarfirði, komin í fullan gang og því mun viðskiptahallinn stórlækka og verða um 4% árið 2008, eins og ég sagði áðan.

Hæstv. forseti. Hvað hagvaxtarspár snertir er gert ráð fyrir meiri hagvexti á næsta ári en við áætluðum. Hagvöxtur verður um 1,5% en var áætlaður um 1%. Skýringin á því er sú sama og gagnvart viðskiptahallanum, þ.e. gert ráð fyrir að mun meiri útflutningur verði það ár og mun minni innflutningur, og að útflutningur muni aukast um 10% en innflutningur að sama skapi um 9%.

Hæstv. forseti. Þá er eðlilegt að við spyrjum að þessu sögðu hvaða áhrif slíkar þjóðhagsstærðir hafi á kjör almennings. Eins og við vitum hefur kaupmáttur heimila aukist mjög mikið frá árinu 1995, um 50–60% raunkaupmáttaraukning, og trúlega má hvergi í Evrópu finna eins mikla kaupmáttaraukningu og á umræddu tímabili á Íslandi. Á þessu ári er gert ráð fyrir að kaupmáttur almennings aukist áfram um 5,7% sem er meira en menn gerðu ráð fyrir í forsendum fjárlaga fyrir árið 2006 og eru mikil gleðitíðindi. Jafnframt er gert ráð fyrir að á næsta ári haldi kaupmáttur almennings áfram að vaxa og að kaupmáttur almennings muni vaxa um yfir 5% á næsta ári og yfir 2% á árinu 2008. Við munum því halda áfram á þeirri leið að kjör almennings á Íslandi muni batna og í ljósi góðrar stöðu ríkissjóðs munum við reyna að skila þeim ávinningi sem við höfum náð í ríkisfjármálum til almennings og til þeirra stofnana í heilbrigðis-, mennta- og félagsþjónustunni sem þurfa alltaf á sífellt meiri fjármunum að halda. Við höfum náð að skapa miklar tekjur í samfélaginu til að standa undir þeim útgjöldum.

Hæstv. forseti. Eins og ég minntist á áðan er ríkissjóður nær skuldlaus í dag. Nettóstaða ríkissjóðs er mjög góð. Ég minntist á það við 2. umr. fjáraukalaga um daginn að árið 1998, það er ekki lengra síðan, greiddi íslenski ríkissjóðurinn í vaxtagjöld sem samsvaraði öllum framlögum til menntakerfisins. Öll framlög ríkissjóðs sem við vörðum árið 1998 til menntastofnana í landinu voru samsvarandi há og við vorum að verja til vaxtagjalda. Það sýnir sig því hvers lags gríðarlegur viðsnúningur hefur átt sér stað í rekstri ríkisins. Mjög miklir fjármunir eru nú til staðar í ríkissjóði til að standa vörð um mikilvæga málaflokka, eins og ég sagði áðan, og til að bæta enn frekar kjör almennings í framtíðinni.

Hæstv. forseti. Fram kom við 1. umr. fjárlaga að nauðsynlegt væri að fjárlaganefnd færi ítarlega ofan í málefni ráðuneyta og undirstofnana þeirra. Eins og ég sagði í nefndarálitinu áðan hefur nefndin haldið 28 fundi og fengið mikinn fjölda gesta á þá fundi til þess eins að fá skýra mynd á rekstur einstakra stofnana og ráðuneyta. Ég vil af því tilefni árétta að gott samstarf var í nefndinni og ég vil sérstaklega þakka nefndarfólki í fjárlaganefnd fyrir gott samstarf í þeirri vinnu. Að sjálfsögðu getur stjórn og stjórnarandstöðu greint á í ýmsum málum og skárra væri það nú. En mjög mikilvægt er í nefndarstarfi sem þessu að ná samkomulagi um verklag og hverjir skulu kallaðir á fund nefndarinnar og það tókst með ágætum. Fyrir það vil ég þakka.

Hæstv. forseti. Ég ætla þá að bregða mynd á þær útgjaldatillögur sem meiri hluti fjárlaganefndar leggur til við 2. umr. Stærstu útgjaldaliðirnir og mestu framlög sem meiri hlutinn leggur til eru til heilbrigðismála og til menntamála. Að sjálfsögðu er það þannig að þegar hver ríkisstjórn leggur fram fjárlög, og ríkisstjórnarflokkar að baki henni, þá er það sú pólitík sem viðkomandi meiri hluti boðar. Áhersluatriði meiri hlutans í þeirri fjárlagagerð sem hefur verið og átt hefur sér stað á undanförnum dögum er að auka framlög til velferðarmála, menntamála og standa vörð um þær glæsilegu stofnanir sem veita almenningi þjónustu á þeim sviðum.

Meiri hlutinn leggur til að 1.726 milljónum verði varið sérstaklega til menntakerfisins eða málefna menntamálaráðuneytisins. Þessir fjármunir fara ekki allir til menntakerfisins en þó nokkuð stór hluti af því og á ég eftir að fara betur yfir það í ræðu minni á eftir. Ríflega 1,5 milljarðar renna til heilbrigðisráðuneytisins, til heilbrigðisstofnana í landinu og mun ég fara betur yfir það á eftir. Þetta eru helstu línurnar sem meiri hlutinn hefur lagt til við 2. umr. í starfi sínu að leggja verulega fjármuni til heilbrigðisráðuneytisins og menntamálaráðuneytisins.

Hæstv. forseti. Ég ætla að fara yfir einstakar breytingartillögur. Ég mun stikla á stóru og fara yfir þau helstu mál sem meiri hlutinn hefur lagt áherslu á og mun ég ekki flytja tæmandi erindi um það og telja upp alla liði eða allar breytingartillögur sem nefndin gerði, heldur stikla á stóru hvað það varðar.

Í fyrsta lagi er lagt til að til liðarins Æðsta stjórn ríkisins verði framlög aukin um tæpar 174 milljónir. Lagt er til að fjárheimild til forsætisráðuneytisins verði aukin um 146 milljónir og til menntamálaráðuneytisins er gert ráð fyrir að tæpar 1.727 milljónir muni renna, eins og ég nefndi áðan.

Ég vil staldra aðeins við og minna á að á síðasta vori var samþykkt byggðaáætlun á Alþingi af öllum flokkum, þverpólitískt. Mjög mikil áhersla var lögð á í þeirri byggðaáætlun, þeirri stefnumótandi byggðaáætlun sem á að gilda næstu fjögur árin, á uppbyggingu menntunar og þekkingarstigs á landsbyggðinni. Ég hef sagt það áður úr þessum ræðustól að ef byggðaáætlun, stefnumótandi byggðaáætlun á að hafa eitthvert verulegt gildi í sjálfu sér verður þess að sjást stað í fjárlögum fyrir viðkomandi ár. Ég tel að eftir ágætt samstarf í fjárlaganefnd og eftir góða yfirferð yfir málefni menntamálaráðuneytisins endurspeglist tillögur meiri hlutans í því að við viljum ekki síst styrkja menntunarþáttinn á landsvísu, á landsbyggðinni, því mjög mikilvægt er fyrir byggðirnar að efla menntastofnanir sem þar eru fyrir og bera tillögur meiri hlutans þess merkis.

Hér er í fyrsta lagi gerð tillaga um 300 millj. kr. hækkun til Háskóla Íslands í samræmi við ákvæði nýs kennslu- og rannsóknarsamnings sem fyrirhugað er að gera við skólann. Með nýjum samningi mun Háskóli Íslands setja sér það markmið að öðlast viðurkenningu sem háskóli í fremstu röð. Við hljótum að fagna því stefnumiði sem háskólinn hefur sett sér í samstarfi við menntamálaráðuneytið. Það er mjög mikilvægt að við eflum Háskóla Íslands. Ég er talsmaður þess að við stöndum vörð um ríkisháskólana og ekki síst Háskóla Íslands og jafnframt Háskólann á Akureyri og mjög mikilvægt er að Háskóli Íslands hafi fjármuni til þess að fara í þá stefnumótun, í miklar breytingar á starfsemi sinni. Ég hef kynnt mér þær lítillega og mér líst mjög vel á það hvernig Háskóli Íslands heldur á sínum málum. Ríkisstjórnarmeirihlutinn leggur háskólanum lið í þeirri vinnu til að gera þann háskóla að einum framsæknasta háskóla í Evrópu.

Hæstv. forseti. Gerð er tillaga um 70 millj. kr. hækkun á fjárveitingu til rannsókna hjá Háskólanum á Akureyri. Hér er mjög mikilvægt skref stigið í þá átt að efla Háskólann á Akureyri sem er, eins og segir í byggðaáætlun stjórnvalda, ein mikilvægasta menntastofnun á landsbyggðinni og hefur í störfum sínum eflt menntun víðs vegar um landið, m.a. í gegnum fjarnám. Það er þannig að þeir nemendur sem stunda nám í Háskólanum á Akureyri kjósa frekar að búa á landsbyggðinni. Þetta segja opinberar tölur. Þess vegna er mjög mikilvægt að vel sé hlúð að þeim skóla sem gegnir svo veigamiklu hlutverki á þessu sviði á landsbyggðinni, eins og ég nefndi áðan, og kemur fram í byggðastefnu stjórnvalda fyrir næstu fjögur árin.

Jafnframt er gert ráð fyrir að 8 millj. kr. verði varið til náms sem fyrirhugað er að fari fram á vegum Háskólans á Akureyri í samvinnu við erlenda háskóla. Þetta er mjög merkilegt mál sem hæstv. utanríkisráðherra hefur beitt sér mjög fyrir og mjór er mikils vísir, vil ég segja í þessu. Það að Háskólinn á Akureyri skuli vera að festa sig í sessi sem alþjóðleg menntastofnun er mjög mikilvægt. Við þurfum að sækja fram, við þurfum að vera í útrás í háskólapólitíkinni sem og á öðrum sviðum í samfélagi okkar. Þess vegna fagna ég því sérstaklega að við skulum styrkja þetta alþjóðastarf hjá Háskólanum á Akureyri.

Hæstv. forseti. Meiri hlutinn leggur til að styrkja Reykjavíkurakademíuna. Annars vegar er þar lögð til 6,2 millj. kr. hækkun á framlagi til reksturs akademíunnar, hins vegar er gerð tillaga um 4 millj. kr. tímabundið framlag til tvískipts verkefnis í tengslum við tíu ára afmæli akademíunnar.

Hæstv. forseti. Reykjavíkurakademían er mjög merkilegt fyrirbrigði sem hlaut styrkveitingu á sínum tíma frá hv. fjárlaganefnd til að hefja starfsemi sína. Nú eru margir tugir fræðimanna innan akademíunnar og mjög merkilegt fræðastarf fer þar fram. Reykjavíkurakademían hefur ekki fengið mikla hækkun á fjárframlögum á undanförnum árum. Við í meiri hluta nefndarinnar töldum nauðsynlegt að styrkja rekstur akademíunnar því þar er unnið að mjög merkilegu og einstöku fræðastarfi og fræðasamfélagi sem á sér ekki hliðstæðu í þeim löndum sem við berum okkur saman við. Við vitum til þess að nágrannalönd hafa horft til þessa módels sem Reykjavíkurakademían er og því er mikilvægt að hún haldi áfram að eflast og stækka að vöxtum.

Hæstv. forseti. Málefni framhaldsskólanna hafa verið mjög til umræðu hér innan þings sem utan á síðustu missirum. Í tillögu í því frumvarpi sem lagt var fram nú í haust var gert ráð fyrir að auka framlög til framhaldsskólanna um 500 milljónir en jafnframt var gerð aðhaldskrafa þar á móti um að skerða þær 500 milljónir um 300 og við fengum í fjárlaganefnd þingsins mikil viðbrögð úr samfélaginu, ekki síst frá forustumönnum skólanna um að hér væri of langt gengið og að framhaldsskólunum væri of þröngt sniðinn stakkur á árinu 2007.

Við kynntum okkur í samvinnu við embættismenn í menntamálaráðuneytinu hvernig breytingar voru gerðar á reiknilíkaninu sem margir vildu meina að kæmu sérstaklega illa niður á verknámi og minni skólum á landsbyggðinni. Meiri hluti nefndarinnar hefur lagt það til í framhaldi af þessari vinnu að framlög til framhaldsskóla verði aukin um 250 millj. kr. á árinu 2007. Þar er sérstaklega lögð áhersla á að standa vörð um minni skóla, kannski ekki síst á landsbyggðinni, og um verknámsskólana, því að eins og þær breytingar sem gerðar voru á reiknilíkaninu voru fyrirhugaðar þá var ljóst að það mundi bitna sérstaklega illa á verkmenntun í landinu.

Það er mjög mikilvægt að standa vörð um verkmenntun. Við tölum fallega um þessar námsgreinar á tyllidögum og því er mjög mikilvægt að skerða ekki framlög til þeirra stofnana sem eiga að standa undir kennslu á þeim sviðum. Því leggur meiri hlutinn til að sérstaklega verði gert ráð fyrir hækkun til verkmenntaskólanna í landinu í tillögum hér við 2. umr. ásamt því sem minni skólar, sem eru kannski ekki með eins hagstæðar rekstrareiningar og þeir stærri, fái sérstakt framlag líka. Það er hægt að sjá það á fylgiskjali hver skiptingin er á milli einstakra skóla eins og þessar breytingartillögur meiri hlutans líta út.

Hæstv. forseti. Meiri hluti nefndarinnar hefur jafnframt gert tillögu um 24 millj. kr. hækkun á liðnum um Fræða- og þekkingarsetur og er fjárveitingin ætluð fjórum háskólasetrum sem þannig fá 6 millj. kr. framlag hver. Þau eru Háskólasetrið á Hornafirði, Háskólasetur Snæfellsness, Háskólasetur Vestfjarða, sem er Fornleifaskóli Vestfjarða, og loks rannsóknasetur Háskóla Íslands í sjávarspendýrafræðum á Húsavík sem ráðgert er að stofna í ársbyrjun árið 2007. Það verður hýst innan Þekkingarseturs Þingeyinga og rekið í nánu samstarfi við þá stofnun og Náttúrustofu Norðausturlands.

Hæstv. forseti. Þetta er í þeim anda sem ég rakti áðan um stefnumarkandi byggðaáætlun stjórnvalda næstu fjögur árin um að auka menntun á landsbyggðinni og fjölga til dæmis háskólasetrum. Ég tel að hér sé um mjög merkilegt skref að ræða. Við erum að stofna fjögur háskólasetur sem sérhæfa sig á ákveðnum sviðum og það er mjög mikilvægt fyrir þau byggðarlög sem ég nefndi hér áðan, sem velflest standa veikt í byggðalegu sjónarmiði, að við komum á fót fræða- og þekkingarsamfélagi á þessum svæðum því að það mun efla þessi samfélög til framtíðar litið. Þó að hér sé ekki um háar fjárveitingar að ræða mun þetta standa undir öflugu fræðastarfi og efla það þekkingarsamfélag sem er fyrir í þessum byggðarlögum. Ég tel vel koma til greina að ganga lengra í þessu á næstu árum því að við þurfum að hækka menntunarstigið á landsbyggðinni ef landsbyggðin á að vera samkeppnishæf við höfuðborgarsvæðið. Það er alveg ljóst og ég held að það sé enginn ágreiningur um það. Því leggur meiri hlutinn til að það verði varanlega sett á fót fjögur háskólasetur á landsbyggðinni eins og ég sagði á Hornafirði, Húsavík, Ísafirði og á Snæfellsnesi. Þetta er mikilvægt mál.

Jafnframt undir lið menntamálaráðuneytisins er gerð tillaga um 100 millj. kr. framlag til íslenskukennslu fyrir útlendinga. Fólki af erlendum uppruna sem kemur til Íslands til lengri eða skemmri dvalar hefur fjölgað mikið og er skýringa á því ekki síst að leita í mikilli eftirspurn eftir vinnuafli og hagsæld hér á landi. Við þekkjum umræðuna sem hefur farið fram að undanförnu um málefni útlendinga hér á landi. Hún er mjög viðkvæm og þess vegna er mikilvægt að innviðir stjórnkerfisins sem snúa að því fólki sem hefur komið hingað til þess að auka hagvöxt og velsæld hér á landi séu slíkir að við getum tekið sómasamlega á móti því. Því fögnum við sérstaklega því að lagðar séu 100 milljónir til þess að fram fari aukin íslenskukennsla hér á landi því nýbúar sem hingað koma munu aldrei geta samlagast íslensku samfélagi ef þeir ná ekki tökum á tungunni. Þess vegna er mikilvægt að við eflum þessa innviði, verjum meiri fjármunum til þess að erlent vinnuafl hér á landi hafi aðgang að íslenskukennslu. Þetta fólk er að skila okkur, ríkissjóði og íslensku samfélagi, gríðarlegum fjármunum með sínum störfum hér á landi og því eru þær 100 milljónir sem hér eru lagðar til hreinir smámunir miðað við það hvað þetta fólk er að leggja til samfélagsins.

Hæstv. forseti. Gerð var aðhaldskrafa á Þjóðminjasafn Íslands og í umræðum um ríkisstofnanir almennt hef ég lagt áherslu á að við reynum að setja höfuðstöðvar niður þar sem starfsemi er á landsbyggðinni því ef hagræða á í rekstri lenda útstöðvar frá höfuðborgarsvæðinu alltaf fyrstar undir skurðarhnífnum. Þetta er gömul saga og ný. Við fengum þær upplýsingar í fjárlaganefnd að í ljósi þessarar aðhaldskröfu stóð til að skerða starfsemi á landsbyggðinni, annars vegar hjá Forsvari á Hvammstanga og hins vegar Landvist á Húsavík, en þar er um að ræða mjög glæsileg fjarvinnsluverkefni þar sem þessi fyrirtæki hafa þjónustað Þjóðminjasafnið með ýmsum hætti og eru verkefnin nokkur. Við fengum þau skilaboð í hv. fjárlaganefnd að í ljósi aðhaldskröfu á Þjóðminjasafn Íslands var gerð tillaga um það að skera niður fjarvinnsluna á Hvammstanga og Húsavík. Kannski er það fjarlægðin sem skiptir þar máli. Það er kannski auðveldara að bregða hnífnum ef viðkomandi aðili er ekki í næsta skrifstofuherbergi við þig eða á sama gangi. En ég tel í ljósi þess, eins og ég minntist hér á áðan, að ef við í byggðaáætlun ætlum að fjölga opinberum störfum á landsbyggðinni þá séu svona skilaboð ekki góð. Við í meiri hluta fjárlaganefndar gerum tillögu um það að 5 milljónir verði settar í fjarvinnsluverkefni hjá Landvist á Húsavík og 5 milljónir hjá Forsvari á Hvammstanga. Þessi verkefni verða nú sérmerkt á fjárlögum. Þau voru sérmerkt en síðan féll sérmerkingin út þannig að þessi verkefni fóru undir Þjóðminjasafn Íslands. Eins og ég segi þá tel ég mjög mikilvægt að við stöndum vörð um þó þau fáu opinberu störf sem eru á landsbyggðinni. Ég tel að með þessari tillögu meiri hlutans sé starfsemin bæði á Hvammstanga og á Húsavík tryggð til langframa.

Hæstv. forseti. Við leggjum líka fram tillögu um að styrkja mjög merkilegt verkefni á vegum Landsbókasafns Íslands. Það er sem sagt gerð tillaga um að veita Landsbókasafni Íslands – Háskólabókasafni 12 millj. kr. á ári í þrjú ár til að setja dagblöð á stafrænt form. Undanfarin ár hefur verið unnið að því að setja Morgunblaðið á stafrænt form með styrk frá Árvakri. Lögberg-Heimskringla hefur verið myndað fyrir styrk frá menntamálaráðuneyti og nú hefur safnið fengið styrk frá 365 prentmiðlum til að hefja myndatöku á DV, Dagblaðinu og Vísi. Mikil slagsíða er á því dagblaðaefni sem nú er aðgengilegt og telur safnið óásættanlegt að einungis hluti af íslenskum dagblöðum sé aðgengilegur í stafrænu formi. Til að bæta úr þessu hafa Landsbókasafn og Amtsbókasafnið á Akureyri reynt að afla því stuðnings að Alþýðublaðið, Dagur, Tíminn og Þjóðviljinn verði einnig sett á stafrænt form. Landsbókasafnið leggur til myndavél, tengingar milli safnanna, þjálfun starfsmanna og forritunarvinnu.

Ég held að það sé mjög mikilvægt að almenningur hafi jafnt aðgengi að þeim blöðum sem ég nefndi hér sem ekki er búið að skanna. Þetta er mikið notað í upplýsingavinnu hjá námsmönnum, sagnfræðingum og fleirum sem vilja kynna sér heimildir til forna. En hingað til — eins og staðan er núna — hefur Morgunblaðið einungis verið aðgengilegt hvað þetta varðar og mjög mikilvægt er fyrir fræðimannasamfélagið og áhugasaman almenning að hægt sé að fletta upp þessum hinum blöðum líka á stafrænu formi.

Hæstv. forseti. Undir liðnum Söfn, ýmis framlög menntamálaráðuneytisins er gerð tillaga um 62 millj. kr. til safnamála. Í fyrsta lagi er gerð tillaga um 12 millj. kr. tímabundið framlag til Byggðasafnsins í Görðum á Akranesi vegna kútters Sigurfara, í öðru lagi 10 millj. kr. tímabundið framlag vegna Hvalasafnsins á Húsavík og þetta eru framlög sem á að gera samning um við viðkomandi söfn af hálfu menntamálaráðuneytisins. Í þriðja lagi á að gera samning við Víkina, Sjóminjasafnið í Reykjavík, og miðað er við að gerður verði samningur um 30 millj. kr. heildarstyrk sem greiðist í jöfnum greiðslum á þremur árum, árin 2007, 2008 og 2009.

Þá er í fjórða lagi gerð tillaga um 10 millj. kr. framlag vegna ríkisstjórnarsamþykktar vorið 2005 um 30 milljónir til Safnahúss í Búðardal sem greiða á í þremur jöfnum greiðslum, í fyrsta skipti árið 2006. Í frumvarpi til fjáraukalaga fyrir árið 2006 hefur þegar verið gert ráð fyrir 10 millj. kr. fjárheimild sem fallið hefur niður við afgreiðslu fjárlaga fyrir það ár.

Í fimmta lagi er gerð tillaga um 8 millj. kr. tímabundið framlag til Hrísbrúnar vegna fornleifarannsókna og uppgraftar. Heildarstyrkur er 24 millj. kr. sem greiðist í þremur jöfnum greiðslum á árunum 2007, 2008 og 2009.

Í sjötta lagi er gerð tillaga um 6 millj. kr. tímabundið framlag vegna Hekluseturs, en fyrirhugað er að gera samning um 30 millj. kr. styrk á næstu fimm árum. Fyrstu 6 millj. kr. koma til greiðslu 2007. Síðan verða jafnar greiðslur næstu ár og síðasta greiðsla árið 2011.

Í sjöunda lagi er gerð tillaga um 6 millj. kr. tímabundið framlag vegna Galdrasýningar á Ströndum en fyrirhugað er að gera samning um 30 millj. kr. styrk á næstu fimm árum.

Þetta eru sem sagt þær stofnanir sem menntamálaráðuneytið hefur gefið út að séu í því ferli að gera eigi samning við, þ.e. við viðkomandi söfn, enda er mjög mikilvægt fyrir viðkomandi byggðarlög að þau hafi það fast í hendi, þ.e. framtíðarframlög ríkisins til starfs viðkomandi safna. Hér er um mjög gott mál að ræða enda hafa mörg mjög merkileg söfn risið á undanförnum árum.

Hæstv. forseti. Við í meiri hlutanum gerum tillögu um 135,5 millj. kr. tímabundna hækkun á liðnum Húsafriðunarsjóði og snertir það málefni húsafriðunarnefndar. Við höfum verið í ágætu samstarfi við forstjóra húsafriðunarnefndar, Magnús Skúlason, og tillögur okkar varðandi húsafriðun eru í samræmi við ráðleggingar Magnúsar Skúlasonar. Þær eru eins og ég áður sagði upp á 135,5 milljónir. Þetta eru fjölmörg verkefni og mörg þeirra hafa verið um áraraðir í tillögum meiri hluta fjárlaganefndar í uppbyggingarfasa og taka mörg ár oft og tíðum.

Hæstv. forseti. Við leggjum einnig til framlög til ýmissa verkefna á sviði fornleifa. Kristnihátíðarsjóður mun ekki veita framlag til fornleifarannsókna á næsta ári vegna þess að það fé er upp urið. Því fengum við í fjárlaganefnd mörg erindi um að halda áfram styrkveitingu til ýmissa fornleifarannsókna sem Kristnihátíðarsjóður hefur meðal annars styrkt. Mörg þessi verkefni eru einungis hálfköruð. Það er mjög mikilvægt að við klárum þessar rannsóknir sem hafa ekki síst sögulegt gildi fyrir okkur og líka mikið gildi fyrir ferðaþjónustu á viðkomandi stöðum því að hér er um mjög áhugaverð verkefni að ræða.

Meiri hluti nefndarinnar gerir tillögu um 34,4 millj. kr. hækkun til Ungmennafélags Íslands. Þar af er 19,4 millj. kr. hækkun á framlagi til Ungmennafélags Íslands og er 15 millj. kr. framlag ætlað Dalabyggð ásamt UMFÍ vegna ungmenna- og tómstundabúða að Laugum í Sælingsdal.

Svo ég fari í fljótheitum yfir málefni utanríkisráðuneytisins þá gerir meiri hlutinn ráð fyrir að framlög til utanríkisráðuneytisins verði hækkuð um 325 millj. kr. Þar vil ég vekja sérstaka athygli á lið 1.23 Mannréttindamál. Þar er gerð tillaga um 4 millj. kr. millifærslu á fjárheimildum af liðnum Þróunarmál og alþjóðleg hjálparstarfsemi yfir á þennan lið. Munu fjármunir af þessum lið renna til Mannréttindaskrifstofu Íslands sem mikið hefur verið í umræðunni við fjárlagagerð á undanförnum árum.

Undir landbúnaðarráðuneyti eru lagðar til 107,8 millj. kr. til útgjaldaauka. Þar ætla ég að stikla á stóru. Gerð er tillaga um 24 millj. kr. hækkun framlags til Skógræktar ríkisins, þar af eru 14 millj. kr. vegna Hekluskóga.

Staða Skógræktarinnar hefur mikið verið til umfjöllunar innan fjárlaganefndar og utan og hafa forsvarsmenn Skógræktarinnar bent á að frá árinu 2005 hafa framlög til stofnunarinnar ekki fylgt verðlagsþróun, að í raun og veru hefur Skógræktin verið rekin á eignasölu. Fjármunum sem Skógræktin hefur haft af eignasölu hefur verið varið áfram til rekstrar. Meiri hlutinn leggur til að bætt verði við 10 millj. kr. í rekstrargrunn Skógræktarinnar auk þess sem við vitum að miklir fjármunir munu koma vegna sölu á löndum Skógræktarinnar á næsta ári. Við höfum tryggingu fyrir því að starfsemi Skógræktarinnar verði á næsta ári í engu skert. Skógræktin muni halda áfram að sinna verkefnum sínum. Fjármunir til þeirrar stofnunar og þeirra verkefna verði tryggðir, bæði með hækkunum á þessum grunni og síðan með sölu á löndum Skógræktarinnar. Rekstur Skógræktarinnar á næsta ári er tryggður. Það er mikilvægt að við stöndum vel að framlögum til skógræktar því að Skógrækt ríkisins sinnir mörgum metnaðarfullum verkefnum víða um land. Það væri synd ef Skógræktin þyrfti vegna fjárskorts að hætta einhverjum af þeim verkefnum. Við teljum tryggt að Skógræktin geti verið með óbreyttan rekstur og staðið að öllum þeim verkefnum sem nú eru í gangi á næsta ári.

Undir liðnum Dóms- og kirkjumálaráðuneyti er lögð til 340,9 millj. kr. viðbót. Þar vil ég sérstaklega nefna fangelsisbyggingar. Lagt er til að tímabundið framlag til endurbóta og framkvæmda við fangelsi og lögreglustöð á Akureyri og fangelsi á Kvíabryggju verði hækkað um 23,5 millj. kr. Í fjárlögum 2006 og fjárlagafrumvarpi 2007 hafa verið veittar samtals 168 millj. kr. til fangelsisins á Akureyri. Gert var ráð fyrir að nýta uppsafnaðan afgang til framkvæmda á Kvíabryggju.

Við þekkjum málefni fangelsanna. Það skortir tilfinnanlega á úrbætur í því, t.d. á Kvíabryggju og á Akureyri. Því er sérstakt fagnaðarefni að við skulum auka framlög til þessara fangelsa til að hægt sé að bæta aðstöðu bæði fanga og starfsmanna í því samhengi.

Hæstv. forseti. Til félagsmálaráðuneytisins er gert ráð fyrir 927 millj. kr. hækkun. Þar er gerð tillaga um 60 millj. kr. framlag til að koma til móts við kostnað sveitarfélaga við að bjóða fötluðum börnum í 5.–10. bekk grunnskólans svonefnda lengda viðveru fyrir og eftir reglulegan skólatíma. Þetta hefur verið mikið baráttumál hagsmunasamtaka fatlaðra. Ég tel að þó að hér sé einungis um bráðabirgðalausn að ræða þá eigi það ekki bitnað á fötluðum nemendum í grunnskólum landsins þegar hnútur er á samstarfi ríkis og sveitarfélaga varðandi málefni fatlaðra að þessu leyti. Hér er verið að bæta mjög þjónustu við fatlaða nemendur í grunnskólum landsins. Ég tel brýnt að ríki og sveitarfélög höggvi sem fyrst á þann hnút og komast að því hver eigi að þjónusta þennan hóp fatlaðra barna. Við þurfum að hafa það tryggt að fötluð börn njóti þeirra sjálfsögðu mannréttinda að fá þjónustu innan grunnskólanna og lengda viðveru eins og öll önnur börn.

Ég vil líka, hæstv. forseti, vekja sérstaka athygli á að lagt er til að veittar verði 30 millj. kr. til starfsemi nýrrar skammtímavistunar fyrir fötluð börn og ungmenni í Reykjavík. Það er mikil eftirspurn eftir slíkri þjónustu. Árið 2000 var komið á fót sérstöku átaki til að minnka biðlista, bæði í skammtímavistun og ekki síst í búsetuúrræðum fyrir fatlaða. Á annað hundrað búsetuúrræða hafa verið byggð upp á þessu tímabili. Það var mjög slæmt ástand í málaflokknum árið 2000 og við þurfum að halda áfram að gera betur.

Átak í málefnum geðfatlaðra er í gangi en það má ekki þýða að málefni fatlaðra verði sett á núllpunkt. Við þurfum að halda áfram að bæta þjónustu við fatlaða. Það er sérstakt ánægjuefni að lagt er til að ný skammtímavistun verði reist í Reykjavík sem getur þjónað fjölda af börnum og fjölskyldum þeirra. Þessi úrræði hafa verið mjög vel nýtt og það mun minnka verulega álag á aðstandendur fatlaðra barna, þetta úrræði sem lagt er til af hálfu meiri hlutans að byggja upp í Reykjavík á næsta ári.

Hæstv. forseti. Varðandi heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti er lagt til, eins og ég sagði áðan, að liðurinn verði hækkaður um 1.541,5 millj. kr. Þar vil ég sérstaklega vekja athygli á því sem hefur verið mikið baráttumál eldri borgara. Lagt er til að 192 millj. kr. fari í hækkun á tekjutryggingu ellilífeyrisþega vegna 300 þús. kr. frítekjumarks á atvinnutekjur. Tillagan er í samræmi við samkomulag við eldri borgara en þó er lagt til að framkvæmdinni verði flýtt um tvö ár frá því sem samkomulagið gerir ráð fyrir.

Hæstv. forseti. Kjör aldraðra hafa mikið verið í umræðunni innan þings sem utan. Forustumenn aldraðra hafa staðið í mikilli kjarabaráttu fyrir hönd þeirra. Ég fagna því að í tillögum meiri hlutans er gert ráð fyrir því að aldraðir muni frá næstu áramótum hafa 300 þús. kr. frítekjumark til þess að geta farið út á vinnumarkaðinn í hlutavinnu án þess að bótaréttur þeirra skerðist. Í samkomulagi við aldraða var gert ráð fyrir að þetta mundi ekki öðlast gildi fyrr en árið 2009 en þessari breytingu er núna flýtt um tvö ár. Það er ánægjuefni að við skulum stíga það skref að veita öldruðum möguleika á að starfa á almennum vinnumarkaði án þess að lífeyristekjur þeirra skerðist svo um munar. Það er mikilvægt að við getum notið þess að aldraðir leggi hönd á plóg í atvinnulífinu. Það er mikil eftirspurn eftir vinnuafli og þar er um mjög hæft fólk að ræða sem býr yfir mikilli reynslu. Ég fagna þess vegna sérstaklega því að verið sé að bæta kjör aldraðra í þessum efnum.

Hins vegar er alveg ljóst að við erum á langri vegferð í að bæta kjör aldraðra. Það þarf að gera enn betur. Við þurfum að hækka skattleysismörkin, sem munu reyndar hækka í 90 þús. kr. á næsta ári. En við þurfum að halda áfram að bæta kjör aldraðra og öryrkja.

Hæstv. forseti. Gert er ráð fyrir því að hækka framlag til Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri um 100 millj. kr., sem er hækkun á rekstrarframlagi og fer í rekstrargrunn spítalans. Jafnframt er gert ráð fyrir 1 milljarðs hækkun til að styrkja rekstrargrunn Landspítala – háskólasjúkrahúss. Þar með eru þessar tvær lykilstofnanir í heilbrigðiskerfi okkar landsmanna í mjög góðum málum á árinu 2007.

Undir lið fjármálaráðuneytisins er gert ráð fyrir hækkun um 737,4 millj. kr.

Undir lið samgönguráðuneytisins er áætlað að fjárheimild ráðuneytisins verði aukin um 368 millj. kr.

Undir lið iðnaðarráðuneytisins er lagt til að fjárheimild verði aukin um 61 millj. kr.

Undir lið viðskiptaráðuneytisins er gert ráð fyrir að heimildir verði auknar um 17 millj. kr.

Undir lið Hagstofu Íslands er gert ráð fyrir að fjárheimild aukist um 35 millj. kr.

Að lokum er lag til, undir lið umhverfisráðuneytisins, að fjárheimild þess verði aukin um 236 millj. kr. Ég vek þar sérstaka athygli á málefnum náttúrustofa sem eru sjö talsins á landinu og gegna mjög mikilvægu hlutverki í rannsóknastarfi á landsbyggðinni í náttúruverndarmálum. Meiri hluti nefndarinnar lagði til að 7 millj. kr. yrðu veittar aukalega til hverrar og einnar náttúrustofu til ýmissa verkefna.

Hæstv. forseti. Ég held að ég hafi farið að mestu leyti yfir útgjaldatillögur meiri hlutans. Ég tel að það hafi verið mjög brýnt að bregðast við ýmsu er varðar málefni einstakra stofnana og jafnvel félagasamtaka vegna fjárlaga ársins 2007. Að baki öllum þessum tillögum liggur heilmikil vinna, eins og nefndarmenn vita. Ég er sannfærður um að við höfum í þessu starfi bætt hlut margra stofnana til muna vegna starfsemi á þeirra vegum á árinu 2007.

Hæstv. forseti. Ég vil að lokum nefna, í ljósi þess að við leggjum til stóraukin framlög til velferðar-, mennta- og heilbrigðismála, að að sjálfsögðu erum við líka að skila til almennings í landinu ágóðanum af því að ríkissjóður hefur verið vel rekinn á síðustu 11 árum. Eins og ég hef margoft sagt er ríkissjóður nær skuldlaus þannig að við erum að greiða mjög lítil vaxtagjöld. Þess vegna getum við skilað þeim ávinningi sem náðst hefur í ríkisfjármálum til heimilanna í landinu. Þar ber að nefna, eins og ég benti á áðan, að hækka á skattleysismörk upp í 90 þús. kr. um næstu áramót, sem skiptir miklu máli, sérstaklega fyrir þá lægst launuðu.

Auka á framlög til barnabóta um 1,7 milljarða frá og með næstu áramótum. Það mun sérstaklega koma lágtekju- og millitekjufólki til góða. Ég vil líka benda á að börn, 16 og 17 ára, fá nú rétt á barnabótum, sem er mjög skynsamlegt þar sem sjálfræðisaldurinn var hækkaður fyrir nokkrum árum úr 16 árum upp í 18 ár. Þar er um börn að ræða í skilningi laganna og því eðlilegt að þessir einstaklingar fái barnabætur eins og önnur börn. Þetta er lagt til að taki gildi á næsta ári.

Það á að halda áfram að lækka tekjuskattinn. Hann mun lækka um 1% um næstu áramót og hefur því lækkað um 3% á því kjörtímabili sem nú lýkur senn.

Mikil umræða hefur verið tengd fjárlögunum um lækkun á matarskatti. Hefur stjórnarandstaðan farið mikinn í þinginu um að við framsóknarmenn höfum sérstaklega verið á móti því að lækka matarskattinn. (Gripið fram í: Er það ekki?) Ég held að þær hafi verið ófáar ferðirnar sem ég hef komið hingað upp til þess að reyna að leiðrétta þann mikla misskilning (Gripið fram í.) sem stjórnarandstaðan … (Gripið fram í.) — Nú heyri ég að órói er í salnum því að (Gripið fram í.) stjórnarandstöðunni líður kannski ekki vel undir þessum lestri.

(Forseti (RG): Gefa þingmanni hljóð.)

Ég hef komið ófáar ferðirnar hingað til að benda stjórnarandstöðunni á að það hefur ekki verið neinn ágreiningur um að skoða beri það að lækka matarskattinn. En stjórnarandstaðan kom alltaf aftur (Gripið fram í.) og sagði — sérstaklega hv. þm. Össur Skarphéðinsson: Framsóknarflokkurinn er á móti því að lækka matarskattinn. (Gripið fram í.) Við komum hingað hv. þingmenn … (Gripið fram í.)

(Forseti (RG): Gefum ræðumanni hljóð.)

Hæstv. forseti. Eins og ég sagði hef ég komið ófáar ferðir og sagt stjórnarandstöðunni að hún þyrfti ekki að hafa áhyggjur af þessu máli. Þetta væri allt í farvegi innan ríkisstjórnarinnar. En samt hefur hún þrástagast á því að Framsóknarflokkurinn væri á móti því að lækka matarskattinn. Þess vegna vil ég vekja athygli hv. þingmanna á því að í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2007 er gert ráð fyrir því að matarskatturinn, virðisaukaskattur af matvælum, verði lækkaður úr 14% ofan í 7%. (ÖS: Af því að þið voruð beygðir.) Þetta er mjög mikilvægt mál. Margir hafa borið þetta mál fyrir brjósti og ég vil benda á að innan Framsóknarflokksins hefur verið ályktað um þetta mál á flokksþingum. Að sjálfsögðu þarf Framsóknarflokkurinn að fara eftir ályktunum flokksþinga sinna ef svigrúm er til. (Gripið fram í.) — Ég sé að Össur hlær, hv. þm. Össur Skarphéðinsson hlær mikið að þessu.

Í ljósi góðrar stöðu ríkissjóðs höfum við svigrúm til þess að lækka virðisaukaskatt af matvælum. (Gripið fram í.) Þannig höldum við áfram að bæta kaupmátt heimilanna í landinu eins og við höfum gert á síðustu ellefu árum. Kaupmáttur heimilanna í landinu hefur aukist um 50–60%. Kaupmáttur almennings eykst á þessu ári um 5,7%, sem er meira en gert var ráð fyrir í forsendum fjárlaga fyrir árið 2006. Á næsta ári er gert ráð fyrir að kaupmáttur almennings aukist um 5%, (Gripið fram í.) rúmlega 5%. Árið 2008 er gert ráð fyrir því að kaupmáttur almennings aukist um rúm 2%. Við ætlum því að halda áfram á þeirri vegferð að skila almenningi því að ríkissjóður er vel rekinn. Við höfum svigrúm til þess að bæta kjör almennings og jafnframt að standa vörð um mikilvægar heilbrigðis-, mennta- og velferðarstofnanir í þessu þjóðfélagi.

Hæstv. forseti. Það er með mikilli ánægju sem ég lýk máli mínu. Ég tel að þau fjárlög sem hér hafa verið lögð fram við 2. umr. séu góð fjárlög. Það er verið að lækka skatta, auka kaupmátt heimilanna, verja mjög miklum fjármunum til velferðarmálanna og við erum líka að skila ríkissjóði með tekjuafgangi. Þar af leiðandi er ríkissjóður orðinn nær skuldlaus. Þetta sýnir okkur, hæstv. forseti, að staða ríkissjóðs er sterk og við erum á réttri leið hvað þetta varðar.

Hæstv. forseti. Í nefndaráliti frá meiri hlutanum — ég bið hv. þingmenn sem hafa skjalið fyrir framan sig að líta á það — er meinleg villa. Þar segir að í endurskoðaðri tekjuáætlun efnahagsskrifstofu fjármálaráðuneytis sé gert ráð fyrir tekjur verði 376 þús. milljarðar kr. Þetta er smávægileg villa, en þarna eiga að standa milljónir kr. Ég bendi þingmönnum á það og það er komið í þingtíðindi að hér er um meinlega villu að ræða. Þar sem segir milljarðar eiga að standa milljónir. En kannski er það skiljanlegt í ljósi gríðarlega góðrar afkomu ríkissjóðs að menn geri svona mistök. Ef við höldum áfram á þessari leið getum við farið að telja í þúsundum milljarða, ég lofa hv. þm. Einari Má Sigurðarsyni því. Við ætlum að halda áfram að bæta hag almennings og mennta-, heilbrigðis- og velferðarstofnana. (ÖS: Leiðréttu þetta með matarskattinn.) Þar með lýk ég máli mínu.