133. löggjafarþing — 34. fundur,  23. nóv. 2006.

fjárlög 2007.

1. mál
[12:29]
Hlusta

Frsm. minni hluta fjárln. (Einar Már Sigurðarson) (Sf) (andsvar):

Frí forseti. Það er nú óþarfi fyrir hv. þingmann að láta svekkelsi yfir því að við í minni hlutanum skulum vera sameinuð með tillögu, og það enga smátillögu, sem segir, eins og farið var yfir, hver eru algjör forgangsverkefni eftir aðgerðir eða aðgerðaleysi ríkisstjórnarinnar á þeim sviðum. Þetta er að sjálfsögðu táknræn tillaga um hvað við viljum setja í forgang.

Við gætum komið með fjölda tillagna eins og við höfum margoft gert áður til að leyfa hv. þingmanni að halda áfram að fella tillögur eins og hann hefur ætíð gert, meira að segja tillögur sem við höfum lagt fram — ég nefni bara dæmi frá því í fyrra — varðandi framhaldsskólana sem birtust síðan í tillögum frá meiri hluta fjárlaganefndar í fjáraukalögum, nákvæmlega sama krónutala og við bentum á. Hvaða tilgangi þjónar það? Það þjónar engum tilgangi, því miður, virðulegi þingmaður, af þeirri einföldu ástæðu að hér er ekki unnið að alvörufjárlögum.

Ég hélt að ég hefði farið nógu oft yfir það með hv. þingmanni til að hann skildi að vinna meiri hluta fjárlaganefndar, vinna ríkisstjórnarinnar í ríkisfjármálum, er með þeim hætti að það er ekki nokkur leið fyrir ábyrgan minni hluta að byggja nokkrar tillögur á því rugli sem frá ykkur kemur, hv. þingmaður.

(Forseti (JóhS): Hv. þingmönnum ber að beina orðum sínum að forseta en ekki beint að einstaka þingmönnum.)