133. löggjafarþing — 34. fundur,  23. nóv. 2006.

fjárlög 2007.

1. mál
[12:31]
Hlusta

Frsm. meiri hluta fjárln. (Birkir Jón Jónsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það skiptir engu máli, sagði hv. þm. Einar Már Sigurðarson, hvað við leggjum hér til, það skiptir engu máli. Það skiptir þá væntanlega engu máli hvaða sýn þjóðin á að hafa á stefnu Vinstri grænna, Samfylkingarinnar og Frjálslynda flokksins. Það skiptir engu máli að hafa stefnu í fjárlagagerð. Ég hef, hæstv. forseti, eiginlega aldrei séð aðra eins útreið hjá stjórnarandstöðunni eins og nú á fjórða ári þessa kjörtímabils. Engin lína lögð í mennta-, heilbrigðis- eða félagsmálum.

Það er með ólíkindum, enda vissi ég það, hæstv. forseti, að sundruð stjórnarandstaða gæti ekki komið sér saman um slíkar tillögur í svona mikilvægum málaflokkum. Eins og hv. þm. Einar Már Sigurðarson benti réttilega á áðan voru þeir á þeirri tillögu um að auka framlög til framhaldsskólanna, Frjálslyndi flokkurinn og Samfylkingin. Vinstri grænir voru ekki á þeirri tillögu, enda var það þannig í fyrra og öll árin á kjörtímabilinu að stjórnarandstaðan er út og suður og rökþrota stjórnarandstaða er nú í þeim sporum að geta ekki komið með tillögur vegna þess að það skiptir ekki máli.

Auðvitað skiptir það ekki máli að þjóðin fái að vita hvaða stefnu Vinstri grænir, Samfylkingin og Frjálslyndi flokkurinn hafa í velferðar- og menntamálum. Það skiptir engu máli, sagði hv. þm. Einar Már Sigurðarson. Er þetta boðlegt? (Gripið fram í.)

Hæstv. forseti. Ég óska hv. stjórnarandstöðu góðs gengis í umræðunni en það verður kannski ójafn leikur í ljósi þess að ef þingmenn Vinstri grænna ætla að koma hér upp og gagnrýna okkur fyrir að auka ekki útgjöld til hinna og þessara málaflokka þá hafa þeir ekkert lagt fram sjálfir. Engar tillögur liggja fyrir.