133. löggjafarþing — 34. fundur,  23. nóv. 2006.

fjárlög 2007.

1. mál
[12:38]
Hlusta

Einar Oddur Kristjánsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hlýt að endurtaka spurninguna: Fylgir þingflokkurinn eða hv. þingmaður stefnu Seðlabankans eða ekki? (Gripið fram í.)

Í júní síðastliðnum gerðu aðilar vinnumarkaðarins, Alþýðusamband Íslands og Samtök atvinnulífsins, með sér samkomulag sem var meginsamkomulag, það skiptir öllu máli. Ríkisstjórnin lýsti yfir fullkomnum stuðningi við það samkomulag.

Seðlabanki Íslands fór gegn því samkomulagi. Hann fór gegn því og hækkaði vexti aftur og aftur þrátt fyrir yfirlýsingar vinnumarkaðarins um hvað þeir ætluðu að gera og hvernig þeir væru að vinna. Er hv. þingmaður sammála þessu eða ekki? Telur hann að Seðlabankinn hafi gert rétt eða rangt? Ég vona að hann geti svarað því.

Það eru nefnilega deilur um peningamálin í heiminum. Það eru heilmiklar deilur um hvernig beri að stjórna þeim. Á Íslandi hefur það gerst að hingað inn hefur streymt gríðarlegt magn af erlendu fé, fé sem er að leita að vaxtamismun. Spurningin er sú: Hefur vaxtahækkun Seðlabankans orðið til þess að deyfa verðbólgu, minnka eftirspurn, minnka spennu eða hefur hún verið til þess að auka hana? Það er nefnilega spurningin sem menn þurfa að spyrja sig í dag. Seðlabankinn, sem hefur verið að leika alltaf þetta mikla, fallega hlutverk að þykjast vera eitthvert slökkvilið í þjóðfélaginu, getur verið að hann hafi verið sjálfur brennuvargurinn?

Það er nauðsynlegt að menn horfist í augu við þetta og nauðsynlegt að hv. þingmaður svari spurningum sem til hans er beint, já eða nei, er hann sammála þeim eða er hann ósammála þeim?