133. löggjafarþing — 34. fundur,  23. nóv. 2006.

fjárlög 2007.

1. mál
[12:40]
Hlusta

Frsm. minni hluta fjárln. (Einar Már Sigurðarson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Til þess að róa hv. þingmann get ég sagt að ég tel að Seðlabankinn hafi gengið fullhart fram í vaxtahækkunum sínum, ef hv. þingmanni líður örlítið betur við það, því ég verð að segja eins og er, frú forseti, að maður hefur orðið örlitlar áhyggjur af formanni og varaformanni fjárlaganefndar vegna þess að þeir eru fullæstir svona í miðju hádeginu. Það er full ástæða til að reyna að róa hv. þingmenn niður. (EOK: Reyndu að svara þessu.)

Ég er búinn, hv. þingmaður, að svara því, ég tel að Seðlabankinn hafi gengið fullhart fram í vaxtahækkunum. En ég frábið mér það að hv. þingmaður leyfi sér endalaust og stöðugt að gera ríkisstjórnina stikkfrí í efnahagsmálum og þeim efnahagsvanda sem verið hefur. Ríkisstjórnin ber auðvitað höfuðábyrgð á því hvernig skipinu hefur verið siglt í þeim efnum. Það þensluástand og sú verðbólga sem kom upp í sumar er að sjálfsögðu vegna aðgerða eða aðgerðaleysis ríkisstjórnarinnar. Aðilar vinnumarkaðarins hafa nú í tvígang á stuttu tímabili komið með björgunarbátinn og bjargað ríkisstjórninni í versta vandanum. (Gripið fram í.) Þess vegna, hv. þingmaður, — frú forseti, hv. þingmaður virðist ekki vilja hlusta — er auðvitað alveg nauðsynlegt að hv. þingmaður geri sér grein fyrir því að ríkisstjórnin hefur hlutverki að gegna í þessum efnum. Það þýðir ekki að koma hér ár eftir ár og hjóla í Seðlabankann eða fá útrás fyrir einhverja geðvonsku út í fyrrverandi hæstv. forsætisráðherra, sem nú situr í Seðlabankanum, og standa hér uppi og skammast út í það sem þar er gert. (Gripið fram í.)

Leitum upprunans og leitum vandans. Ef við gerum það á réttum stöðum, frú forseti, hef ég trú á að ná megi tökum á efnahagsmálunum svo aðilar vinnumarkaðarins þurfi ekki að koma með reglulegu millibili með björgunarbátinn til að bjarga ríkisstjórninni úr því feni sem hún hefur sjálf komið sér í.