133. löggjafarþing — 34. fundur,  23. nóv. 2006.

fjárlög 2007.

1. mál
[13:31]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg) (frh.):

Virðulegi frú forseti. Ég var kominn þar í máli mínu fyrir hádegisverðarhlé þar sem ég var að gera grein fyrir sameiginlegum tillögum Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, Samfylkingarinnar og Frjálslynda flokksins varðandi afgreiðslu fjárlaga hér við 2. umr.

Við leggjum mikla áherslu á að kjör elli- og örkorkulífeyrisþega verði í raun bætt. Ég vitnaði til tölvupósts, eins af mörgum sem við þingmenn fáum þar sem fólk lætur í ljósi skoðanir sínar, ber upp erindi sín og tjáir hug sinn til einstakra mála, sem er okkur ómetanlegt í starfi okkar á Alþingi.

En höfum sameinast um, þingmenn stjórnarandstöðuflokkanna, þingmenn velferðarflokkanna, að leggja nú megináherslu á málefni þessa fólks. Við fluttum tillögu um það í haust, í byrjun þings, sameiginlega tillögu varðandi elli- og örorkulífeyri, eins konar framtíðarsýn okkar í þessum málum.

Í samræmi við það leggjum við til að tekjutrygging ellilífeyrisþega verði hækkuð, við leggjum til nýja framtíðarskipan lífeyrismála, eins og segir í greinargerð með tillögum okkar. Það eru Samfylkingin, Vinstri hreyfingin – grænt framboð og Frjálslyndi flokkurinn sem standa saman að þessum málum.

Í greinargerðinni segir: Þingmenn stjórnarandstöðunnar lögðu fram í upphafi þessa þings þingsályktunartillögu um nýja framtíðarskipan lífeyrismála. Með þeirri breytingartillögu sem við nú flytjum og ég mæli hér fyrir er lagt til að eftirtaldir liðir í þeirri tillögu komist til framkvæmda strax 1. janúar 2007:

Í fyrsta lagi að ný tekjutrygging aldraðra verði 85 þús. kr. á mánuði og öryrkja 86 þús. kr. á mánuði frá 1. janúar 2007 að viðbættum vísitölubreytingum sem þar hafa orðið. Frá sama tíma verði dregið úr skerðingaráhrifum tekna þannig að í stað þess að skattskyldar tekjur yfir frítekjumarki skerði tekjutryggingu um 45% þeirra tekna sem umfram eru, verði hlutfallið 35%.

Frítekjur vegna atvinnutekna lífeyrisþega verði 75 þús. kr. á mánuði, eða 900 þús. kr. á ári og skerði ekki tekjutryggingu. Það er gríðarlega mikilvægt, eins og ég lagði áherslu á í ræðu minni áðan, að innbyggður hvati sé til að fólk geti valið sér sveigjanlegri starfslok. Það sé hvatt til að vera og taka þátt í vinnumarkaðnum að hluta eða að öllu leyti svo lengi sem það hefur kraft og vilja til, án þess að grunnlífeyrir þess skerðist. Ekki síst í því atvinnuástandi sem við nú búum við þar sem er gríðarleg þensla og skortur á vinnufúsum höndum. Einmitt þá ætti þetta að vera til mikilla hagsbóta.

Þá leggjum við líka til að ráðstöfunarfé, svokallaðir vasapeningar við dvöl á stofnun, hækki um 50% frá 1. júlí ásamt því að frítekjumark gagnvart tekjum þeirra sem dvelja á stofnunum verði hækkað úr 50 þús. kr. í 75 þús. kr. Og frá 1. janúar höfum við þá stefnumörkun að breyta greiðslufyrirkomulagi á daggjaldastofnunum til aldraða í svipaða veru og gildir fyrir fatlaða á sambýlum.

Við erum ekki hér að tala um háar upphæðir, frú forseti. En þó er þetta mikil hækkun frá því sem nú er. Við teljum þetta alger lágmörk til að tryggja lágmarkstekjugrunn fólks þannig að það geti lifað og tekið þátt í samfélaginu af lágmarksreisn.

Tillögur okkar á næsta ári hljóða samtals upp á 7 milljarða 383 millj. og 700 þús. kr. Nú er það svo þegar upphæð sem og þessi kemur inn í veltu samfélagsins þá fer hluti af henni að sjálfsögðu aftur í skatta til ríkisins. Hluti af þessu fer að sjálfsögðu í aukna neyslu og þannig skilast peningarnir til baka. Auk þess sem almenn heilbrigði og velsæld fólks eykst ef það getur stundað atvinnu sem lengst án þess að það skerði grunnlífeyri.

Á móti þessum tillögum flytjum við tekjujöfnunartillögur þó svo við teljum reyndar að svigrúmið nú í tekjum ríkissjóðs sé það mikið að það ætti að vera hægt að koma til móts við þessar kröfur eða tillögur okkar gagnvart elli- og örorkulífeyrisþegum án þess að gera endilega ráð fyrir auknum tekjum ríkissjóðs.

Ef við værum við stjórnvölinn, þá mundum við líka forgangsraða útgjaldaliðum ríkissjóðs með öðrum hætti en núverandi ríkisstjórn gerir. Enda er það einn meginmunur á velferðarflokkunum sem berjast fyrir velferð almennings og hinum sem hugsa stöðugt um þá sem hæstar og mestar hafa tekjurnar. En við leggjum til á móti að reiknað verði með meiri tekjum af sköttum af hagnaði og hærri tekjuskatti með auknum innheimtuaðgerðum, með auknu skatteftirliti, en það hefur þráfaldlega verið í umræðunni að hér séu tugir milljarða kr. sem ríkið verði af í sköttum vegna undanskota eða farið sé á svig við skattalög.

Í því sambandi, virðulegi forseti, minni ég á ritstjórnargrein í Morgunblaðinu frá 22. júlí síðastliðnu, undir yfirskriftinni „Feluleikir, skattar og eignarhald“ og þar segir, með leyfi forseta:

„Morgunblaðið sagði frá því í frétt á baksíðu í gær að félög og einstaklingar skráðir á Ermarsundseynni og skattaparadísinni Guernsey, ættu um 41 milljarð kr. í íslenskum fyrirtækjum. …

Í mörgum og kannski flestum tilfellum er allt uppi á borðinu um það hverjir raunverulegir eigendur félaganna eru, sem eiga stóra hluta í fyrirtækjum hér á landi. …

Í öðrum tilfellum liggja upplýsingar um raunverulega eigendur hins vegar ekki á lausu.“

Síðan kemur áfram:

„Indriði H. Þorláksson ríkisskattstjóri,“ sem nú er reyndar að verða fyrrverandi, „er harðorður um þessa þróun í samtali við Morgunblaðið í gær. „Ég held að það leiki enginn vafi á því að mörg af þessum félögum sem þarna er um að ræða staðsetji sig þarna til þess að komast undan skatti,“ segir Indriði. „Raunar er alveg óvíst hvað af þessum eignum er talið fram. Við sjáum það í ýmsum málum sem hafa komið upp að þar vantar mikið á. Í mörgum tilvikum eru þetta bein skattsvik þar sem margir af þeim aðilum sem við höfum náð til hafa ekki gert grein fyrir þessum eignum og tekjum.“

Indriði segir að skattyfirvöld eigi erfitt um vik vegna þess að ekki sé í gildi hér á landi svokölluð CFC-löggjöf sem veiti heimild til að skattleggja einstaklinga eða félaga erlendis í svokölluðum skattaparadísum …“

Áfram segir:

„Það verður auðvitað að gera skýran greinarmun á athæfi, sem er lögbrot og því, sem er í samræmi við gildandi lög og reglur. Hins vegar er ástæða til þess fyrir fjármálaráðuneytið og Alþingi að kanna hvort ástæða sé til að setja löggjöf á borð við þá sem ríkisskattstjóri segir að vanti hér á landi. Kannski hefur ekki þótt þörf á henni hingað til vegna þess hversu íslenskt atvinnulíf hefur verið lítið alþjóðavætt. Nú er orðin þar breyting á.

Þeir sem fjárfesta á Íslandi eiga að búa við samkeppnisfært skattaumhverfi en skattasamkeppnin á að felast í lágum skatthlutföllum, ekki því að menn geti komist hjá því að borga skatta til samfélagsins eins og aðrir.“

Ég vitnaði í þessa forustugrein frú forseti, til þess bara að undirstrika að meira að segja ríkisskattstjóri telur að veruleg undanskot og það að fara á svig við skattalög sé hér í gangi í stórum stíl.

Við heyrum líka um vaxandi svokallaða svarta starfsemi í samfélaginu, þ.e. atvinnustarfsemi án þess að greiða skatta. Hversu mikið það er eru ekki tölur um, en ég minnist þess að hafa heyrt í umfjöllun um þau mál að menn teldu að ríkið yrði af tugum milljarða, jafnvel 20, 30 milljörðum kr. í eðlilegri skattheimtu ef rétt væri fram talið, vegna beinna skattsvika eða að farið væri á svig við skattalög.

Væri nú ekki vel til fundið að ná til þessara aðila, ná eðlilegum sköttum af þeirri starfsemi sem þarna eru í gangi til að þeir skattar gætu runnið beint til þess að koma til móts við lífeyrisþegana hér á landi sem búa við afar skert kjör miðað við samfélagið í heild?

Þess vegna leggjum við til í tekjuáætlunum okkar, frú forseti, að það megi vel hugsa sér að brúa þetta bil með því að skattar á tekjur og hagnað hækki um svona 4 milljarða. Þetta er ósköp lítill hluti af því sem talið er að sé þar í pípunum. Skattar á vörur og þjónustu hækki um 1,4 milljarða, eða samtals 5,4 milljarða. En við leggjum aftur til á móti að auknu fjármagni verði varið til skattaeftirlits, þ.e. 350 millj. kr., sem ætti að verða til þess að auðvelt yrði að skila þeim mun sem þarna er.

Einnig gerum við ráð fyrir að þetta fjármagn, 7 milljarðar kr., fari í umferð með þeim hætti sem ég hef gert grein fyrir, það skili sér þá. Það er talið að þriðjungurinn af því skili sér síðan með beinum eða óbeinum hætti aftur í ríkissjóð í formi skatta, í formi virðisauka- og veltuskatta o.s.frv.

Þannig að það sem út af stæði hér, tæpir 2 milljarðar kr. í þessu sambandi, teldum við ekkert óeðlilegt að félli á þann afgang sem nú er á ríkissjóði enda er það innan skekkjumarka sem gefið er upp varðandi tekjuöflun ríkissjóðs. Tekjuöflun ríkissjóðs hefur nú sveiflast meir en það.

Það er meira að segja innbyggt í okkar kerfi að það ætti að vera hægt að ná tekjum til að standa undir þeim eðlilegu og nauðsynlegu mannréttindum sem við leggjum hér til.

Frú forseti. Það er alveg sláandi hver munur er á þegar félagshyggjuflokkar fara með stjórn eða þegar þeir flokkar sem kenna sig meira við einkavæðingu og einkarekstur fara með stjórn, svo ekki sér talað um í heilbrigðis- og velferðarmálum. Við munum eftir kosningabaráttunni í Reykjavík á síðastliðnu vori þar sem m.a. sjálfstæðismenn undir forustu núverandi borgarstjóra lögðu mikla áherslu á að bæta kjör ellilífeyrisþega. Ég held að við munum öll eftir þeim gríðarlegu yfirlýsingum.

Að kosningum loknum var myndaður sams konar meiri hluti í Reykjavík eins og er hér á Alþingi, Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn. Hvað ætli sé það fyrsta sem þessir flokkar gera? Jú, það er einmitt að hækka gjaldskrá velferðarsviðs borgarinnar um tæp 9%, sem bitnar harðast á lágtekjufólki, á elli- og örorkulífeyrisþegum.

Ég er hérna með grein úr Morgunblaðinu þar sem viðtal er við Margréti Margeirsdóttur sem sýnir táknrænt hvernig fer þegar Framsóknarflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn eru við stjórn. Þeir lofa einu fyrir kosningar, eins og við munum öll í gylliboðunum sem var lofað til eldri borgara fyrir kosningar hér í vor, en þegar kosningar eru afstaðnar er allt annað uppi á teningnum. Margrét segir, með leyfi forseta:

„„Við lýsum yfir miklum vonbrigðum og undrun með þessar hækkanir í ljósi þeirrar umræðu sem átt hefur sér stað á undanförnum missirum um kjör eldri borgara. Þessi hækkun kemur hreinlega eins og blaut tuska framan í okkur,“ segir Margrét Margeirsdóttir, formaður Félags eldri borgara og vísar þar til ákvörðunar velferðarráðs Reykjavíkurborgar“ — sem er undir stjórn Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins — „að hækka gjaldskrá velferðarsviðs borgarinnar um 8,8% frá og með næstu áramótum.

Segir Margrét ljóst að hækkunin muni koma allra verst við þá eldri borgara sem lakast eru settir og munar um hvaða upphæð sem er. Segir hún tímasetningu hækkunar einnig koma á óvart og að eðlilegra hefði verið af hálfu borgarinnar að bíða með hækkanir þar til ljóst væri hvernig rekstrarárið kæmi út í heild.“

Við sjáum því hvernig verður þegar þessir flokkar komast til valda eins og við höfum upplifað á Alþingi á undanförnum árum, en þá hefur einmitt verið hvað harðast tekist á um kjör eldri borgara, um lífeyrisþega og um þá sem þurfa að vera á elli- eða dvalarheimilum eða þurfa að leggjast inn á sjúkrahús í lengri eða skemmri tíma. Um þetta hefur verið tekist á hér.

Frú forseti. Ég ætla ekki að hafa þessi orð miklu lengri nú í fyrri ræðu minni. Ég er fyrst og fremst að mæla fyrir þessum tillögum. Leggja áherslu á samstöðu stjórnarandstöðuflokkanna í þeim málum sem þeir gera að meginmáli við fjárlagagerðina og undirstrika þar með að þetta er sá málaflokkur sem þessir flokkar, þegar þeir hafa fellt núverandi ríkisstjórn, munu taka á númer eitt. Biðin er orðin æðilöng og lengist enn til vors. En í næstu kosningum gefst tækifæri til að kjósa um mismunandi stefnur, að kjósa um áframhaldandi stefnu Framsóknar- og Sjálfstæðisflokksins sem lýsir sér best, eins og ég lýsti áðan, í því að Reykjavíkurborg byrjaði á því að hækka þjónustugjöld til eldri borgara, eða þær tillögur okkar um að bæta og stuðla að mannsæmandi kjörum hjá þessum hópi.

Í upphafi máls míns vitnaði ég, frú forseti, til tölvupósts sem ég fékk í gær þar sem einstaklingur rakti sögu sína og hvernig staða hans væri. Ég held að ég ljúki ræðu minni með því að vitna áfram til þess. Bréfi hans lýkur á þennan hátt, með leyfi forseta:

„Mér er ofboðið hvað hart er sótt að mér og mínum og nú spyr ég þig, hv. þingmaður, hvað ætlar þú og þinn flokkur að gera í málum öryrkja? Þó ég sé ekki landsbyggðarmaður,“ segir þessi bréfritari, „þá er þetta mál allra landsmanna. Mér finnst ekki nóg að talað sé um skilning og síðan ekkert meir. Með von um viðbrögð okkur öllum til heilla.“ Bréfið er síðan undirritað af viðkomandi.

Tillögur okkar hér eru svör okkar þingmanna Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, Samfylkingarinnar og Frjálslynda flokksins við þessu ákalli. Sjálfsagt koma þau svör ekki fyrr en í vor við kosningarnar en þau svör verða að koma þá.