133. löggjafarþing — 34. fundur,  23. nóv. 2006.

fjárlög 2007.

1. mál
[13:55]
Hlusta

Frsm. meiri hluta fjárln. (Birkir Jón Jónsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er mikið rétt að Framsóknarflokkurinn hefur haft heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið síðastliðin 11 ár. Það hafa verið gerðar miklar breytingar á lífeyrissjóðakerfinu á því tímabili. Eins og ég rakti áðan hafa miklir fjármunir verið settir í þetta kerfi. Margar breytingar hafa verið gerðar á þessu kerfi, breytingar sem voru ætlaðar til góðs, og við efumst ekki um hér, til þess að bæta stöðu lífeyrisþega.

Hins vegar tel ég að komið sé að þeim tímapunkti að menn þurfi að setjast niður og fá heildaryfirsýn yfir þetta kerfi. Það er mjög mikilvægt. Ég vil minna hv. þm. Jón Bjarnason á að það var ekki fyrr en 1998 sem við breyttum lögum um húsnæðismálastjórn og við tók Íbúðalánasjóður. Það tekur tíma að umbreyta kerfum. Ég held að við getum verið sammála um að Íbúðalánasjóður sé í dag fyrirmyndarstofnun þó það hafi verið mjög umdeilt á sínum tíma.

Ég bið hv. þingmann um að blása ekki á þá hugmynd mína að við förum í heildarendurskoðun á þessu kerfi. Öll kerfi þurfa að vera í endurskoðun. Ég er að leggja það til hér í þessari umræðu að menn setjist yfir þessi mál, yfirvegað. Ég er ekki að tala um, eins og hv. þingmaður, að gera hlutina strax. Við þurfum að setjast yfir hlutina og sjá hvaða breytingar er hægt að gera, meðal annars til þess að bæta þjónustu við þá sem þiggja þjónustu til dæmis Tryggingastofnunar ríkisins. Hvernig getum við gert þetta kerfi skilvirkara? Þetta eru spurningar sem við þurfum að vega og meta.

Eins og ég sagði þá er búið að setja heilmikla fjármuni inn í þetta kerfi og við umbyltum því ekkert strax. Orð eru til alls fyrst þó að hv. þingmaður vilji gera lítið úr því. En þá lýsi ég mig reiðubúinn til þess að fara ofan í þessi mál, ofan í þessa vinnu. Við gerum það ekkert strax. En við getum hafið vinnuna (Gripið fram í.) þannig að sú breyting sem tekur gildi eftir þá vinnu verði til góðs.