133. löggjafarþing — 34. fundur,  23. nóv. 2006.

fjárlög 2007.

1. mál
[14:30]
Hlusta

Frsm. meiri hluta fjárln. (Birkir Jón Jónsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Nú er það svo að forsendur fjárlaga ársins 2007 og umhverfið í samfélaginu er allt öðruvísi en hugsanlega árið 2006. Það er margt breytilegt í þessum heimi á milli ára og mörg ný úrlausnarefni sem blasa við okkur í fjárlagagerð ársins 2007.

Ég segi það bara enn og aftur. Mér finnst bara ekkert óeðlilegt við að við nefnum það hér í ræðustóli Alþingis að stjórnarandstaðan hafi ekki komið fram með neinar tillögur í mennta-, heilbrigðis- og félagsmálum. Það er ekkert óeðlilegt við það.

Ég ætla þó ekkert að gera lítið úr þeirri tillögu sem hv. þingmenn hafa lagt fram um málefni eldri borgara. Það er löng ganga. Við skulum hafa það í huga að ríkisstjórnin hefur tekið ákvörðun um það, og m.a. trúlega vegna þess að eldri borgarar hafa líka verið mjög öflugir í málflutningi sínum, að bæta kjör þeirra um áramótin. Við getum haft skiptar skoðanir um hvort eigi að ganga lengra í þeim efnum.

En við skulum halda því til haga að það er verið að stórhækka skattleysismörkin. Það er verið að hækka lágmarkslífeyri þeirra sem verst standa. Það verið að lækka matarskattinn. Við höfum lækkað eignarskattinn, hann er horfinn, sem var mikill kostnaður fyrir marga eldri borgara. Við skulum hafa það í huga hvað vel hefur verið gert og hvað þarf að gera betur í þessum efnum.

Við erum sem betur fer að skila ríkissjóði í þannig ástandi að við munum hafa miklu meira svigrúm á næstu árum til þess að bæta lífskjör aldraðra, lífeyrisþega og annarra landsmanna. Að því er stefnt. Þannig að það er hreint og klárt stefnumið ríkisstjórnarinnar að halda áfram á þeirri braut að bæta þau kjör og við munum sjá þess stað í fjárlögum ársins 2007.