133. löggjafarþing — 34. fundur,  23. nóv. 2006.

fjárlög 2007.

1. mál
[15:34]
Hlusta

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Já, virðulegi forseti, hér fengum við það staðfest loksins frá hv. þm. Einari Oddi Kristjánssyni að það sé stefna núverandi ríkisstjórnar að misskiptingin sé hluti af stefnu hennar, það er þó gott að það kemur hér skýrt fram að þetta sé hluti af efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar, þ.e. aukin misskipting. Hér hrósar hann sigri yfir því hversu vel hefur tekist upp á því sviði á undanförnum árum. (Gripið fram í.) Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir hreinskilnina í þessum efnum vegna þess að enginn þingmaður þessa ríkisstjórnarmeirihluta hefur þorað að standa hér og segja þetta hreint út.

Virðulegi forseti. Það er annað sem ég vil spyrja hv. þingmann um en við erum að ræða hér um kaupmáttaraukningu og ræddum um þau 26% sem hinir lægst launuðu hafa fengið. Niðurstaða mikilvægrar úttektar sem gerð var á kjörum eldri borgara er sú að lægsti þriðjungur eldri borgara, sem býr við um 100 þús. kr. eða jafnvel minna á mánuði, að sá hópur hafi eingöngu fengið um 16% kaupmáttaraukningu sé tekið tillit til þeirrar yfirlýsingar sem gerð var í sumar. Í ljósi þess, virðulegi forseti, að hann talar um að sú efnahagsstefna sem hér hafi verið rekin sé til þess að fjármagna velferðarkerfið, er hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson þá ekki tilbúinn til þess að koma hér með stjórnarandstöðunni í atkvæðagreiðslu á morgun og greiða því atkvæði að eldri borgarar og öryrkjar fái leiðréttingu kjara sinna og fái í það minnsta að halda í við þá lægst launuðu og fá þá kaupmáttaraukningu sem þeir, þ.e. hinir lægst launuðustu, hafa fengið? Svo að þeir séu ekki enn og aftur skildir eftir (Forseti hringir.) langt, langt, langt fyrir aftan aðra og meira að segja hina launalægstu.