133. löggjafarþing — 34. fundur,  23. nóv. 2006.

fjárlög 2007.

1. mál
[15:36]
Hlusta

Einar Oddur Kristjánsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Keppikefli ríkisstjórna er ekkert annað en það að vera með frjálst efnahagslíf, tryggja að verðmyndun sé frjáls, tryggja að einstaklingarnir geti fengið að njóta sín. Síðan er það aukaatriði, það er bara alls ekkert aðalatriði hvort út úr því kemur einhver sérstakur jöfnuður eða ójöfnuður. Við verðum að taka því sem af hinu góða ef hingað koma sterk og mikil fyrirtæki sem geta keypt besta vinnuaflið og borgað hæstu launin, það er ekki verið að taka það af nokkrum manni. Það er ekkert keppikefli að búa til mismun. Það er keppikefli að samfélagið sé frjálst þannig að allir njóti sín.

Gagnvart velferðarþjónustunni er því að svara að framlög til velferðarmála hafa hækkað hér að undanförnu miklu, miklu meira en kaup hins almenna verkamanns, miklu meira, miklu hærri greiðslur. Lágmarksgreiðslur öryrkjanna eru núna um 140 þús. kr. á mánuði, ellilífeyrisþeganna í kringum 120 og eitthvað, ég er ekki nákvæmlega með þessar tölur hjá mér. En framlögin til velferðarmálanna hafa hækkað miklu, miklu meira en árangur verkamannanna sem eru að vinna, hins vinnandi Íslendings. Við verðum að passa okkur á því, hversu fallegt og hversu gott sem það er að geta stutt þá sem minna mega sín, við megum aldrei ganga þannig fram að við tryggjum ekki fyrst og fremst afkomu verkafólksins, að fyrirtækin hafi stöðu til þess að bæta kjör hinna vinnandi Íslendinga. Þannig getum við bætt kjör annarra, alls ekki öfugt. Það er afkoma verkafólksins, vinnandi fólksins sem er grunnurinn, síðan getum við byggt hitt ofan á, ekki öfugt. Þetta verða menn að vita og þetta verða menn að kunna.