133. löggjafarþing — 34. fundur,  23. nóv. 2006.

fjárlög 2007.

1. mál
[16:52]
Hlusta

Guðjón Ólafur Jónsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þó að það styttist í hinstu göngu hv. þingmanns í ræðustóli Alþingis verður ekki hið sama sagt um hv. þingmenn Framsóknarflokksins. (Gripið fram í.) Framsóknarflokkurinn er 90 ára og hann hefur gegnt lykilhlutverki allan lýðveldistímann í stjórn landsins. Það er rétt að menn hafi það í huga. Það eru ekki bara síðustu þrjú kjörtímabil, Framsóknarflokkurinn hefur verið í ríkisstjórn nánast allan lýðveldistímann.

Það er rétt hjá hv. þingmanni að það er ástæða til að óttast það ef núverandi stjórnarandstöðuflokkar ná meiri hluta á Alþingi. Það eru ekki bara framsóknarmenn sem óttast það. Þjóðin óttast það. Landsmenn allir óttast það. Af hverju er það?

Það er af því að þessir hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar koma sér saman um ríkisfjármálin á sjö ára fresti. Hvernig ætla menn að sitja í ríkisstjórn þegar þeir koma sér saman um ríkisfjármálin á sjö ára fresti og ná að skila einni, ekki tveimur, heldur einni tillögu við 2. umr. um fjárlög ríkisins?

Það er auðvitað ástæða til að kalla saman fréttamenn til að láta þá vita að þeir hafi loksins eftir sjö ár náð saman um eina tillögu og skilað einu áliti við 2. umr. um frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2007.