133. löggjafarþing — 34. fundur,  23. nóv. 2006.

fjárlög 2007.

1. mál
[16:55]
Hlusta

Guðjón Ólafur Jónsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég sé það að hv. þm. Jóhann Ársælsson óttast kosningarnar. Hann hræðist kosningarnar fyrir hönd Samfylkingarinnar. Hann hræðist kosningarnar fyrir hönd stjórnarandstöðunnar. Og það er auðvitað rétt, það er skynsamlegt hjá honum vegna þess að þeim mun nær sem líður komandi alþingiskosningum, þeim mun betur munu landsmenn gera sér grein fyrir því hversu hriplek þessi stjórnarandstaða er í öllum sínum málflutningi og málatilbúnaði.

Þrátt fyrir að stjórnarandstöðunni hafi á hinu háa Alþingi við 2. umr. um fjárlagafrumvarp ríkisins tekist eftir mikið erfiði og sjö ára streð að skila sameiginlegu nefndaráliti og leggja fram sameiginlega eina tillögu, nota bene. Það er ekki bjart fram undan.

Mér finnst rétt að landsmenn og þjóðin fái að vita hvernig staðan er í raun og veru. Það er líka rétt að þjóðin fái að vita hver stefnumál þessarar stjórnarandstöðu eru. Þau stefnumál liggja ekki fyrir í tillögum við 2. umr. fjárlaga. Stjórnarandstaðan segir pass í félagsmálum. Stjórnarandstaðan segir pass í heilbrigðismálum og stjórnarandstaðan segir pass í menntamálum.

Þetta eru skilaboð stjórnarandstöðunnar og hv. þingmanna hennar til almennings í landinu. Stjórnarandstaðan segir pass. Stjórnarandstaðan er eitt stórt pass.