133. löggjafarþing — 34. fundur,  23. nóv. 2006.

fjárlög 2007.

1. mál
[16:57]
Hlusta

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Þetta hafa verið áhugaverðar umræður sem af er degi við 2. umr. fjárlaga. Það er margt sem hægt væri að segja um þá síðustu ræðu sem haldin var hér en ég ætla að geyma það þar til ég kem inn á þau efnisatriði sem þar var um fjallað. Eitt verð ég þó að segja, virðulegi forseti, það er alveg augljóst að hv. þingmönnum ríkisstjórnarinnar og ríkisstjórninni er hvellbrugðið við þá staðreynd að stjórnarandstaðan leggur hér fram sameiginlegt nefndarálit og sameiginlegar tillögur.

Hv. þingmaður sem talaði hér áðan æpti inn í þingheim að þetta væri eftir sjö ára streð, að þá kæmi sameiginlegt nefndarálit og sameiginlegar tillögur frá stjórnarandstöðunni. Ég get upplýst hv. þingmann um það, þar sem ég tók þátt í þessari vinnu, að það tók okkur enga stund að skerpa okkur saman um sameiginlegar breytingartillögur við fjárlagafrumvarpið (Gripið fram í.) vegna þess að markmiðið er skýrt. Hv. þm. Guðjón Ólafur Jónsson kallar hér fram í að þetta séu engar tillögur. Ég er honum algjörlega ósammála vegna þess að kjarabætur þær sem við leggjum til í breytingartillögum við þetta fjárlagafrumvarp til eldri borgara og öryrkja þessa lands eru miklar og þetta eru góðar tillögur.

Hv. þingmenn, og formaður fjárlaganefndar ekki síst, hafa staðið í þessum stóli og kallað eftir fleiri tillögum frá stjórnarandstöðunni. Ég lít auðvitað svo á, þegar þetta ákall kemur eftir fleiri tillögum frá stjórnarandstöðunni frá formanni fjárlaganefndar, að honum hugnist svo vel sú tillaga okkar sem liggur hér fyrir um stórbætt kjör eldri borgara og öryrkja í þessu landi að hann kalli eftir fleiri tillögum. Það kemur mér alls ekki á óvart. Á morgun munum við greiða atkvæði um þá tillögu og ég geri þá ráð fyrir því að hv. þingmenn, sem eru svo hrifnir af breytingartillögum stjórnarandstöðunnar að þeir kalla eftir fleirum, hljóti að snúast á sveif með okkur og greiða atkvæði með þessum tillögum, kjósa með stórbættum kjörum eldri borgara og öryrkja, kjósa með auknum kaupmætti þessara hópa.

Síðan er auðvitað, eins og hv. formaður fjárlaganefndar veit, enn möguleiki á því að leggja fram fleiri góðar breytingartillögur. Stjórnarandstaðan er alveg til í það. Ef hv. formaður fjárlaganefndar kallar eftir fleiri góðum tillögum sem hann er tilbúinn til að samþykkja getum við að sjálfsögðu farið með honum í það verkefni. Ég þakka þá þau góðu viðbrögð sem tillöguflutningur okkar fær með þessu ákalli um fleiri tillögur og veit að stjórnarandstaðan er vel til í að hjálpa þessari ríkisstjórn enn frekar við tillögu- og fjárlagagerð.

Virðulegi forseti. Það er bara svolítið sérkennilegt að sitja undir þessu ákalli hv. formanns fjárlaganefndar eftir fleiri tillögum frá stjórnarandstöðunni þegar staðreyndin er sú að ár eftir ár hefur stjórnarandstaðan lagt fram tillögur til breytinga á frumvarpi til fjárlaga og ár eftir ár hafa þær allar verið felldar. Hver ein og einasta tillaga stjórnarandstöðunnar hefur verið felld. Frú forseti. Þeir sem hafa fylgst með fjárlagaumræðunni yfir nokkurra ára tímabil hljóta auðvitað að sjá að það vekur greinilega upp ótta hjá hv. þingmönnum stjórnarflokkanna að stjórnarandstaðan komi sameinuð til leiks með sameiginlegar tillögur við þessa 2. umr. fjárlaga. Að minnsta kosti verður þeim svo tíðrætt um þá staðreynd að hún vekur hjá þeim ugg.

Virðulegi forseti. Ástæðan fyrir því að stjórnarandstaðan leggur fram sameiginlegt nefndarálit og ekki síst sameiginlega þessar mikilvægu tillögur, þessar mikilvægu kjarabætur, og tímabæru, til eldri borgara og öryrkja þessa lands er auðvitað sú að við, þessir þrír flokkar, erum að sýna að meðal okkar ríkir þverpólitísk samstaða um þetta mál. Við leggjum slíkan þunga á málið og þess vegna er það lagt fram sem ein stór tillaga, ein raunveruleg leiðrétting, risastórt skref í leiðréttingu, á kjörum þessara hópa.

Auðvitað vonumst við til þess að hv. þingmenn sem tilheyra Sjálfstæðisflokki og Framsóknarflokki sjái sóma sinn í því á morgun að koma með okkur í þann leiðangur að leiðrétta kjör eldri borgara og öryrkja, þess stóra hluta þeirra hópa sem ekki hafa fengið hlutdeild í kaupmáttaraukningunni sem hefur átt sér stað á undanförnum árum. Þeirra tími er einfaldlega kominn, frú forseti.

Það fjárlagafrumvarp sem hér liggur fyrir er á margan hátt mjög merkilegt vegna þess að það ber þess skýr merki að fram undan eru kosningar, ekki síst þá kannski breytingartillögurnar sem þessi meiri hluti fjárlaganefndar leggur fram. Það er auðvitað margt sem er afar gagnrýnivert og er vel farið yfir það í nefndaráliti minni hlutans. Ég ætla ekki að fara yfir það enda hefur hv. þm. Einar Már Sigurðarson gert það ágætlega fyrr í dag. Það er þó eitt sem verður að nefna þegar við ræðum fjárlög ríkisins og það eru vinnubrögð þessarar ríkisstjórnar og það hvernig sá meiri hluti sem henni fylgdi á Alþingi umgengst fjárlög, hvernig vinnubrögðin öll eru í tengslum við fjárlagagerðina. Það er bara þannig, virðulegi forseti, að fjárlög eiga að gefa heildstæða mynd af stöðu og rekstri ríkissjóðs og eiga að gefa heildstæða mynd um rammann við rekstur ríkissjóðs.

Því miður er það bara ekki þannig og það er ekki hægt að fara í gegnum þessa umræðu öðruvísi en að koma inn á þau gríðarlegu frávik frá fjárlögum sem er að finna hjá fjölmörgum stofnunum. Á þetta höfum við ítrekað bent og Ríkisendurskoðun hefur líka ítrekað bent á það við fjárlög hvers árs að gríðarlega mikið sé um of- og vanáætlanir. Í skýrslu Ríkisendurskoðunar um framgang fjárlaga fyrir árið 2005, sem út kom í sumar, kom fram að fjárlagaliðir sem hafa farið 4% fram úr heimildum og fjárlagaliðir sem eiga 4% eða meira ónýtt séu um 68% allra fjárlagaliða. Og ekki nóg með það, heldur hafa þrír fjórðu af þessum 68% farið 10% fram úr eða eiga meira en 10% ónýtt.

Þetta eru gríðarlegir fjármunir þegar saman er tekið. Þegar svona er á málum haldið og meiri hlutinn á Alþingi lætur hlutina malla með þessum hætti í gegnum árin og uppsafnaður vandi er látinn flæða á milli ára þannig að það vantar alla yfirsýn geta fjárlög ríkisins ekki verið sá skýri rammi um rekstur ríkisins sem þau eiga að vera. Það er við þessar aðstæður sem fjárlögin verða ónýtt verkfæri við stjórn efnahagsmála.

Hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson gerði það talsvert að umtalsefni áðan hvað stjórnarandstaðan ætti við í þessum efnum þegar hún segði að Seðlabankinn hefði einn verið látinn sjá um stjórn efnahagsmála. Það er akkúrat þetta, þetta er einn af þeim stóru þáttum sem við eigum við. Fjárlögunum er ekki beitt við stjórn efnahagsmála, eins og á að beita þeim. Það er ekki nóg með að þetta sé ónýtt verkfæri af þessari ástæðu við stjórn efnahagsmála, heldur fer þetta líka mjög á svig við fjárreiðulögin. Það er þess vegna sem Ríkisendurskoðun hefur ítrekað bent á þetta en ekki hefur verið á það hlustað.

Ég ræddi í andsvari við hv. þm. Einar Odd Kristjánsson fyrr í dag um misskiptingu. Það er bara staðreynd að í samfélagi okkar hefur misskiptingin vaxið jafnt og þétt á undanförnum árum undir stjórn þeirrar ríkisstjórnar sem hér situr. Hv. þingmenn Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins geta ekki vikist undan þeirri staðreynd.

Hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson var ærlegur hér í dag þegar hann greindi okkur frá því að þetta væri afleiðing þeirrar efnahagsstefnu sem rekin hefði verið og þannig væri það bara. Ég vil þess vegna spyrja hvort Framsóknarflokkurinn sé þessari stefnu sammála og hvort þarna sé talað fyrir hönd beggja þessara flokka. Við vitum vel að Sjálfstæðisflokkurinn hefur hyglt þeim sem meira eiga í samfélagi okkar og er ekkert að fela það, en Framsóknarflokkurinn verður að fara að svara því hvers vegna hann láti þetta gerast á meðan haldnar eru hátíðarræður um að Framsóknarflokkurinn sé hluti af einhverri velferðarstjórn hér á landi. Það er auðvitað með ólíkindum og það er misnotkun á hugtakinu velferð eða velferðarstjórn þegar svona er talað og staðreyndirnar blasa við. Þetta er nefnilega beinlínis rangt.

Virðulegi forseti. Þessum ágætu hv. þingmönnum verður tíðrætt um, og forsætisráðherra nefndi þetta líka í stefnuræðu sinni, hina gríðarlegu kaupmáttaraukningu sem hefur átt sér stað í samfélagi okkar. Það deilir enginn um að hér hefur orðið kaupmáttaraukning. Henni hefur hins vegar verið misskipt eins og öðru, og það ekkert smávegis. Sýnt hefur verið fram á að þeir sem hæstar hafa tekjurnar hafa fengið tæplega 80% kaupmáttaraukingu á meðan þeir sem lægstar hafa tekjurnar hafa fengið um 26,6% kaupmáttaraukningu. Efstu 10 prósentin hafa fengið það miklu meiri kaupmáttaraukningu en 10 prósentin sem koma á eftir þeim að þar munar 27 prósentustigum. Þarna birtist, frú forseti, okkur alveg gríðarleg framúrkeyrsla þar sem efstu 10 prósentin keyra mjög hratt fram úr öðrum hópum í þjóðfélaginu. Ég vil eingöngu segja, frú forseti, að ég tel það ekki kunna góðri lukku að stýra ef menn skilja stóra hópa eftir í velmegunarsamfélagi.

Sá hópur sem ég vil nefna hér að hafi verið skilinn eftir af þessari ríkisstjórn er ekki síst eldri borgarar. Ég tók saman og lýsti hlutföllum um kaupmáttaraukningu launahópa og þá finnst mér rétt að nefna hér að samkvæmt útreikningum frá Landssambandi eldri borgara um þróun kaupmáttar frá árinu 1995 til 2005 hefur kaupmáttur eldri borgara á þessu tímabili eingöngu verið 16% sem er dæmigerður fyrir lægsta þriðjunginn hjá eldri borgurum, og það er enginn smáhópur.

Frú forseti. Ég er ekki endilega að segja að allir eigi að hafa fengið akkúrat 60%. Það sem ég er að segja er að svona eigum við ekki að skilja stóra hópa eftir á meðan aðrir æða áfram í aukningu kaupmáttar. Þetta liggur fyrir okkur þegar við ræðum þessi mál, og þarna hefur stór hópur hreinlega verið skilinn eftir. Það sem er verst við það er að þessi hópur hefur ekki sömu tækifæri og aðrir vegna þess að á honum hvíla íþyngjandi lagasetningar á þá leið að ráðstöfunartekjur hans skerðast verulega, lífeyrisgreiðslur skerðast verulega ef fólk ætlar að afla sér aukatekna. Þá er öll vinna þess í raun og veru ókeypis, fólk fær ekkert út úr því. Fólki er markvisst haldið niðri með íþyngjandi lagasetningu.

Frú forseti. Það er þetta sem við í stjórnarandstöðunni erum að sýna að við viljum breyta. Við viljum ekki að stórir hópar, og þá þeir hópar sem hafa skilað ævistarfi sínu, séu skildir eftir með þessum hætti og haldið markvisst niðri með íþyngjandi lagasetningu. Það er bara engan veginn sanngjarnt. Þess vegna leggur stjórnarandstaðan fram sameiginlega tillögu í upphafi þessa þings um nýja framtíðarskipan lífeyrismála. Hún er niðurstaða mikillar vinnu þingmanna í þessum flokkum, Samfylkingu, Vinstri hreyfingunni – grænu framboði og Frjálslynda flokknum, þar sem saman koma raunverulegar og góðar hugmyndir sem lengi hefur verið unnið með, og mikilvægar hugmyndir fyrir þessa hópa um stórbætt kjör þeirra.

Mér finnst, frú forseti, þess vegna dálítið sérkennilegt að sitja hér undir svona ræðum. Við höfum komið með raunverulegar tillögur um að bæta fólki það tjón sem það hefur orðið fyrir af því að búa við íþyngjandi lagasetningar héðan, af hinu háa Alþingi. Við viljum bæta þessu fólki það sem því ber og gefa því hlutdeild í kaupmáttaraukningunni sem hefur átt sér stað samfélaginu. Ég bið því hv. þingmenn ríkisstjórnarmeirihlutans sem hér sitja að ræða þessar tillögur við okkur efnislega (Gripið fram í.) í stað þess að standa hér og reyna að gera lítið úr þeim, kalla fram hér að stjórnarandstaðan hafi engar tillögur í einu eða neinu þegar hér liggja fyrir svo mikilvægar tillögur sem raunin er. Frekar óska ég eftir efnislegri umræðu en þeim sérkennilegu upphrópunum sem þeir sem hafa fylgst með umræðunni í dag hafa orðið vitni að.

Ég verð að segja, frú forseti, að mér hafa blöskrað verulega þau orð sem uppi hafa verið höfð í dag um þessa tillögu. Hér halda sumir þingmenn raunverulega að í þessum ræðustól fari menn í einhvern leik, hér sé í þingsölum leikur í gangi á milli stjórnar og stjórnarandstöðu.

Hér eru sett lög og staðreyndin er þessi: Lög sem hér hafa verið sett eru íþyngjandi fyrir stóra hópa. Það er þetta sem við eigum að ræða efnislega. Ég hef ekki heyrt neinn rökstuðning frá þeim hv. þingmönnum ríkisstjórnarmeirihlutans sem hér hafa talað í dag fyrir því hvers vegna þeir munu þrýsta á nei-hnappinn á morgun, eins og þeir munu væntanlega gera. Það væri meiri bragur að því ef menn kæmu hér upp og segðu skoðun sína á þessum tillögum og rökstyddu það hvernig þeir ætla að fara í atkvæðagreiðslu um þetta mál á morgun.

Virðulegi forseti. Þá finnst mér mikilvægt að fara aðeins yfir það í stuttu máli hvað felst í þeim tillögum sem við leggjum fram en segja má að grundvallaratriðið í þeirri tillögu til þingsályktunar sem stjórnarandstaðan lagði fram sameiginlega í byrjun þings sé að komið verði á svokallaðri afkomutryggingu. Til þess að hægt verði að koma henni á þarf að gera neyslugrunn, þ.e. að búa til og fara yfir hver raunveruleg framfærsluþörf lífeyrisþega er og byggja afkomutrygginguna á þeim grunni. Þá, frú forseti, munum við alltaf vera með raunverulegar tölur miðað við raunverulega þörf þessara hópa í stað þess að hæstv. ríkisstjórn geri eins og þessi nú, bjóði fólki upp á endalausa talnaleiki og blekkingar í þeim efnum og reyni að halda því fram að það hafi það betra en raunin er, þegar fólk finnur á eigin skinni hina raunverulegu stöðu.

Frú forseti. Þetta er grundvallaratriðið í tillögu okkar. Við segjum engu að síður að eftir einn mánuð og eina viku eigi eldri borgarar og öryrkjar að fá gríðarlegar kjarabætur og þeir eigi að fá þær fyrst. Meðan verið er að fara yfir hina raunverulega framfærsluþörf þeirra er mikilvægt að veita þeim mikilvægar kjarabætur.

Í stuttu máli er í fyrsta lagi lagt til að hækka hið nýja frítekjumark sem kveður á um í yfirlýsingum á milli ríkisstjórnarinnar og Landssambands eldri borgara frá því í sumar svo að bæði ellilífeyris- og örorkulífeyrisþegar geti unnið sér inn 900 þús. kr. á ári án þess að lífeyrir hins opinbera skerðist. Okkar tillögur eru 600 þús. kr. hærri en tillögur ríkisstjórnarinnar gera ráð fyrir. Þessi ríkisstjórn hefur lagt fyrir Alþingi tillögur um 300 þús. kr. frítekjumark fyrir ellilífeyrisþega. Það finnst okkur ekki nóg og við vitum — það er ekki bara að okkur finnist, heldur vitum við það — að það er ekki nóg og að auki leggjum við líka til að öryrkjar fái þetta sama frítekjumark upp að 900 þús. en þessi ríkisstjórn skilar auðu þegar kemur að frítekjumarki á atvinnutekjur öryrkja.

Í öðru lagi leggur stjórnarandstaðan til að tekjutrygging verði hækkuð upp í 85 þús. kr. fyrir ellilífeyrisþega og 86 þús. kr. fyrir örorkulífeyrisþega auk breytinga á launavísitölu frá því að samkomulagið var gert.

Í þriðja lagi er lagt til að afnumin verði með öllu tengsl lífeyrisgreiðslna við atvinnu- og lífeyristekjur maka. Þetta mál þekkja allir enda hafa fallið um það dómar og þetta er gríðarlega stórt hagsmunamál fyrir þessa hópa. Þetta er líka réttlætismál.

Í fjórða lagi er lagt til að vasapeningar þeirra sem dvelja á stofnunum hækki um helming og frítekjumark þeirra sömuleiðis.

Í fimmta lagi leggur stjórnarandstaðan til að öryrkjar haldi aldurstengdri örorkuuppbót þegar farið er á ellilífeyri.

Virðulegi forseti. Þá er að auki lagt til að skerðingarhlutföll verði minnkuð þannig að skattskyldar tekjur umfram frítekjumark skerði tekjutrygginguna eingöngu um 35% en ekki 45% eins og gert er ráð fyrir í dag eða rúm 38% eins og tillögur ríkisstjórnarinnar gera ráð fyrir.

Það er þetta sem okkar tillögur snúast um og það er þetta sem við viljum að hv. þingmenn ríkisstjórnarmeirihlutans ræði við okkur. Það er um þessar kjarabætur sem atkvæði verða greidd á morgun og ætli hæstv. ríkisstjórn og ríkisstjórnarmeirihlutinn og þingmenn sem tilheyra Sjálfstæðisflokki og Framsóknarflokki hér á þingi að hafna þessum tillögum förum við fram á að þeir haldi hér í það minnsta eina ræðu þar sem sú afstaða er rökstudd. Það er lágmark að menn geri það ef þeir ætla að hafna svo mikilvægum kjarabótum fyrir eldri borgara og öryrkja sem liggja fyrir þessu þingi.

Frú forseti. Það hefur stungið mig líka í þessari umræðu, og þá ekki síst þegar talsmaður Sjálfstæðisflokksins í fjárlaganefnd, hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson, varaformaður fjárlaganefndar, hélt ræðu áðan og varð tíðrætt um það hversu mikið útgjöld til velferðarmála hefðu aukist. Það er margt sem býr að baki þeirri tölu en ég bið hv. varaformann fjárlaganefndar að tala um fólkið, fólkið á bak við þessa útgjaldaaukningu en ekki eingöngu rýna í hana sjálfa. Á bak við allar þær tölur sem um ræðir í þessu fjárlagafrumvarpi og ekki síst í köflum sem snúa að heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu er fólk og það er ekki hægt að afgreiða fólk sem býr við mismunandi aðstæður í okkar samfélagi, gríðarlega mismunandi kjör eins og fram hefur komið, með einni summu upp á tvo tugi milljarða í útgjaldaaukningu og afgreiða málið þannig út af borðinu að ekki þurfi að ræða kjör þess. Það er bara ekki hægt. Og það er ekki boðlegt, frú forseti. Lífið er ekki meðaltal og íslenskt samfélag er ekkert meðaltal, við þurfum að ræða raunveruleikann eins og hann er í stað þess að slá upp meðaltalsmyndum og halda því svo fram í framhaldinu af því að hér hafi það allir ofboðslega gott þegar við vitum að það er ekki þannig. Ég bið menn í þessum umræðum um að tala um raunveruleikann eins og hann er og viðurkenna að hér búa menn við mismunandi aðstæður og mismunandi kjör.

Ég verð bara að viðurkenna það, frú forseti, að ég hef pínulitlar áhyggjur eftir að hafa heyrt þá tvo ágætu menn sem hafa talað hér fyrir hönd Framsóknarflokksins, bæði formann fjárlaganefndar, hv. þm. Birki Jón Jónsson og síðan hv. þm. Guðjón Ólaf Jónsson, af því hversu mikil firring þeirra er. Ég veit ekki í hvaða veruleika þeir búa þegar þeir slá upp glansmyndum af samfélaginu sem venjulegt fólk sér ekki í sínu daglega lífi og það, frú forseti, veldur mér áhyggjum.

Áður en ég yfirgef kaflann um lífeyrismálin vil ég koma inn á það sem hv. þingmaður og formaður fjárlaganefndar sagði áðan í andsvari, að kjarabætur til handa eldri borgurum og öryrkjum væru löng ganga. Ég bendi hv. formanni fjárlaganefndar á að gangan er ekki lengri en svo að ganga inn í þingsal á morgun og greiða atkvæði með tillögum stjórnarandstöðunnar um kjarabætur til þessara hópa. Hann veit það jafn vel og við að þetta rúmast innan ramma fjárlaganna með þeim tekjutillögum sem við höfum einnig lagt fram og í stað þess að hefja einhverja langa göngu sem hann boðaði í dag hvet ég hann til að trítla inn í þingsal á morgun og greiða þessu atkvæði. Það er ekki flóknara en svo.

Frú forseti. Það eru fleiri atriði í þessu fjárlagafrumvarpi sem við verðum að ræða. Það er ekki hægt að fara í gegnum þessa umræðu án þess að fara nokkuð í gegnum skólamálin, þ.e. þau skólastig sem ríkisvaldið rekur, framhaldsskólann og háskólann. Það varð mörgum mikið áfall þegar fjárlagafrumvarpið var lagt fram og það kom fram að fjölgun 800 ársnemenda inn í framhaldsskólana ætti að fylgja 500 millj. kr. rekstrarframlag. Þegar lesið er örlítið lengra kemur fram að á móti er gerð 300 millj. kr. aðhaldskrafa og er henni skipt á milli skólanna með breytingum á forsendu líkansins með því að hækka hópviðmið faglegra áfanga og tölvunámsáfanga úr 15 í 18. Síðan eru nefnd fleiri atriði sem á að gera breytingar á í reiknilíkani.

Virðulegi forseti. Það er ekki að undra að menn hafi fengið nokkurt áfall. Við vitum að við höfum ekki lagt næga fjármuni til framhaldsskólanna. Þegar við ræddum á síðasta ári fjárlögin fyrir þetta ár ályktaði stjórn Félags framhaldsskólakennara um fjárveitingar til framhaldsskólanna og fjárhagsstöðu þeirra og það var mjög merk ályktun vegna þess að hún var skýr og skorinorð þar sem félagið gagnrýndi stjórnvöld mjög harðlega fyrir að vanáætla gróflega, eins og þar er sagt, og markvisst fjárveitingar til framhaldsskóla hvað varðar nemenda- og heildarfjárþörf. Í þeirri ályktun var rakið í mjög skýru máli að framlög á fjárlögum vegna nemendafjölda í framhaldsskólunum hefðu verið vanáætluð og síðan hafi verið gripið til þess ráðs í fjáraukalögunum að bæta þennan skort upp en það hafi þó aldrei náðst fyllilega.

Þetta, frú forseti, var gagnrýnt mjög í þessari ályktun frá því á síðasta ári þegar við vorum að vinna með fjárlögin fyrir þetta ár. Þar sagði, með leyfi forseta:

„Stjórnvöld hafa brugðist við þessari árlegu vanáætlun á nemendafjölda og heildarfjárþörf framhaldsskóla með því að sækja um viðbótarframlög í fjáraukalagafrumvörpum, sem hrökkva þó hvergi til.“

Þetta voru skilaboðin á síðasta ári. Í þessari ályktun var líka annað sagt, með leyfi forseta:

„Það hriktir í undirstöðum margra framhaldsskóla vegna erfiðs rekstrarumhverfis sem forsendur reiknilíkansins taka ekki tillit til. Af þessum sökum hefur námsframboð margra skóla orðið einhæfara.“

Þetta var gríðarlega hörð gagnrýni og hún var vegna vinnubragða menntamálaráðuneytisins. Það vanáætlaði á síðasta ári fyrir fjárlagaárið í ár með markvissum og skipulegum hætti nemendafjölda inn í framhaldsskólana, kom síðan með upphæð inn í fjáraukalög og nákvæmlega það sama gerðist í ár.

Stjórnarandstaðan lagði til við afgreiðslu fjárlaga á síðasta ári 250 millj. kr. hækkun til framhaldsskólanna til þess að mæta nemendafjölgun. Sá þingmeirihluti sem hér situr felldi þær tillögur en kom núna með nákvæmlega sömu upphæð inn í fjáraukalögin. Það var vitað að þetta þyrfti til en í leik sínum með fjárlögin hentaði það þessari ríkisstjórn ekki að sýna raunveruleikann eins og hann er við gerð fjárlaganna fyrir þetta ár.

Virðulegi forseti. Ég nefni þetta hér vegna þess að eins og ég kom inn á áðan ákveður í ár þessi ríkisstjórn og menntamálaráðuneytið að fara aðra leið. Í stað þess að fá aftur á sig svona harða gagnrýni um vandræðalegar vanáætlanir sem eru fyrirséðar ákveður hæstv. menntamálaráðherra að samþykkja það að hér sé lagt fyrir fjárlagafrumvarp þar sem 800 nemenda fjölgun á milli ára er viðurkennd og að þeim eigi að fylgja 500 millj. kr. hækkun en aðhaldskrafa veldur því að dregnar eru til baka 300 millj. þar af. Því var auðvitað mótmælt hástöfum innan fjárlaganefndar. Meiri hluti fjárlaganefndar má eiga það að hann mótmælti þessu einnig og veit ég að hv. formaður fjárlaganefndar lét í sér heyra hvað þau mál varðaði, og er vel. Niðurstaðan af því varð sú að komið var inn með breytingartillögu upp á 250 millj., þ.e. það á að skila til baka 250 millj. af 300 millj. kr. skerðingu. Eftir standa 50 millj. Framhaldsskólinn er skertur í ár um 50 millj. Svörin sem við fengum við því hvernig það kæmi niður á skólunum var þessi: Þetta mun koma niður á stóru bóknámsskólunum. Þar höfum við svarið við því, frú forseti. Það hefur verið tekin pólitísk ákvörðun um að skerða framlög til stóru bóknámsskólanna á framhaldsskólastigi.

Frú forseti. Þetta hljóta að vera mjög vond tíðindi vegna þess að hér er verið að beita nokkru sem ég vildi gjarnan fá að kalla sjokkmeðferð að því leyti að skerðingunni er dembt á menn í upphafi og svo verða allir svo fegnir þegar búið er að skila einhverju af henni til baka að upp gufar sú mikilvæga umræða sem þarf að fara fram um reiknilíkanið sem á að nota til útdeilingu fjármagns, alla gallana sem eru á því og hvernig það er í rauninni. Í stað þess að vera reiknilíkan er það orðið að deililíkani, útdeililíkani. Reiknilíkan á auðvitað að reikna og sýna raunverulega fjárþörf og síðan eiga fjárframlög að fara eftir því. Það reiknilíkan sem hér er verið að nota er hins vegar notað til að deila út. Almennileg reiknilíkön eru ekki notuð þannig. Þá er líka rangnefni að kalla þetta reiknilíkan. Þá á bara að kalla þetta deililíkan. Hvað er það fyrsta sem menn gera eins og í þessu fjárlagafrumvarpi? Það er að leggja til breytingar á reiknilíkaninu til að skila skerðingunni inn í framhaldsskólana.

Frú forseti. Við hljótum að mótmæla þessum vinnubrögðum og þó að þessi ríkisstjórn og hæstv. menntamálaráðherra hafi ákveðið að beita sjokkmeðferðinni á fólk til að þagga niður umræðuna um hið meingallaða reiknilíkan kemst hún ekki undan því, frú forseti, að þurfa að taka þetta reiknilíkan upp fyrr en síðar.

Við erum að tala um gríðarlega mikilvægt skólastig og þetta er alls ekki boðlegt. Skólarnir geta ekki búið við óbreytt ástand. Þegar reiknilíkanið var sett á var það hugsað til þess að skólarnir gætu raunverulega gert áætlanir fram í tímann og hefðu fastan grunn til að gera áætlanir út frá.

Ef þessi ríkisstjórn og þessi hæstv. menntamálaráðherra sem nú situr ætlar núna á hverju einasta ári að nota reiknilíkanið til að dreifa skerðingum til framhaldsskólanna geta menn og þessir skólar náttúrlega gleymt því að hér sér eitthvert reiknilíkan. Þá er búið að eyðileggja það. Og ekki var það beysið fyrir.

Frú forseti. Ég mótmæli svona leikjum og boða það að við munum halda áfram að hvetja til þess að þetta reiknilíkan verði endurskoðað.

Það eru fjölmörg önnur mál á sviði skólamála, þá ekki síst á sviði háskólamála, sem ég vildi líka ræða hér en mun gera síðar við þessa umræðu. Ég segi bara stuttlega að mér þykir vægast sagt sérkennilegt hver afstaða menntamálayfirvalda er gagnvart skólakerfinu, háskólakerfinu og framhaldsskólakerfinu. Mér finnst vont ef hæstv. menntamálaráðherra sér það sem sinn helsta tilgang að vera í einhverju áróðursstríði í fjölmiðlum fyrir því að hér hafi framlög til háskólastigs eða framhaldsskólastigs víst hækkað þegar verkefni menntamálaráðherra á að vera að sækja fram fyrir hönd þessara skóla. Nei, frú forseti, hér er bara status quo og einu framlögin sem koma inn í háskólana núna eru vegna nemendafjölgunar. Þau eru ekki til að sækja fram í gæðum námsins. Þetta hefur komið skýrt fram og við höfum rætt ótal sinnum í þessum stóli þær skýrslur sem komu t.d. fram um Háskóla Íslands á síðasta ári. Ríkisendurskoðun gerði stjórnsýsluúttekt á stöðu Háskóla Íslands og hin úttektin sem gerð var var á vegum European University Association. Þessar skýrslur sögðu í stuttu máli þetta: Háskóli Íslands er búinn að aðlaga sig eins og hann getur að þeim fjárhagsramma sem honum er gefinn. Þetta er góður skóli, gæðin í náminu og kennslunni eru mikil en ef hann þarf að laga sig enn frekar að þrengdum fjárhagsramma eða þá ef fjárhagsramminn þrengist enn frekar byrjar það að bitna á gæðum námsins.

Frú forseti. Ég vil fá að heyra hvað menntamálayfirvöld ætla að gera í þessu. Það kemur aldrei fram. Í staðinn sér hæstv. menntamálaráðherra það sem sitt helsta verkefni að reyna að slá ryki í augun á fólki, að komast hjá umræðunni með því að leggja metnað sinn í einhverja talnaleiki þegar niðurstaðan er bara sú að framlögin hafa ekkert aukist umfram nemendafjölgun. Það er bara staðreynd sem við verðum að horfast í augu við. Nýjustu niðurstöður OECD sýna að við erum í 21. sæti OECD-ríkjanna yfir framlög til háskólastigsins og því 19. til framhaldsskólastigsins.

Frú forseti. Þetta finnst mér mikilvægt að fram komi hér og ég brýni menn í að hugsa betur um skólana, hætta þessum talnaleik og fara að hugsa um hvernig við sjáum þessa skóla og hvernig við ætlum að sækja fram með þessa skóla til framtíðar. Við vitum vel að við þurfum að ráðast í breytingar á framhaldsskólanum þannig að við komum í veg fyrir það mikla brottfall sem er í íslenskum framhaldsskólum. Hann þarf að verða sveigjanlegri og aðgengilegri fyrir bæði þá sem hafa horfið frá námi og líka þá sem ekki finna sig í framhaldsskólunum eins og þeir eru í dag.

Þetta er verkefnið, virðulegi forseti, ekki að eyða endalausum tíma í það hvernig við ætlum að breyta reiknilíkaninu til þess að það henti fjárhagsrammanum. Það á ekki að vera verkefnið. Verkefnið á að vera hvernig við gerum framhaldsskólann sveigjanlegri og aðgengilegri fyrir þá hópa sem hann gagnast ekki í dag.

Það væri hægt að halda hér langa ræðu um einmitt þetta mál. Ég ætla að koma að nokkrum fleiri þáttum áður en ég lýk máli mínu. Þar nefni ég að í þessu fjárlagafrumvarpi og breytingartillögum frá meiri hluta fjárlaganefndar er lögð til lækkun á áætlun á framlagi til Fæðingarorlofssjóðs. Mér finnst rétt að ræða það hér. Þetta er ekki há upphæð, 200 millj., en við þessa fjárlagaumræðu er mikilvægt að það komi fram hvers vegna menn gera þetta. Ég lít svo á að fæðingarorlofsfrumvarpið sé eitt merkilegasta frumvarpið sem komið hefur lengi fyrir þetta þing. Staðreyndin er hins vegar sú að þessi ríkisstjórn er á góðri leið með að eyðileggja þessi góðu fæðingarorlofslög.

Þetta segi ég vegna þess að á vordögum 2004 þegar þessi lög voru búin að vera í gildi í fjögur ár og nýkomin til framkvæmda að fullu kom þessi hæstv. ríkisstjórn fram með breytingartillögur til þess að koma böndum á útgjöld sjóðsins. Núna hefur sýnt sig að þessar breytingartillögur eru á góðri leið með að eyðileggja þessi ágætu lög. Þetta segi ég vegna þess að þegar breytingarnar voru gerðar var í fyrsta lagi farið í að breyta viðmiðununum, þ.e. tekjuviðmiðunartímabili tekna, þannig að í staðinn fyrir að vera 12 mánuðir samfleytt frá því að fæðingarorlof er tekið og aftur fyrir, og síðan meðaltal af því og 80%, fóru menn í það að taka tvö síðustu skattaár. Þannig var tekið mið af síðustu tveimur stimpluðu skattframtölum.

Þetta hefur, frú forseti, leitt til þess að viðmiðunartíminn getur verið allt frá 24 mánuðum upp í 36 mánuði eftir því hvenær ársins barnið er fætt. Þetta er auðvitað í eðli sínu ranglátt og líka að þarna er viðmiðunartímabilið orðið allt of langt. Þetta kemur sér illa fyrir þá sem hafa verið í námi, eru nýkomnir úr námi. Það er líka oft mikið launaskrið hjá ungu fólki sem er að koma sér upp fjölskyldu og er nýkomið frá námi.

Þetta kemur líka mjög harkalega niður á fjölskyldum þar sem stutt er á milli barneigna. Þetta þýðir í raun og veru að fæðist fjölskyldu barn í október 2006 og annað barn í desember árið 2008, þá er hluti af viðmiðunum með barninu árið 2008, af tekjuviðmiðunum, frá árinu 2004 og 2005. Þetta veldur auðvitað því að það er ekki lengur verið að miða við 80% af tekjum fólks. Það átti að vera þannig en sú er ekki raunin í dag. Ég vil benda á það við þessa umræðu að ég hef, ásamt fleiri þingmönnum Samfylkingarinnar, lagt fram breytingartillögur við fæðingar- og foreldraorlof þar sem á þessu er tekið vegna þess að þetta gengur ekki og þetta breytir að sjálfsögðu upphaflegum markmiðum fæðingarorlofslaganna. Menn verða að horfast í augu við það. En þetta, frú forseti, fannst mér rétt að minnast á hér þar sem verið er að leggja til lækkun á fæðingarorlofssjóði, þetta er ástæðan fyrir því.

Í lokin, frú forseti, verð ég að nefna mál sem er mjög mikilvægt að hér sé tekið upp en það er vaxtabótakerfið. Í fjárlagafrumvarpinu boðar ríkisstjórnin 430 millj. kr. aukningu á framlögum vegna vaxtabóta í frumvarpinu. Í því sambandi finnst mér rétt og mikilvægt að benda á að þrátt fyrir að þetta hljómi eins og um háar upphæðir sé að ræða er staðreyndin hins vegar sú að allt þetta kjörtímabil hefur ríkisstjórnin markvisst verið að skerða vaxtabætur og það hafa verið notaðar ótrúlegustu æfingar til þess. Sem dæmi um það má nefna að árin 2003 og 2004 miðuðust vaxtabætur við 7% af eftirstöðvum skulda. Árið 2005 lækkuðu bæturnar niður í 5,5% og síðan í 5% á þessu ári. Samkvæmt fjárlagafrumvarpinu á að stíga hálft skref til baka og miða við 6%.

Í öðru lagi voru einungis greidd út 90% af hámarksupphæð vaxtabóta árið 2004 og 95% árið 2005 og síðan í þriðja lagi og ekki síst, frú forseti, þá hefur húsnæðisverðið hækkað mjög mikið á þessum tíma og langtum meira en eignaviðmið til útreiknings vaxtabóta, sem stóð í stað milli áranna 2005 og 2006.

Frú forseti. Þetta hefur leitt til þess að þrátt fyrir að hér sé boðuð 400 millj. kr. hækkun til vaxtabóta þá er það að krónutölu 226 millj. kr. lægra en það var árið 2003, þannig að á yfirstandandi kjörtímabili hafa vaxtabætur markvisst verið skornar niður um 226 millj. að krónutölu. Sé þetta reiknað á fast verðlag í september þá eru þetta 1,4 milljarðar sem munar núna í ár og verður rétt tæplega milljarður á næsta ári miðað við þetta fjárlagafrumvarp.

Frú forseti. Þessu höfum við ítrekað mótmælt og halda menn að fólk sjái ekki í gegnum þessi vinnubrögð? Það er markvisst skorið niður á annan milljarð allt kjörtímabilið. Þegar svo kemur að kosningum er einhverju örlitlu skilað til baka og það eru kallaðar stórhækkanir inn í vaxtabótakerfið. Þvílík della, frú forseti, leyfi ég mér að segja. Þetta er auðvitað ekki bjóðandi. Að því samanlögðu hvernig farið hefur verið með vaxtabótakerfið og fæðingarorlofskerfið þá vil ég leyfa mér að spyrja hv. þingmenn Framsóknarflokksins hvort þetta sé fjölskyldustefnan sem Halldór Ásgrímsson boðaði og setti heila nefnd í þegar hann var forsætisráðherra. Maður hlýtur að spyrja sig að því. Eru þetta tillögur frá fjölskyldunefndinni sem ekkert hefur heyrst í annað en umræðan um skólabúningana? Og hvers vegna talaði fjölskyldunefndin um skólabúninga? Það var vegna þess að hún var farin að sjá og vissi af því að misskiptingin sem átt hefur sér stað á undanförnum árum var farin að sjást á börnum í skólum landsins. Þess vegna er umræðan um skólabúninga, eins og formaður Samfylkingarinnar, hv. þm. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, hefur ítrekað bent á, birtingarmynd misskiptingarinnar. En ég leyfi mér að spyrja, frú forseti, hvort þessar tillögur, þ.e. skerðingar á fæðingarorlofinu og skerðingar á vaxtabótakerfinu séu komnar úr smiðju fjölskyldunefndar Framsóknarflokksins. Því það er auðvitað komið nóg af þannig pólitík að hér sé blásið í endalausa herlúðra, settar á laggirnar nefndir á blaðamannafundum og á sama tíma gerist svo ekki neitt nema skerðingar, eins og í þessu tilfelli.

Frú forseti. Aðeins um vaxtabæturnar í lokin. Fyrir þinginu liggur frumvarp um breytingu á lögum um tekjuskatt sem snýst um vaxtabætur. Það varðar hið einangraða mál sem snýr að afleiðingum þeirrar miklu hækkunar sem hefur orðið á fasteignaverði sem er farið langt umfram eignaviðmiðið sem er notað til útreiknings vaxtabóta. Ríkisstjórnin kemur með tillögur inn í þingið um úrbætur í þeim efnum sem eru tillögur sem ASÍ hafnaði í sumar. Í tengslum við endurskoðun kjarasamninga í sumar lofaði ríkisstjórnin að leiðrétta skerðinguna vegna þess að þúsundir heimila urðu fyrir barðinu á þessari skerðingu á árinu. Þúsundir heimila fengu engar vaxtabætur í ár. Ríkisstjórnin lofaði að skila því til baka, en hvað kemur hún með inn í þingið? Hún kemur með tillögur sem ASÍ hafnaði í sumar. Í yfirlýsingu hennar eru jafnframt gefin fyrirheit um að haft verði náið samráð við ASÍ um útfærslu leiðréttinganna.

Nei, frú forseti. Það var ekki haft samráð og það er alveg ljóst að þegar það frumvarp verður orðið að lögum munu ekki nærri því allir sem sitja nú heima og bíða eftir vaxtabótunum sem þeim var lofað, fá þær. Það er mjög alvarlegt mál að mínu mati vegna þess að hér er kastað til hendinni, slumpað á einhverja 25% tölu í stað þess að skoða þessa hópa. Það er eins og menn hafi ekki nennt að fara í þá vinnu og það er mjög erfitt að fá upplýsingar um það hvernig fólk mundi koma út úr þessum skerðingum, hversu margir misstu bæturnar algerlega, hversu margir urðu fyrir skerðingum og hversu miklum. Ég vil, frú forseti, nota orðið að harma um þessi vinnubrögð vegna þess að þetta mun hafa mikil áhrif á fjölmargar fjölskyldur. Ég hvet ríkisstjórnina til að endurskoða þetta þannig að tryggt verði að þær fjölskyldur sem sitja eftir og bíða eftir þeim vaxtabótum sem þeim var lofað fái þær allar, ekki bara hluta af þeim. Annars má segja að það verði ansi köld og gödduð jólagjöf, jólagjöf alsett göddum sem ríkisstjórnin sendir þeim heimilum nú rétt fyrir jól.

Frú forseti. Eins og ég sagði í upphafi ræðu minnar þá hefur hv. formaður fjárlaganefndar kallað á fleiri breytingartillögur frá stjórnarandstöðunni. Okkur er ljúft og skylt að hjálpa honum með því að laga þetta frumvarp óski hann sérstaklega eftir því milli 2. og 3. umr.

Í lokin vil ég segja þetta, frú forseti: Þessi ríkisstjórn á bara tíma til 12. maí. Eftir þann tíma er ég alveg sannfærð um að hér mun taka við raunveruleg velferðarstjórn. (Gripið fram í.) Þá verða væntanlega ýmsir nýir í stjórnarandstöðunni.

Frú forseti. Að endingu vil ég hvetja menn til að stíga þau skref með okkur á morgun þegar greidd verða atkvæði um þessar tillögur, að stórbæta lífskjör eldri borgara af myndarskap. Því eins og ég sagði í ræðu minni áðan þá er það lagasetning héðan sem heldur þessu fólki niðri, sem heldur stórum hópum fólks niðri og það er það sem við þurfum að leiðrétta. Fyrst þurfum við að bæta kjör þeirra allverulega og fara svo í vinnu við að endurskoða almannatryggingakerfið algerlega frá grunni svo það hætti að íþyngja þeim sem þess eiga að njóta.