133. löggjafarþing — 34. fundur,  23. nóv. 2006.

fjárlög 2007.

1. mál
[17:58]
Hlusta

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Svo við komum að þessu síðasta, hvað átti að gera. Það sem ég sagði í ræðu minni og það sem ég sagði líka í ræðu minni við 2. umr. um fjáraukalög, var að of- og vanáætlanir ríkisstjórnarinnar hafa valdið því að á milli ára flæða fjármunir sem hafa þau áhrif að fjárlögin eru ekki sá skýri rammi sem þau eiga að vera vegna þess að ríkisstjórnin hefur látið það óátalið að svo sé. Þetta eru miklir fjármunir sem þarna flæða á milli ára þannig að fjárlögin eru ekki lengur sá skýri rammi og það skarpa tæki sem þau eiga að vera við stjórn efnahagsmála, ef allt væri eðlilegt. Það er ekki aðeins stjórnarandstaðan sem hefur gagnrýnt þetta, Ríkisendurskoðun hefur líka gagnrýnt þetta.

Frú forseti. Hv. þingmanni var líka tíðrætt um það hvað það væri sem við gagnrýndum varðandi framkvæmd fjárlaga. Það er akkúrat þetta atriði sem ég var að nefna hér og þetta eru ekki fáir liðir sem eru of- eða vanáætlaðir. Það eru 68% allra fjárlagaliða, sem eru of- eða vanáætlaðir um 4% eða meira samkvæmt því sem fram kemur í skýrslu Ríkisendurskoðunar frá því í sumar.

Virðulegi forseti. Þetta eru staðreyndir sem við höfum farið yfir og þegar svo margir fjárlagaliðir eru annaðhvort of- eða vanáætlaðir þá hlýtur það að hafa áhrif á það hvaða vigt fjárlögin hafa við stjórn efnahagsmála. Þetta verður að laga. Þetta höfum við gagnrýnt ár eftir ár og ekki bara við heldur líka ríkisendurskoðandi.