133. löggjafarþing — 34. fundur,  23. nóv. 2006.

fjárlög 2007.

1. mál
[20:20]
Hlusta

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þessi umræða um skattbyrðina er farin að verða dálítið þreytt hér í þinginu. Það er örugglega búið að taka marga daga á þessu kjörtímabili að ræða einmitt þetta. Skattbyrði þeirra sem enga skattbyrði höfðu hefur aukist. Það er alveg rétt. Það voru nefnilega fjölmargir sem enga skattbyrði höfðu vegna þess að þeir voru undir skattleysismörkunum. En í stjórnartíð þessara stjórnarflokka hafa þeir ruðst upp fyrir þessi mörk (Gripið fram í.) og þannig hafa þeir komið inn og tekið þátt í skattbyrðinni í landinu. Það borga engir einstaklingar 18% skatt. Það eru lögaðilarnir sem greiða 18% skatt en ekki einstaklingarnir. Okkur hefur tekist að auka kaupmáttinn og það er það sem við viljum horfa á, það sem fólk tekur með sér þegar það fer heim að loknum löngum vinnudegi. Það er það sem skiptir máli, það er það sem menn eiga að horfa á, vegna þess að það eru launin sem standa undir lífskjörum fólksins, ekki skattprósenta.