133. löggjafarþing — 34. fundur,  23. nóv. 2006.

fjárlög 2007.

1. mál
[20:24]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég vona að forseti virði mér það til vorkunnar að mér finnst ótrúlegur belgingur í þessum unga hv. þingmanni að halda því fram að tillögur stjórnarandstöðunnar grundvallist á góðri afkomu sem þessi ríkisstjórn hefur búið til með frammistöðu sinni. Á hverju grundvallast hin svokallaða góða frammistaða ríkisstjórnarinnar? Jú, hún er fjármögnuð af viðskiptahalla og því sem þessi hv. þingmaður hefur sjálfur kallað mistök í húsnæðislánakerfinu af hálfu ríkisstjórnarinnar.

En ég spyr hv. þingmann: Er hann að segja okkur að viðskilnaður kollega hans, hæstv. fjármálaráðherra, sé slíkur í ríkisfjármálunum að við höfum ekki efni á að hækka tekjutryggingu í 85 þús. kr.? Er hann að halda því fram að frammistaða hans og kollega hans sé slík að ekki sé hægt að hækka vasapeninga þeirra sem búa á stofnunum? Er það þetta sem hv. þingmaður heldur fram? Ef svarið er já, ætti hann þá ekki frekar að koma sér í annað skipsrúm (Forseti hringir.) og sinna einhverju öðru en þessu ef árangurinn (Forseti hringir.) er svona slappur?