133. löggjafarþing — 34. fundur,  23. nóv. 2006.

fjárlög 2007.

1. mál
[20:25]
Hlusta

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Jú, jú, við höfum vel efni á því að hækka við þessa hópa sem hér eru nefndir til sögunnar. Það er einmitt það sem frumvarpið sem ríkisstjórnin hefur teflt fram um þetta efni gengur út á. Á næsta ári á nefnilega hækka framlögin til þessara hópa sérstaklega, öryrkja og ellilífeyrisþega, um u.þ.b. 6 milljarða.

Það er því engin ástæða til að spyrja hvort við höfum ekki efni á að grípa til aðgerða til að styðja betur við þessa hópa vegna þess að það liggja einmitt fyrir þinginu tillögur í þessu efni. En að koma hér fram með tillögur sem kosta 13,4 milljarða og setja þær í þann búning að þær kosti einungis 7 milljarða, finnst mér frekar ódýrt.