133. löggjafarþing — 34. fundur,  23. nóv. 2006.

fjárlög 2007.

1. mál
[20:28]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það er í sjálfu sér himinn og haf, finnst mér, milli þeirra hópa í samfélaginu sem við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði og stjórnarandstöðunni tölum fyrir og hv. þm. Bjarni Benediktsson. Hann talaði í ræðu sinni um að fólki sem væri með svona 300–400 þús. kr. á mánuði ætti ekki að ívilna eða koma til móts við í gegnum almannatryggingakerfið, eins og með hækkun á frítekjumarki. Við erum ekki fyrst og fremst að tala um það fólk. Við erum að tala um fólk sem er kannski með innan við 100 þús. kr. á mánuði.

Frú forseti. Fyrir um hálfum mánuði síðan var mælt fyrir frumvarpi sem gerði ráð fyrir að frítekjumark vegna atvinnutekna lífeyrisþega yrði 200 þús. kr. á ári frá 1. janúar 2009 (Forseti hringir.) og 300 þús. kr. árið 2010. Nú hefur (Forseti hringir.) það verið fært fram.