133. löggjafarþing — 34. fundur,  23. nóv. 2006.

fjárlög 2007.

1. mál
[20:31]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég fagna því í sjálfu sér að ríkisstjórnin skuli vera að láta undan þeim þrýstingi stjórnarandstöðunnar, þrýstingi elli- og örorkulífeyrisþega, eins og hún er að gera, þótt ekki sé nema mjög lítið, að færa frítekjumarkið sem hún er með fram til gildistökunnar 1. janúar nk. Það er mjög ánægjulegt. En það var fyrir þrýsting.

Og hvað heyrum við nú? Við erum búin að vera að tala um séreignarlífeyrissparnaðinn og nú heyrist aftur í dag: Jú, við erum reiðubúin til að skoða það. Ég spyr hv. þingmann: Af hverju ekki bara að stíga heiðarlega skrefið til fulls, af reisn og samþykkja þær tillögur sem við höfum lagt fram um lágmarkslífeyri, um frítekjumark, en ekki láta berja sig til hænufeta sem þó ber að fagna hverju sinni?