133. löggjafarþing — 34. fundur,  23. nóv. 2006.

fjárlög 2007.

1. mál
[20:32]
Hlusta

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ítreka það sem ég hef áður sagt, ég tel að verið sé að stíga mjög myndarlegt skref með þeim breytingum sem hér eru lagðar til (Gripið fram í.) og liggja til grundvallar því frumvarpi sem hér liggur frammi. Það er gert ráð fyrir að um 6 milljörðum verði varið í þennan málaflokk sérstaklega. Við getum lengi rifist um hvað er nóg í þessu efni og auðvitað er seint nægilega mikið gert í því að bæta réttindi þeirra sem bágust hafa kjörin. 13,4 milljarðar eru það sem tillögur minni hluta fjárlaganefndar kosta ef borið er saman við það sem gildir í dag, á árinu 2006. (ÖJ: Þetta er fráleitur málflutningur.) 7 milljarðar eru viðbótin við það sem þegar er komið inn í fjárlögin þannig að við skulum bara horfa á þetta eins og þetta er. Það er verið að bæta þessum 7 milljörðum ofan á tillögur ríkisstjórnarflokkanna.