133. löggjafarþing — 34. fundur,  23. nóv. 2006.

fjárlög 2007.

1. mál
[20:52]
Hlusta

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Virðulegi forseti. Hér hefur verið farið víða um í dag í umræðum um fjárlögin. Ég ætla rétt að staldra við á nokkrum stöðum og byrja á því sem ég kom inn á í andsvari mínu áðan við hv. þm. Bjarna Benediktsson þar sem hv. þingmaður hafði gert mjög að umtalsefni í ræðu sinni hrinu skattalækkana ríkisstjórnarinnar á liðnum árum. Ég spurði hv. þingmann út í afleiðingarnar og stöðu þeirra skattalækkana sem eru eftirfarandi og ég ætlaði að fara aðeins yfir af því að þær eru að mínu mati mjög alvarlegar. Hægri haukarnir í Sjálfstæðisflokknum hampa þessum afleiðingum að sjálfsögðu mjög enda hafa verið stigin risavaxin skref í átt að því samfélagi sem þeir stefna að, þar sem er núna uppi gríðarlegur ójöfnuður, ójöfnuður sem á sér varla hliðstæðu í nokkru ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins. Þar er Ísland í fjórða sæti þeirra þjóða þar sem tekjuskiptingin er ójöfnust samkvæmt svokölluðum Gini-stuðli og einungis Lettland, Portúgal og Tyrkland búa við meiri ójöfnuð og Bretland og Eistland koma næst á eftir Íslandi á listanum. Þessu er algjörlega þveröfugt farið á hinum Norðurlöndunum þar sem þau lönd fjögur, Svíþjóð, Danmörk, Finnland og Noregur skipa hópinn þar sem tekjuskiptingin er jöfnust, ásamt Slóveníu og Tékklandi. Þetta er sá samanburður sem er hvað öflugastur og markvissastur þegar er borin saman samfélagsgerð einstakra ríkja og afleiðingarnar af skattastefnu ríkisstjórnarinnar í hverju landi fyrir sig.

Afleiðingarnar af skattastefnu ríkisstjórnarflokkanna eru einfaldlega þær að hyldýpi er á milli hópa í samfélaginu, annars vegar á milli lífeyrisþeganna sem við erum að fjalla um í sameiginlegri tillögu stjórnarandstöðunnar við fjárlagagerðina fyrir árið 2007 og hins vegar hátekjuhópanna í samfélaginu sem lifa allt öðru lífi, sem búa hér í hálfgerðri skattaparadís fyrir hátekjufólkið, eða sem er að verða það. Það er hyldýpi á milli þeirra sem hafa aðstæður til að koma fjármunum í burtu og njóta þeirra með öðrum hætti og lífeyrisþega og lágtekjufólksins í landinu.

Þegar rýnt er ofan í þessar skattkerfisbreytingar kemur margt merkilegt í ljós. Heildarskattbyrðin t.d. hefur aukist um 10% á áratug samkvæmt nýlegri skýrslu frá OECD og skattheimta sem var rúmlega 32% af vergri landsframleiðslu fyrir árið 1995 er núna rúmlega 42% samkvæmt bráðabirgðatölum fyrir árið 2005, einungis tíu árum síðar. Af þeim 24 löndum sem OECD mælir og lítur til var mesta aukningin í skattheimtu á milli ára á Íslandi, eða um 3,7%, en þá ber OECD einnig saman hvar mestu breytingarnar hafa orðið á skattheimtu sem hlutfall af landsframleiðslu milli áranna 1995 og 2004. Samkvæmt þeim lista er Ísland í öðru sæti hvað aukningu varðar, heildarskattbyrðisaukning hefur verið tæplega 8%.

Þegar litið er skatta á tekjur og hagnað hafa þeir u.þ.b. tvöfaldast á þessu sama viðmiðunartímabili, úr 10,7% af landsframleiðslu árið 1995 í tæplega 20% af landsframleiðslu árið 2005. Ef við skoðum bara skatta á tekjur einstaklinga hafa þeir aukist um tæplega 10%, 9,7% af landsframleiðslu árið 1995, í rúmlega 14% árið 2004. Þannig kemur það mjög sterklega fram að tekjuskattur á einstaklingum hefur aukist um tæpan helming á tímabilinu og skattar á tekjur fyrirtækja hafa aukist um 0,4% á sama tímabili, úr 0,9% af landsframleiðslu í 1,3%. Eignarskatturinn hefur hins vegar dregist saman á tímabilinu úr 2,8% af landsframleiðslu í 2,5%. Skattheimta af vöru og þjónustu stendur hins vegar nánast í stað, var 15,2% af landsframleiðslu en er 15,9% fyrir árið 2004.

Tölur OECD benda einnig til þess að nálega helmingur aukningar heildarskattbyrðar sé kominn til vegna aukins tekjuskatts einstaklinga. Þetta er mjög athyglisvert í ljósi þess hvernig, eins og ég nefndi áðan, skattbyrði einstakra hópa í landinu hefur þróast á þessum tíma og er algjört grundvallaratriði að taka inn í umræðuna þegar rætt er um skattbyrði einstakra hópa, þegar rætt er um skattalækkanir, þegar rætt er um skattkerfið og skattkerfisbreytingarnar og hvaða afleiðingar þær breytingar hafa hverju sinni af því að þarna kemur pólitík hverrar ríkisstjórnar að sjálfsögðu skarpast fram og þar sjáum við líka skarpast afleiðingarnar af stjórnarstefnu síðasta áratugar, síðustu tólf ára ef svo má segja, þarna koma þær hvað best fram. Þar hefur mest dregið úr skattbyrði þeirra sem hafa hæstar tekjurnar. Það er staðreynd sem blasir einfaldlega við og er grunnurinn að þeirri fullyrðingu að hérna ríki núna gríðarlegur og vaxandi ójöfnuður og það sé komin upp hyldýpisgjá milli þeirra sem hafa lægstu launin, þeirra sem lifa af lífeyrisgreiðslunum einum saman, lífeyrisþeganna og þeirra sem hafa hærri tekjurnar.

Skattbyrði þeirra sem hæstar hafa tekjurnar hefur helmingast á þessu tímabili. Í upphafi þess námu skattgreiðslur þessa hóps 35% af tekjum en árið 2004 voru þær einungis 15,8% af tekjunum. Á móti því kemur að mesta aukning skattbyrðar hefur orðið í tekjulægstu hópunum þar sem hún í sumum tilvikum og mörgum hefur einfaldlega margfaldast. Ef litið er til tekjulægsta fjórðungsins hefur skattbyrði þeirra tvöfaldast eða meira. Sem sagt, skattbyrði tekjulægsta hópsins í samfélaginu hefur tvöfaldast á þessu tímabili. Þar er kominn alvarlegasti hlutinn af málinu.

Afleiðingarnar af þessu birtast í tölum um tekjuójöfnuðinn, eins og ég nefndi áðan, innan Evrópska efnahagssvæðisins þar sem Ísland hefur þotið á ævintýralegum hraða upp listann um ójöfnuð í ríkjum og hraðinn á ójöfnuðinum er nánast ótrúlegur og á sér eiginlega engan samjöfnuð í neinu vestrænu ríki, það þarf að leita til ríkja Suður-Ameríku til að finna hraðann á ójafnaðaraukningunni. Þar vermir Ísland núna fjórða sæti á lista yfir tekjuskiptingu þar sem tekjuskiptingin er ójöfnust samkvæmt svokölluðum Gini-stuðli. Það eru einungis Lettland, Portúgal og Tyrkland sem búa við meiri ójöfnuð, eins og ég nefndi hérna áðan.

Þess vegna var spurt hér fyrr í umræðunum í dag: Voru þetta markmiðin með skattkerfisbreytingunum sem átti að ná fram með skattalækkunarhrinu ríkisstjórnarflokkanna eða á að bregðast einhvern veginn við þessum staðreyndum? Er þetta ásættanleg staða? Var þetta markmiðið að mynda þá gjá sem orðin er á milli stéttanna og hvernig — ef vilji er til þess — á að brúa þetta bil og koma á meiri jöfnuði í landinu þannig að við vermum bekkinn með hinum Norðurlandaþjóðunum þar sem tekjuskiptingin er jöfnust en ekki skammarlistann með löndunum þar sem ójöfnuðurinn er mestur og þar sem hann vex hröðustum skrefum?

Annað sem er mjög mikilvægt atriði í fjárlagaumræðunni snýr að vaxtabótakerfinu. Ríkisstjórnin boðar hækkun framlaga vegna vaxtabóta upp á 430 millj. kr. Þrátt fyrir það verða útgjöldin til vaxtabótanna 226 millj. kr. lægri en þau voru árið 2003. Ef við tökum mið af þróun vísitölu neysluverðs frá 2003 til september 2006 eru áætluð útgjöld vegna vaxtabóta að raungildi tæpum milljarði lægri núna en þá, eða 968 millj. kr.

Ríkisstjórnin hefur beitt mjög fjölbreytilegum aðferðum á kjörtímabilinu til að skerða vaxtabætur. Í fyrsta lagi er sífellt lægri hluti eftirstöðva skulda lagður til grundvallar við útreikning vaxtabóta. Árin 2003 og 2004 miðuðust vaxtabæturnar við 7% eftirstöðvar skulda en árið 2005 var það hlutfall lækkað í 5,5% og síðan í 5% á þessu ári og samkvæmt frumvarpinu sem við ræðum núna á ekki að ganga nema til hálfs við að láta skerðinguna ganga til baka þannig að viðmiðið sé 6%.

Í annan stað voru einungis greidd út 90% af hámarksupphæð vaxtabóta árið 2004 og 95% árið 2005.

Í þriðja lagi hefur húsnæðisverð hækkað gríðarlega á tímabilinu. Eins og hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson gat um fyrr í dag hefur verðbólgan fyrst og fremst verið í húsnæðisverðinu þar sem húsnæðislánin, húsnæðislánabreytingin og sú mikla og róttæka umbreyting sem varð á umhverfi húsnæðis- og fasteignalána fyrir nokkrum missirum, hefur m.a. orðið til þess að húsnæðisverð hefur hækkað gríðarlega á þeim tíma og miklu meira en viðmið til útreiknings vaxtabóta voru sem stóðu í stað á milli áranna 2005 og 2006 um leið og þau hefðu kannski þurft að taka mjög miklum breytingum þar sem þenslan á húsnæðismarkaði var gífurleg á þeim stutta tíma.

Ríkisstjórnin lofaði endurskoðun vaxtabóta við kjarasamningagerðina í vor og frumvarpið um að hækka lágmark eignaviðmiðunar að frádregnum skuldum við útreikning vaxtabóta liggur nú fyrir Alþingi. Hefur ASÍ lýst vonbrigðum með frumvarpið og fullyrðir að ríkisstjórnin efni ekki nema að hluta þau loforð sem gefin voru við kjarasamningagerðina í vor og gagnrýnir mjög harðlega að ekki hafi verið haft samráð við forustumenn Alþýðusambandsins þrátt fyrir margítrekaðar óskir um að svo yrði gert. Hlýtur það að vera nokkur áfellisdómur.

Sú tillaga sem stjórnarandstöðuflokkarnir flytja sameiginlega og var kynnt á blaðamannafundi í morgun hefur hlotið mikinn hljómgrunn í samfélaginu, er að heyra, og vakið mikla athygli enda tillagan til mikillar fyrirmyndar þar sem tekið er á, held ég að megi fullyrða, alvarlegasta samfélagsmeini okkar Íslendinga. Við afgreiðslu fjárlaga hefur stjórnarandstaðan sameinast um að leggja fram tillögur um stórhækkun á greiðslum til elli- og örorkulífeyrisþega sem samtals nema ríflega 7 milljörðum kr. og stendur þá í rúmum 13 milljörðum sé það lagt saman við tillögur ríkisstjórnarinnar.

Helstu atriðin í tillögum okkar eru eftirfarandi og hafa verið rakin og rædd ítarlega í dag:

Í fyrsta lagi er lagt til nýtt frítekjumark sem felur í sér að bæði ellilífeyris- og örorkulífeyrisþegar geti unnið sér inn 900 þús. kr. á ári án þess að lífeyrir hins opinbera skerðist nokkuð. Tillögur ríkisstjórnarinnar gera einungis ráð fyrir 300 þús. kr. frítekjumarki fyrir ellilífeyrisþega og engu frítekjumarki til öryrkja.

Í öðru lagi leggur stjórnarandstaðan til að tekjutrygging verði hækkuð upp í 85 þús. kr. á mánuði fyrir ellilífeyrisþega og 86 þús. kr. fyrir örorkulífeyrisþega, auk breytinga á launavísitölu frá því í sumar.

Í þriðja lagi er lagt til að afnumin verði með öllu tengsl lífeyrisgreiðslna við atvinnu- og lífeyristekjur maka, sem er mikið réttlætismál og barist var harkalega fyrir í þinginu fyrir nokkrum árum og olli miklum deilum í samfélaginu.

Í fjórða lagi er lagt til í tillögu stjórnarandstöðunnar að vasapeningar þeirra sem dvelja á stofnunum hækki um helming eða 50% og frítekjumark sömu einstaklinga verði einnig hækkað um helming eða úr 50 þús. kr. á ári í 75 þús. kr.

Í fimmta lagi leggur stjórnarandstaðan til að öryrkjar haldi aldurstengdri örorkuuppbót þegar farið er á ellilífeyri.

Í lokin er lagt til að skerðingarhlutföll minnki þannig að skattskylda á tekjur umfram frítekjumark skerði tekjutryggingu aðeins um 35% í stað 45% núna.

Þetta eru tillögur sem liggja núna fyrir þinginu og verður væntanlega greitt atkvæði um þær á morgun. Verður fróðlegt að sjá hvernig stjórnarliðar margir hverjir, sem börðust fyrir sumum þessara mála í prófkjörum sínum síðustu vikur og mánuði, muni afgreiða þær tillögur í þinginu þegar þar að kemur.

Að sjálfsögðu er margt annað sem vert er að nefna við fjárlagaumræðuna og eitt af því snýr að menntamálunum. Ber þar sérstaklega að líta til þeirrar úttektar sem OECD gerði á framlögum Íslendinga til menntamála núna í haust og var um margt mjög merkileg. Þar staðfestir skýrslan mikinn mun á framlögum ríkisins annars vegar og sveitarfélaganna hins vegar til skólamála þar sem skólastigin tvö sem sveitarfélögin reka eru í fremstu röð hvað varðar framlög, en framhalds- og háskólastigið eru töluvert fyrir neðan meðaltal innan OECD-ríkjanna og framlög á nemanda höfðu farið minnkandi á því árabili sem þar er til umræðu, sem eru árin 2002 og 2003. Segir það meira en mörg orð um fjárfestingarnar og skortinn á fjárfestingunum í menntakerfinu sem eiga sér stað á þeim árum.

Heildarútgjöld Íslendinga til menntamála eru ein þau hæstu innan OECD-ríkjanna sé miðað við verga þjóðarframleiðslu en við erum hins vegar í 15. sæti þegar borin eru saman útgjöld á hvern nemanda árlega frá grunnskóla upp í háskóla. Það er raunverulegasti mælikvarðinn á fjárfestingar í menntun og útgjöldum til skólamála. Framlögin hafa hækkað verulega á hvern nemanda á grunnskólastigi en lækkuðu, eins og ég gat um áðan, á milli áranna 2002 og 2003 til framhalds- og háskóla. Ísland er í þriðja sæti í framlögum til leikskóla, sjötta sæti til grunnskóla, sem eru skólastigin sem sveitarfélögin reka, en hins vegar erum við í hópi lægstu þjóða í framlögum til háskóla og framhaldsskóla þegar þessi mælikvarði er notaður. Þannig erum við í 21. sætinu á háskólastiginu og því 19. hvað varðar framhaldsskólana, skólana sem ríkið rekur.

Þarna er mikill munur og bendir til að metnaður sveitarfélaganna og skilningur þeirra á mikilvægi fjárfestinga í menntun sé allur annar en ríkisvaldsins, enda er grunnskólinn okkar kominn í hóp þeirra bestu í heimi á þeim árum sem sveitarfélögin hafa haft hann til reksturs. Þetta er eitt af því sem skýrsla OECD tekur til sérstakrar umfjöllunar, þ.e. fjármögnun skólastiganna, en ríki og sveitarfélög kosta um 93% af grunn- og framhaldsskólanum í viðmiðunarlöndunum og á síðustu árum hefur fjármagn frá öðrum en hinu opinbera aukist verulega í öllum löndum innan skólastigsins. Þar standa stjórnvöld hér á krossgötum og mikilvægt að ítarlega umræða fari fram um fjármögnun háskólastigsins til framtíðar þar sem tekjusamsetning háskólanna er í auknum mæli sú að stærsti hlutinn kemur frá hinu opinbera, annar hluti frá atvinnulífi og sá þriðji frá einstaklingunum sjálfum.

Þegar skoðaðir eru þeir háskólar sem standa í fremstu röð — af því að rætt var um það fyrr í dag að Háskóli Íslands hefði sett fram metnaðarfull markmið um að skólinn færi í röð þeirra fremstu og bestu í heiminum, sem að sjálfsögðu allir taka undir, en til að svo megi verða þyrfti að taka heljarstökk í opinberum framlögum til háskólans, auk þess að leita margra annarra leiða til að afla honum tekna. Bara bókakosturinn einn og sér, háskólabókasafn, er eitthvað sem er lagt til algjörs grundvallar bestu rannsóknarháskóla í heiminum en safnið hér stenst engan samjöfnuð, ekki einu sinni við það sem er vel í löku meðallagi meðal evrópskra og bandarískra háskóla.

Bestu háskólarnir eru á flesta mælikvarða þeir bandarísku. Af tíu bestu háskólum í heimi eru átta bandarískir og tveir breskir. Það er nokkur stöðugleiki á þeim lista þar sem þetta eru meira og minna sömu skólarnir ár eftir ár sem búa að löngum og miklum hefðum en hafa mjög öfluga tekjustofna frá ríkinu, bandarísku skólarnir frá fylkjunum og alríkinu og síðan frá atvinnulífinu og einstaklingum. Það er allt önnur samsetning á náminu og tekjugrunni háskólanna en hér. Bara það að koma íslenska háskólanum, Háskóla Íslands, eina háskólanum sem getur staðið undir því nafni að vera rannsóknarháskóli eða ætti að geta gert það, í fremstu röð þyrfti að koma til margföldunar á framlögum til hans til að ná því metnaðarfulla markmiði sem að sjálfsögðu mundi skila sér margfalt og margvíslega til baka, þá er allt slíkt tal í dag um að Háskóli Íslands sé á leiðinni í fremstu röð og á bekk með bestu háskólum í heimi innantómt tal. Það er svo langt, langt frá því að skólinn sé á leiðinni þangað, því miður. Aðbúnaður hans er einfaldlega svo fjarri því að vera nokkurs staðar í námunda við það.

Til að efla háskólana og gera þeim kleift að sækja fram í fremstu röð þarf að koma fram mikið aukið fjármagn frá hinu opinbera, frá fyrirtækjum og frá einstaklingum. Íslenskir háskólar eiga í miklum og vaxandi fjárhagsvanda. Vissulega hefur sókn í háskólana aukist mikið, enda er eldra fólk sem hafði stutta formlega skólagöngu, stutta formlega menntun, að sækja í miklum mæli aukna menntun. Það er að sjálfsögðu mjög lofsverð og jákvæð þróun sem hefur átt sér stað á mörgum árum. Á móti kemur þá að þau grundvallarmistök voru gerð í íslenska menntakerfinu að háskólarnir eru allt of margir. 300 þúsund manna þjóðfélag stendur ekki undir eða fullkomlega á bak við átta sjálfstæða háskóla. Það voru mistök. En það er í sjálfu sér margt jákvætt við það líka. Sjálfstæðar menntastofnanir hafa náð að skjóta rótum og náð mikilli fótfestu og nú þarf að stíga ný skref í þá átt að sameina suma skólana. Rætt er um að sameina Kennaraháskóla Íslands og Háskóla Íslands undir einn hatt og ég held að það væri mjög jákvætt. Við þurfum að sameina kraftana og efla þær stofnanir til að mynda einn framúrskarandi rannsóknarháskóla sem við getum ætlast til að komi fyrst í hóp þeirra 500 bestu kannski á næstu tíu árum og síðan skref af skrefi í átt að vera með einn besta rannsóknarháskóla í heiminum. Til að svo mætti verða þyrfti að eiga sér stað gífurlega umfangsmikið fjárfestingarátak í háskólamenntun. Umgjörðin þyrfti öll að gjörbreytast.

Menntun er að sjálfsögðu einstök fjárfesting, bæði fyrir einstaklinga og ríkið. Fullyrt er að hvert viðbótarár í skóla hafi í för með sér efnahagsleg áhrif fyrir þjóðarbúið á bilinu 3–6%, hvert eitt ár í skóla, og í kringum 22% tekjuauka af því að ljúka gráðu í háskóla. Þetta er náttúrlega gífurleg verðmætasköpun sem á sér stað. Efnahagslegur ávinningur af aukinni menntun er hafinn yfir allan vafa og yfirlitsskýrsla OECD um stöðu mála í 30 viðmiðunarlöndum er ágætur vegvísir um hvert við ættum að stefna og hvert við erum ekki að stefna og hvað við þurfum að gera til að ná þeim markmiðum sem ég hef verið að ræða um og hafa verið mjög uppi í opinberri umræðu á síðustu árum. Við verðum einfaldlega að fjárfesta miklu meira í menntun.

Mjög stórir árgangar komu inn í framhaldsskólana á síðustu árum. Við sáum fyrir ári síðan að verið var að vísa fólki burt úr framhaldsskólunum í stórum stíl, fólki sem vildi koma aftur, fólkinu sem hafði frestað námi sínu, fallið á brott eða hvað sem það er kallað, fólki sem hafði ekki lokið formlegri framhaldsskólagöngu og vildi koma aftur, var vísað frá. Það var með herkjum að tókst að taka á móti öllum nýnemum í kerfinu. Þarna var að sjálfsögðu að mörgu leyti um að kenna fyrirhyggju- og andvaraleysi menntamálayfirvalda sem brugðust í þessu máli. En ekkert hefur verið gert til að sporna sérstaklega við brottfallinu. Lítið hefur verið gert til að auka aðsókn í verknámið og iðnnámið sem er mjög vanræktur þáttur í íslensku menntakerfi. Við þyrftum að ráðast í sérstakt átak til að efla iðnmenntun og verkmenntun í landinu, átak sem við í Samfylkingunni og stjórnarandstöðunni höfum talað fyrir um árabil að þurfi að ráðast í. Þingflokkur Samfylkingarinnar hefur flutt á þremur þingum yfirgripsmikla þingsályktunartillögu um eflingu iðnmenntunar hvers konar í landinu sem er einn mikilvægasti útrásarþátturinn í íslensku menntakerfi. Það stendur undir svo mörgum öðrum atvinnulífstengdum fjárfestingum okkar Íslendinga.

Menntakerfið hefur vissulega verið sett hjá hjá hinu opinbera og það reyndist sveitarfélögunum að mörgu leyti mjög þungur baggi að taka við grunnskólanum fyrir tíu árum. Grunnskólinn var þá fjársveltur. Hann var að mörgu leyti gamaldags. Sveitarfélögin þurftu að byrja á að einsetja skólana í stórum stíl, byggja mikið yfir grunnskólana. Öll ytri umgjörð íslenska grunnskólans hefur gjörbreyst á þeim tíu árum sem sveitarfélögin hafa rekið grunnskólana. Metnaður þeirra til reksturs grunnskólanna er mikill. Mikið hefur verið byggt yfir skólana, íþróttastarf grunnskólanna er öflugt í mörgum sveitarfélögum. Við sjáum hvernig það hefur verið gert í Reykjavík og mörgum öðrum öflugum sveitarfélögum úti um allt land, en ríkið hefur hins vegar ekki komið með sanngjörnum hætti til móts við sveitarfélögin sem þurftu að ráðast í þá miklu fjárfestingu í grunnskólakerfinu og leikskólunum í rauninni líka þar sem sveitarfélögin hafa verið að feta sig að því að geta boðið tveggja ára og helst eins árs börnum vist í leikskóla til að leysa þann mikla vanda. Það er einnig partur af menntakerfinu. Við eigum að stefna að gjaldfrjálsum leikskóla frá ákveðnu árabili. Öll börn þurfa að hafa sama rétt á því óháð efnahag foreldra og jafna þarf aðstöðuna þar. Ríkisvaldið hefur hins vegar ekki viljað koma til móts við þær fjárfestingar, enda tala dæmin um hvernig það hefur að mörgu leyti leikið sveitarfélögin að reka leik- og grunnskólana sem tekur yfir 50–60% af útgjaldaþáttum sveitarfélaganna. Þau hafa að mörgu leyti ekki getað staðið undir slíkum fjárfestingum nema með mikilli skuldsetningu og skuldir sveitarsjóða hafa á þessum síðustu árum aukist úr 122 milljörðum kr. í lok ársins 2003 í 136 milljarða kr. í lok síðasta árs. Þar með hafa skuldir sveitarsjóða á hvern íbúa aukist úr 422 þús. kr. í 455 þús. kr.

Ríkisvaldið hefur komið illa fram við sveitarfélögin í landinu. Ríkisvaldið hefur ekki viljað mæta sanngjörnum kröfum sveitarfélaganna um endurskoðun á tekjuskiptingu milli ríkis og sveitarfélaga, endurskoðun á tekjugrunni sveitarfélaganna. Afkoma sveitarfélaganna er auðvitað mjög breytileg og mörg þeirra eiga í verulegum fjárhagserfiðleikum. Þar munar líka um þá brotlendingu sem sameiningartillögur hæstv. félagsmálaráðherra fyrir einu og hálfu ári guldu. Þær guldu algjört afhroð. Þær voru kolfelldar um allt land enda voru þær tillögur illa undirbúnar. Það var illa að þeim tillögum staðið þó að góður hugur fylgdi. Mjög ósannfærandi framsetning var á tillögunum þar sem ekki átti að fylgja þeim endurskoðun á tekjuskiptingu á milli ríkis og sveitarfélaga. Það var mjög ósannfærandi og dómur kjósenda féll og dómur kjósenda var mjög harður. Tillögurnar um allt land voru kolfelldar þannig að sameiningarferlið sigldi því miður í strand, því það væri sveitarfélögunum, verkefnum og íbúum þeirra mjög til framdráttar ef sveitarfélögunum fækkaði, þau stækkuðu og þeim væri þannig gert kleift að yfirtaka fleiri verkefni frá ríkinu eins og þekkist víðast í Skandinavíu þar sem hlutfall opinberra verkefna meðal sveitarfélaganna er 70% og 30% hjá ríkinu meðan hlutfallið hér er þveröfugt, 30/70 í hina áttina.

Við í Samfylkingunni höfum talað fyrir því og flutt um það tillögur að flytja eigi t.d. rekstur framhaldsskólanna yfir til sveitarfélaganna. Gera eigi reynslusamning við tiltekin sveitarfélög um rekstur framhaldsskólans og þangað eigi að stíga skref. Þangað eigi einnig að flytja öldrunarþjónustu, félagsþjónustu og síðan fleiri verkefni koll af kolli, löggæslu jafnvel og fleira slíkt. Til að það geti orðið þarf að sjálfsögðu að bæta afkomu sveitarfélaganna og ganga frá réttlátri og sanngjarnri skiptingu á tekjum milli ríkis og sveitarfélaga og endurskoða leiðirnar sem við höfum eða fara í það upp á nýtt með alvörutillögum að endurskoða tekjuskiptingu á milli ríkis og sveitarfélaga og fara aftur af stað með fólkinu í sveitarfélögunum til að kjósa um nýjar sameiningartillögur.

Afkoma sveitarfélaganna er mjög breytileg og mörg þeirra eiga í verulegum fjárhagserfiðleikum. Á síðasta ári má nefna að 60 sveitarfélög skiluðu jákvæðri afkomu sem nam rúmlega 6 milljörðum, 6,4 milljörðum kr. en 37 sveitarfélög voru rekin með 1,5 milljarða kr. halla. Hátt í 48 þúsund manns eða 16% þjóðarinnar búa núna í sveitarfélögum sem standa ekki undir rekstri. Það er að sjálfsögðu grafalvarlegt mál þegar hátt í 50 þúsund Íslendingar búa í sveitarfélögum sem eru svo illa stödd að þau standa ekki lengur undir rekstri, hvað þá að þau geti boðið íbúum sínum betri þjónustu eins og öldrunarþjónustu, betri leikskóla og gjaldfrían leikskóla. Stóru, ríku sveitarfélögin, vel reknu sveitarfélögin eins og Reykjavíkurborg — að minnsta kosti fram að síðustu sveitarstjórnarkosningum — geta ráðist í slíkar aðgerðir, boðið íbúum sínum betri og öflugri þjónustu en þau 37 sveitarfélög þar sem 16% þjóðarinnar búa geta að sjálfsögðu ekki boðið íbúum sínum upp á betri þjónustu af því að þau standa ekki undir rekstri.

Eins og segir í nefndaráliti minni hluta fjárlaganefndar er nauðsynlegt að tekið verði á málefnum sveitarfélaganna svo allir íbúar landsins njóti jöfnuðar þegar kemur að þeirri grunnþjónustu samfélagsins sem sveitarfélögin eiga að sinna. Þetta er eitt af stóru atriðunum við fjárlagagerðina og eitt af því sem er miður að út af fór, að ekki hefur á síðustu árum verið tekin upp tekjuskipting milli ríkis og sveitarfélaga. Skuldir sveitarsjóða eru jafnalvarlegar og miklar og þær eru og hafa aukist eins og ég sagði úr 422 þús. kr. á hvern íbúa í landinu í 455 þús. kr. á þessum þremur árum. Þarna ber sérstaklega að geta að í skuldsettustu og fátækustu sveitarfélögunum eru íbúaskuldirnar að sjálfsögðu miklu hærri.