133. löggjafarþing — 34. fundur,  23. nóv. 2006.

fjárlög 2007.

1. mál
[22:07]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Við ræðum hér mál málanna, hið viðamikla fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar. Það er nú komið til 2. umr. á Alþingi eftir meðhöndlun í fjárlaganefnd. Á einum mánuði og 20 dögum tókst hv. fjárlaganefnd að minnka þennan hugsanlega tekjuafgang sem lagt var upp með í fjárlagafrumvarpinu sem var þá um 17 milljarðar niður í innan við 10 milljarða. Útgjöld hafa verið aukin hér talsvert mikið og mun ég gera það að umtalsefni í ræðu minni og skoða aðeins líka þau ummæli sem nú þegar hafa fallið í umræðunni sem hefur farið fram hér í allan dag.

Mig langar til að byrja aðeins á því að gera athugasemdir við orð varaformanns fjárlaganefndar, hv. þm. Einars Odds Kristjánssonar, en það kveikti hjá mér hugrenningar að hlusta á hann. Hann stendur, að sögn, í baráttu við náttúru Íslands, við hálendið og fallvötnin, eldfjöllin, og hann hefur aldrei vitað meiri grát, hv. þingmaður, en út af „þessu Hálslóni“, þessu 57 ferkílómetra lóni sem fer yfir mela og urðir og einhverjar mosaþembur, eins og þingmaðurinn orðaði það. Það mætti halda, sagði hann, að verið væri að nauðga fjallkonunni. En það er þá bara verið að tryggja byggð í þessu landi.

Ég verð að segja, frú forseti, að mér rann til rifja að hlusta á varaformanninn standa í þessum ræðustóli og úthella tilfinningum sínum á þeim nótum sem hann gerði. Við hv. varaformaður fjárlaganefndar eigum samleið í baráttunni fyrir því að byggð sé tryggð í landinu en það skiptir máli á hvern hátt það er gert. Stór hluti þjóðarinnar sættir sig ekki við að það sé gert með því að fórna helstu gersemum íslenskrar náttúru og stór hluti íslensku þjóðarinnar sættir sig ekki við að hafa svona ríkisstjórn sem hagar sér eins og fíll í postulínsverksmiðju eða refur í hænsnakofa.

Ég verð að segja að þegar maður rýnir í þær áætlanir sem stórfyrirtæki hafa um að reisa fleiri álverksmiðjur hér á landi, og það enga smásmíði heldur allt upp í 600 þús. tonn, og menn tala um það eins og sjálfsagðan hlut að hér sé hægt að fóðra með orku risaálbræðslur sem hægt sé að drita niður út um allt land finnst manni eins og maður sé staddur í absúrd leikriti. Það er ekki heil brú í þeim áformum sem þó eru komin vel á veg og á mikið flug án þess að Alþingi sé upplýst og án þess að sveitarfélög séu upplýst. Það er bara eins og þetta sé einkamál stórfyrirtækjanna sem samt eru á makki við ríkisstjórn Íslands. Ríkisstjórnin veit um öll þessi áform. Það var ríkisstjórnin sem markaðssetti landið sem stóriðjuland. Það er ríkisstjórnin sem ber ábyrgð á óstöðugleika í efnahagskerfinu sem er fylgifiskur stóriðjuframkvæmda. Álverið sem verið er að reisa nú og hefur valdið öllum þeim óstöðugleika sem við höfum átt við að glíma í efnahagskerfinu síðustu þrjú árin er bara lítið miðað við álverið sem Norsk Hydro þykist ætla að reisa hér á næstu árum. Við erum að tala um 340 þús. tonna álver austur á Reyðarfirði, Norsk Hydro ætlar að reisa 600 þús. tonna álver. Svo koma nokkur 250 þús. tonna álver í millitíðinni.

Það er eins og þessi ríkisstjórn sé ekki tengd við neinn veruleika. Hún einblínir á einhverja draumsýn einhverra draumóramanna um það að hér sé hægt að ná úr iðrum jarðar þvílíkri raforku eða hitaorku sem hægt sé að breyta í raforku að annað eins á ekki að hafa sést á byggðu bóli. Skýjaborgirnar eru þvílíkar að það tekur ekki nokkru tali. Og það er að hluta til á skýjaborgum sem hugmyndir þessarar ríkisstjórnar eru reistar um þetta fjárlagafrumvarp en að mörgu leyti eru samt sem áður góðir hlutir hér þó að stigið sé að okkar mati í stjórnarandstöðunni minni skref og önnur skref en kannski ætti að stíga.

Eins og ég segi, stór hluti þjóðarinnar vill að þessi ríkisstjórn fái hvíld, og það í vor. Hún er búin að vera of lengi við völd og það þarf að gefa henni frí. Mér finnst þetta fjárlagafrumvarp vera til marks um það. Það er til marks um það sem stjórnarmeirihlutinn í fjárlaganefnd gerist sekur um en það er tengt þessum fjáraustri sem mér sýnist hafa gripið stjórnarmeirihlutann í fjárlaganefndinni. Ég vil meina að meiri hlutinn gerist með þeim tillögum sem hér liggja á borðum okkar á þskj. 422 sekur um að beita svo valdi sínu að það er ámælisvert.

Hér er verið að afgreiða fjárlög á kosningaári þar sem meiri hluti fjárlaganefndar fer lengra inn á þá braut en nokkru sinni fyrr á þeim átta árum sem ég hef setið á Alþingi Íslendinga að útdeila háum fjármunum fram hjá því kerfi sem löggjöfin segir til um að viðhafa eigi, að því er virðist í því augnamiði að kaupa sér velvilja. Hérna eru stjórnmálamenn á atkvæðaveiðum á ferð og fyrirgreiðslupólitíkusar sem láta eins og þeir eigi ríkissjóð. Ég trúi því ekki, frú forseti, að kjósendur Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks séu stoltir af sínum mönnum í dag. Ég ímynda mér að það renni á menn tvær grímur þegar niðurstöður úr vinnu fjárlaganefndar eru skoðaðar.

Niðurstöður þessa meiri hluta, eins og ég sagði áðan, eru fólgnar í því að stjórnarliðar sem fyrir einum mánuði og 20 dögum gáfu sig út fyrir að ætla að skila ríkissjóði með 17 milljarða tekjuafgangi geta ekki á sér setið í fyrirgreiðslunum sem enda með því að tekjuafgangurinn verður innan við 10 milljarðar.

Nú má ekki skilja orð mín svo að ég sé mótfallin hækkuðum framlögum til heilbrigðismála eða menntamála. Síður en svo. En ég er ósátt við að stjórnarliðar skuli koma til 2. umr. um fjárlög, berjandi sér á brjóst rétt fyrir kosningar, spilandi út þessum fúlgum í breytingartillögum eftir þau miklu vonbrigði sem ýmsar opinberar stofnanir urðu fyrir þegar frumvarpið leit dagsins ljós. Samkvæmt frumvarpinu, eins og það liggur fyrir í þessari gulu bók, er gert ráð fyrir mikilli skerðingu á fjölda stofnana og fullkomlega óraunhæfum fétekjukröfum eins og ég mun víkja að síðar í máli mínu.

Hv. formaður fjárlaganefndar sá ástæðu til að koma í andsvar við ræðu hv. þm. Einars Más Sigurðarsonar, sem var einn af talsmönnum stjórnarandstöðunnar í þessari umræðu og gerði grein fyrir breytingartillögum eða sameiginlegum tillögum stjórnarandstöðunnar um ýmsa þætti sem varða stórhækkaðar greiðslur til elli- og örorkulífeyrisþega, samtals ríflega 7 milljarðar kr.

Formaðurinn, hv. þm. Birkir Jón Jónsson, sá ástæðu til að gera það að umtalsefni að engar tillögur væru í tillögum stjórnarandstöðunnar um að bæta stöðu heilbrigðisstofnana, stofnana félagslega kerfisins eða menntakerfisins. Og var mjög hneykslaður, náði varla upp í nefið á sér. Var mjög hissa á því að stjórnarandstaðan skyldi nú ekki koma með neinar tillögur til að bæta stöðu þeirra stofnana. Hvernig telur stjórnarandstaðan eiginlega að margar ríkisstofnanir geti búið við óbreyttar fjárheimildir? lá í spurningu formannsins. Það er kannski von að hann spyrji. En í spurningunni er auðvitað falinn áfellisdómur yfir eigin gerðum. Eða hefur hv. formaður fjárlaganefndar í raun áhyggjur af stöðu þeirra stofnana sem um ræðir? Ég lýsi eftir svari frá hv. formanni við þeirri spurningu. Og svari við því hvers vegna hann hækkar þá ekki sjálfur framlögin til þeirra stofnana sem hann ber svo mjög fyrir brjósti í því andsvari sem ég geri hér að umtalsefni. Eða ber hann hag þeirra einungis fyrir brjósti þegar hann telur að með því geti hann komið höggi á stjórnarandstöðuna? Það skyldi þó ekki vera. Hv. þingmaður hlýtur að átta sig á hvað svona yfirlýsingar hafa í för með sér og ég vona að fjölmiðlar hafi verið að hlusta og geti þá haldið áfram að spyrja hv. þingmann sem fer fyrir fjárlagavinnu meiri hlutans því það þarf að skýra þessi ummæli nánar.

Er hv. formaður fjárlaganefndar þeirrar skoðunar að tillögur meiri hlutans séu svo lágar að þær nægi ekki til að bæta stöðu heilbrigðisstofnana, stofnana félagslega kerfisins eða menntakerfisins? Ef hv. formaður telur að framlögin séu of lág hlýtur hann að vera að brjóta eiðstafinn sem hann undirritaði hér þegar hann settist á þing fyrir tæpum fjórum árum og er grundvöllur að þingsetu hans.

Það er ótrúlegt að sjá hvernig hv. þingmaður hneykslast á því að stjórnarandstaðan skuli ekki vera að gera hér einhverjar tillögur um bragarbót fyrir heilbrigðiskerfið, fyrir félagslega kerfið. (BJJ: Það eru engar.) Það eru engar, segir hv. formaður. Ekki eru þær hjá meiri hlutanum. Ég held því að hv. formaður þurfi að skýra orð sín nánar, að hann skuli hneykslast á því að stjórnarandstaðan skuli ekki koma með tillögur þar að lútandi. Ef það er svona mikil þörf á að leiðrétta eitthvað verður hv. þingmaður að gera það sjálfur.

Hv. þm. Birkir Jón Jónsson hefur líka haldið því fram í dag að nauðsynlegt sé að skera upp bótakerfi ríkisins og taka það til heildarendurskoðunar. Það er sagt á vef Ríkisútvarpsins í dag að tilefni þeirra orða þingmannsins sé kannski öðru fremur saga sem hér hefur verið rakin í dag, saga sem við heyrðum í fréttum útvarps í gærkvöldi, saga öryrkja sem hafði leyst út tæplega 400 þús. kr. af viðbótarlífeyrissparnaði en þegar skatturinn var búinn að taka sitt og Tryggingastofnun búin að skerða bætur hennar og eiginmanns hennar, sem er ellilífeyrisþegi, stóðu eftir 9.000 kr. af sparnaðinum. 9.000 kr. af 400 þús. kr. Auðvitað hneykslast fólk á þessu og áttar sig ekki á hvers konar landi við lifum í og við hvers konar kerfi við búum sem geti farið svona með viðbótarlífeyrissparnað öryrkja.

Stjórnarliðar hafa talað fyrir því í dag að skera þurfi upp þetta kerfi og að koma þurfi í veg fyrir að svona lagað gerist, þar með hv. formaður fjárlaganefndar og líka hv. þm. Bjarni Benediktsson sem heldur því fram að mikið hafi verið gert til að reyna að bæta kjör eldri borgara og öryrkja og enn standi mikið til í þeim efnum. Hann segir að ungt fólk sem er að byrja að greiða viðbótarlífeyrissparnað í dag eigi ekki að þurfa á almannatryggingum að halda þegar það kemst á efri ár og að almannatryggingakerfið sé fyrir þá sem lenda í óhöppum.

En á sama tíma og þetta er að gerast eru þessir herramenn að breyta opinberum stofnunum í hlutafélög, undirbúa einkavæðingu almannaþjónustu, sem á eftir að leiða til hvers? Til aukinnar misskiptingar í samfélaginu, til aukins launamisréttis og til aukins launamunar kynjanna. Hér stangast því hvað á annars horn í gjörðum þessara manna. Í orði kveðnu við fjárlagaumræðuna vilja þeir öflugt velferðarkerfi og svo eru þeir að grafa undan því með hinni hendinni í gjörðum sínum að öðru leyti.

Það færist nefnilega í vöxt að starfsemi einkafyrirtækja sem selja þjónustu á markaði sæki um stuðning til fjárlaganefndar og þeim fyrirtækjum fjölgar árlega sem njóta árvissra styrkja á fjárlögum og aukafjárlögum. Þessir háu herramenn eru líka að gera í því að sjá til þess að undirbúa jarðveginn fyrir frekari einkavæðingu. Mér kemur í hug þessi tilhneiging sem er mjög rík núna í fjárlagafrumvarpinu að láta opinberar stofnanir fara að greiða í beinhörðum peningum leigu til Fasteigna ríkisins. Ég get nefnt Landbúnaðarstofnun, Landbúnaðarháskóla Íslands og Þjóðleikhúsið.

Margar af breytingartillögum fjárlaganefndar eða meiri hluta fjárlaganefndar eru einmitt til komnar vegna svona hluta, að verið er að krefja ríkisstofnanir um leigu sem eru greiddar úr einum vasa ríkisins yfir í hinn. Og svo mega menn spyrja sig hvort ekki stefni í það innan fárra ára að batteríið, Fasteignir ríkisins, verði sett á markað. Verði einkavætt og sett á markað. Þeir eru bara að undirbúa slíkt. Þeir eru að búa til kerfi til að búa í haginn fyrir einhverja góða einkaaðila, sem þarf að plokka út eða velja út úr einkavinaflórunni, og svo verður einkavætt. Þetta er tilhneigingin og þetta er stefnan þó svo þeir séu ekki að flíka henni hér og nú í fjárlagaumræðunni.

Talsvert af þeim fjárlagatillögum sem varða svona styrki og sporslur eru einmitt til einkafyrirtækja. Samningar sem t.d. menntamálaráðuneytið hefur verið að gera í ríkum mæli eru gerðir við einkaaðila. Talsvert er um að fyrirtæki sem starfa t.d. á vettvangi skólamála og bjóða upp á ýmsar tæknilegar lausnir fyrir námsmenn eða stúdenta, framleiða námsefni eða bjóða upp á kennslu í einstökum námsgreinum, séu að sækja um styrki til fjárlaganefndar og fái fyrirgreiðslu. Einnig má nefna ráðgjafarfyrirtæki sem keppa á markaði um hylli neytenda hvert á sínu sviði. Þau eru farin að sækja í auknum mæli til fjárlaganefndar um stuðning og eru að fá. Seinni árin finnst mér eins og ríkissjóður hafi verið opnaður í auknum mæli fyrir bein framlög til slíkra fyrirtækja og mér sýnist þetta vera að öllum líkindum liður í aukinni einkavæðingu opinberrar þjónustu sem ríkisstjórnin vinnur nú að leynt og ljóst.

Að minnsta kosti er ekkert amast við því að fyrirtæki á markaði sæki í auknum mæli um fjármagn til verkefna sinna til fjárlaganefndar, heldur er þeim tekið opnum örmum og okkar sameiginlegu sjóðir eru opnaðir svo úr þeim renna milljónirnar óhindrað. Og engar úthlutunarreglur gilda. Nei, ekki hjá fjárlaganefnd og ekki þarf að merkja framlögin heldur sérstaklega aðstandendum fyrirtækjanna á hinum opinberu pappírum svo almenningur á ekki auðvelt um vik að sjá hverjum er verið að umbuna.

Við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs höfum mótmælt þessum nýju siðum og við teljum vera um misnotkun valds að ræða hvað fjárlaganefnd hefur verið örlát á fjármuni hins opinbera, sérstaklega á þeim fjárlögum sem úr þessum ræðustóli hafa verið nefnd kosningafjárlög.

Einnig hafa verið settar stórar upphæðir sem látnar hafa verið í virkilega þarfa málaflokka, ég er ekki að kasta rýrð á það. En upphæðir sem hafa ekki einu sinni farið fyrir fjárlaganefndina til umræðu heldur eitthvað sem meiri hlutinn hefur stimplað og sent út fréttatilkynningar um að nú sé verið að láta 100 milljónir í íslenskukennslu til útlendinga, framlögin til Kvikmyndastofnunar er eitt, þar sem fóru tæpar 130 millj. kr. á einu bretti til að hækka framlög til Kvikmyndastofnunar.

Í dag kom svo útspil frá menntamálaráðuneytinu um að búið sé að stofna Útflutningsskrifstofu íslenskrar tónlistar með athöfn í Þjóðmenningarhúsinu. Stofnaðilar Útflutningsskrifstofu íslenskar tónlistar eru Samtónn og Landsbankinn, en auk fjárframlaga frá stofnaðilum leggja utanríkisráðuneytið, menntamálaráðuneytið, iðnaðarráðuneytið til fjárframlög til rekstrar Útflutningsskrifstofunnar. Árleg fjárframlög til reksturs skrifstofunnar nema 17,5 millj. kr. á ári yfir þriggja ára tímabil. Þar af eru framlög ráðuneytanna 10 millj. kr. sem skiptast þannig að menntamálaráðuneytið leggur til 5, iðnaðar- og viðskiptaráðuneytið 2,5 og utanríkisráðuneytið 2,5 millj. kr. Nú skal það tekið fram að ég hef ekkert á móti Útflutningsskrifstofu íslenskrar tónlistar, en að þessi tilkynning skuli koma frá menntamálaráðuneytinu í dag, þegar búið er að stimpla meira að segja allar breytingartillögur sem koma úr fjárlaganefnd, er athugunarvert.

Svo gerðist það líka að í dag fengum við fréttatilkynningu þar sem sagt er að ríkisstjórnin hafi samþykkt á fundi sínum á þriðjudag, að tillögu Árna Mathiesens, hæstv. fjármálaráðherra, að leggja til við Alþingi að virðisaukaskattur á geisladiska verði lækkaður niður í 7%. Menn eru í miklum bríma, miklum ham, við að slá sig til riddara, með eins og ég segi ýmsum verkefnum sem Alþingi væri alveg tilbúið til að standa saman að, ef við fengjum tækifæri til þess að ræða um það. En minni hlutinn er sniðgenginn, minni hlutinn í fjárlaganefndinni hefur ekkert um þetta að segja. Hann fær ekki að sjá pappírana sem eru á bak við jafnvel hundruð milljóna úthlutanir. Það er því virkilega ámælisvert hvernig núverandi ríkisstjórn á kosningaári er að fara með völd sín og ég vil segja, misfara með völd sín.

Frú forseti. Ég stend að tveimur minnihlutaálitum nefnda sem birt eru í nefndaráliti meiri hluta fjárlaganefndarinnar á þingskjali 421. Ég mun nú gera grein fyrir þeim minnihlutaálitum. Það er annars vegar minnihlutaálit frá menntamálanefnd og hins vegar minnihlutaálit frá umhverfisnefnd. Í fylgiskjali VI í nefndaráliti meiri hlutans, sem kemur þá frá 2. minni hluta menntamálanefndar því það náðust einungis tveir minni hlutar þegar málið var afgreitt út, segir eftirfarandi, með leyfi forseta:

„Nefndin hefur fjallað um þann hluta fjárlagafrumvarpsins sem er á hennar málefnasviði, sbr. 2. mgr. 25. gr. laga nr. 55/1991, um þingsköp Alþingis, og bréf fjárlaganefndar frá 5. október 2006.

Nefndin fékk til sín á fund Gísla Þór Magnússon og Auði Björgu Árnadóttur frá menntamálaráðuneyti, Jónatan Garðarsson og Ástu Hrönn Maack frá tónlistarsjóði. Sérstakur fundur var haldinn með fjárlaganefnd, menntamálanefnd og starfsmönnum menntamálaráðuneytis, Gísla Þór Magnússyni og Aðalsteini Eiríkssyni, um reiknilíkan ráðuneytisins vegna framhaldsskólanna.

Annar minni hluti gerir athugasemd við vinnutilhögun nefndarinnar þetta árið. Tími hennar fór að mestu í að vinna tillögur að úthlutun safnliða, og stendur 2. minni hluti að afgreiðslu safnliðanna eins og hún er skýrð í áliti 1. minni hluta nefndarinnar. Eini fundurinn sem haldinn var um efni frumvarpsins, utan kynningarfundar með fulltrúum menntamálaráðuneytisins, var fundurinn með fjárlaganefnd um stöðu framhaldsskólanna sem áður er nefndur. Ekki var kallað á gesti varðandi neina aðra liði frumvarpsins.“

Þetta, frú forseti, er að mínu mati afar ámælisvert því að sjálfsögðu á menntamálanefnd að kalla til sín forstöðumenn helstu menntastofnana og það hefur verið til siðs í menntamálanefnd að gera það. En að þessu sinni var það ekki gert og allur tími nefndarinnar fór í að taka á móti gestum sem höfðu sent inn umsóknir til fjárlaganefndar en eins og alkunna er fjölgar þeim sem senda inn styrkbeiðnir til fjárlaganefndar á ári hverju og er kannski ekki að undra þar sem fjárlaganefnd er jafnörlát á fé og úthlutanir opinbers fjár og raun ber vitni.

Í áliti 1. hluta menntamálanefndar segir eftirfarandi um safnliðina, sem við stöndum að afgreiðslu á, með leyfi forseta.

„Nefndin telur að í meginatriðum eigi úthlutun til einstakra verkefna á sviði lista og menningar að vera í höndum sjóða sem komið hefur verið á í þeim tilgangi.“

Nú vona ég að hv. þingmenn meiri hluta fjárlaganefndar leggi við eyru. Það er sem sagt álit meiri hluta menntamálanefndar að það eigi að meginhluta til að úthluta til einstakra verkefna á sviði lista og menningar í gegnum sjóði, enda höfum við sjóði og farveg fyrir flest af þeim verkefnum sem við fáum inn á okkar borð. Við höfum sett lög um ákveðna sjóði og ég nefni safnasjóð því til staðfestingar og tónlistarsjóð sömuleiðis.

Áfram segir á áliti 1. minni hluta menntamálanefndar, með leyfi forseta:

„Hjá stjórnum og ráðum sem annast úthlutun úr slíkum sjóðum fara umsóknirnar í gegnum faglegt mat sem menntamálanefnd Alþingis hefur ekki forsendur til að beita. Í þessu sambandi bendir nefndin á að úthlutun vegna tónlistarerinda eigi að fara fram í gegnum tónlistarsjóð. Samkvæmt lið 02-982-1.25 í frumvarpi til fjárlaga 2007 fær tónlistarsjóður 49 millj. kr. Nefndin hefur, að beiðni fjárlaganefndar, skoðað umsóknir um styrki til einstakra tónlistarverkefna, t.d. Berjadaga, sem er tónlistarhátíð á Tröllaskaga, Harmonikkufélags Vestfjarða, Músíkur í Mývatnssveit, Sumartónleika í Skálholtskirkju og Þjóðlagahátíðar á Siglufirði, og telur að eðlilegra væri að þessar umsóknir kæmu til skoðunar hjá tónlistarsjóði þar sem gilda ítarlegar reglur um úthlutunina, sbr. reglur nr. 125/2005, um úthlutun styrkveitinga úr tónlistarsjóði. Með því móti er líka komið í veg fyrir að sótt sé um á báðum stöðum eins og brögð hafa verið að. Slíkt er einkum óheppilegt fyrir tónlistarsjóð sem reynir að meta sínar úthlutanir án vitneskju um hverjir hljóta styrki frá Alþingi.“

Þetta var úr áliti 1. minni hluta menntamálanefndar. Undir það rita hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson, formaður menntamálanefndar, og hv. þm. Sæunn Stefánsdóttir.

Minni hlutinn í menntamálanefnd tekur undir þetta sjónarmið. Þegar hv. formaður nefndarinnar fór á fund fjárlaganefndar óskaði hann beinlínis eftir því að tónlistarsjóður yrði hækkaður um 20 milljónir til þess að þau verkefni sem — nú sé ég að hv. formaður fjárlaganefndar rekur upp stór augu, hann rekur kannski ekki minni til þess — en með það skildum við í menntamálanefnd að þetta yrði erindi hv. formanns til fjárlaganefndar að tónlistarsjóðurinn yrði hækkaður um 20 milljónir til að hann gæti þá tekið við þeim föstu árlegu tónlistarverkefnum sem eru vítt og breitt um landið og Alþingi vill að haldi áfram. Þar erum við að tala um Skálholtshátíð, Reykholtshátíð, tónlistarhátíðina á Kirkjubæjarklaustri, Berjadaga á Tröllaskaga og lengi mætti áfram telja. Það er fjöldinn allur af svona hátíðum sem hafa fengið einhver hundruð þúsunda, kannski 400 þúsund eða 500 þúsund á ári, frá Alþingi. Slíkar fjárveitingar eiga bara að fara í gegnum tónlistarsjóð og tónlistarsjóðurinn á auðvitað að gera samninga við þessi verkefni til ákveðins tíma, t.d. fimm ára í senn, og endurskoða þá að fimm árum liðnum og sjá þá hvort hátíðin hefur ekki vaxið og dafnað og hvort hún fái ekki áframhaldandi samning eða hvort hún hafi breyst og hvort einhverju þurfi að breyta.

Af þessu tilefni kölluðum við í menntamálanefnd á stjórn tónlistarsjóðsins og fengum Ástu Maack og Jónatan Garðarsson á fund til okkar og við áttum langt og gott samtal við þau um nákvæmlega þetta. Það er í slíkum farvegi sem tónlistarverkefnin eiga auðvitað að vera, því þegar allt kemur til alls eru heiðarlegir einstaklingar — ég segi ekki heiðarlegir einstaklingar, bara einstaklingar sem vita hvernig tónlistarsjóður var hugsaður. Hann var hugsaður sem slíkur að taka yfir þau verkefni sem Alþingi hafði verið að láta renna til á hverju ári til að spara m.a. fjárlaganefnd eða menntamálanefnd öllu heldur vinnuna við að skoða allar umsóknirnar og setja sig inn í þær. Menntamálanefnd, sem síðan hefur gert tillögu til fjárlaganefndar sem yfirleitt hefur verið farið að jafnvel þó svo að fjárlaganefnd hafi alltaf stækkað pottinn og útdeilt svo á eigin vegum ýmsum styrkjum sem menntamálanefnd hafði ekkert um að segja.

Þetta er óráðsía sem verður að stöðva. Við í menntamálanefnd höfðum tillögu í þeim efnum og óskuðum eftir því að að henni yrði farið, en hvað gerist? Fjárlaganefnd er svo laus höndin í pyngjunni að styrkirnir til tónlistarverkefna dælast út en nefndin vill ekki hækka tónlistarsjóðinn og tryggja faglega úthlutun til slíkra verkefna með mögulegum samningum til ákveðins tíma. Það er skammsýni af fjárlaganefnd að hafa ekki farið að beiðni menntamálanefndar því að með þessu móti hefði mátt skapa miklu meiri sátt og fagmennsku í kringum úthlutanirnar en nokkurn tíma verður hægt að koma á hjá okkur þingmönnunum.

Í heildina má segja, svo ég kannski spinni þennan þráð örlítið áfram þó ég sé í miðjum klíðum að gera grein fyrir álitum menntamálanefndar, að það sé skýrt dæmi uppi á borðum okkar í þessum fjárlögum um það hvað fjárlaganefnd er á hálum ís með að vera sífellt að auka útdeilingar sínar á opinberu fé. Nú hefur það verið til siðs hjá sjálfstæðu atvinnuleikhópunum að þeir hafa haft fjármuni sína, rúmar 40 milljónir, undir fjárlagalið sem heitir Til starfsemi atvinnuleikhópa. Það hefur algjörlega haldið að leikhóparnir vita að í þennan sjóð sækja þeir um allar sínar leiksýningar sem þeir vilja setja upp. Leikhóparnir hafa fellt sig við þetta og fara í gegnum þann faglega farveg að leiklistarráð, sem úthlutar úr sjóðnum, fær allar þær umsóknir, skoðar þær faglega og úthlutar faglega. Nú er hins vegar farið að bera á því á þessum fjárlögum að einstakir leikhópar eru farnir að sækja sjálfstætt til fjárlaganefndar. Fá leikhóparnir stuðning fjárlaganefndar? Já, eins og ekkert sé.

Hvað heldur hv. þm. Birkir Jón Jónsson, formaður fjárlaganefndar, að hann fái marga leikhópa yfir sig á næsta ári? Ég get lofað honum því að þeir verða nokkuð margir því að þegar einn sér að svona er hægt að fara að, þá koma hinir auðvitað í kjölfarið. Viðleitni þeirra sem hafa verið að reyna að vinna að því að koma hlutunum í faglegan farveg er fyrir borð borin. Meiri hluti hv. fjárlaganefndar gerir sér það að leik að riðla eða koma í veg fyrir að hægt sé að setja upp faglegt, skilvirkt, gagnsætt kerfi þar sem um jafningjamat er að ræða og faglega úthlutun. Nei, þetta skal halda áfram á þessari braut og þá skal líka fjárlaganefnd bara fá í höfuðið enn fleiri verkefni en hingað til hafa verið. Ég held að það sé nú nóg samt.

Við getum nefnt húsafriðunarnefnd og alla styrkina til uppbyggingar á gömlum húsum vítt og breitt um landið. Af hverju má ekki húsafriðunarnefnd útdeila þeim styrkjum? Af hverju er það gert þannig að fjárlaganefnd úthlutar þeim? Jafnvel þó svo að fjárlaganefnd sé farin samvisku sinnar vegna síðustu tvö ár að kalla á formann húsafriðunarnefndar til að sitja við borðið þegar fjárlaganefndin úthlutar er miklu heilsusamlegra fyrir okkur öll að setja fjármunina til húsafriðunarnefndar, í þann sjóð sem þar er og láta úthlutunina fara fram á faglegum forsendum í gegnum nefndina. Fjárlaganefnd hefur ekkert að gera með puttana í þessum einstöku verkefnum.

Framhaldsskólarnir og reiknilíkanið, það er nú eitt málefnið sem heyrir undir menntamálanefnd. Frumvarpið gerir ráð fyrir aðhaldskröfu upp á 300 milljónir á framhaldsskólana. — Nú þarf ég að fletta hér upp í breytingartillögunum mínum. Mér sýnast framhaldsskólarnir fá leiðréttingu upp á 260 milljónir í breytingartillögunum, (Gripið fram í: 250.) 250, já, segir hv. formaður. Að hluta til er því komið til móts við kröfu framhaldsskólanna en þegar menntamálanefnd gerði álit sitt leit út fyrir að aðhaldskrafan upp á 300 milljónir stæði. Henni var skipt á milli þeirra með breytingum á forsendum reiknilíkansins með því að hækka hópviðmið og fagbóklega áfanga, tölvunámsáfanga og raungreinaáfanga og með því að auka nýtingarkröfu bóklegra áfanga.

Það er mat okkar í 2. minni hluta menntamálanefndar að með þessu móti sé verknámsskólunum gert afar erfitt fyrir og líklegt er að þeir verði að fella niður áfanga þar sem útilokað er að þeir nái að auka nemendafjölda í öllum þeim áföngum sem um ræðir. Skólar á landsbyggðinni verða sérstaklega illa úti í þessum aðgerðum. En eins og ég sagði áðan er verið að hliðra þarna til að talsvert miklu leyti. Ég geri því ráð fyrir að framhaldsskólarnir geti lifað við þá skerðingu sem er þá trúlega upp á 50 milljónir en ekki 300 eins og stefndi í.

Það er svo alvarlegt í sjálfu sér, virðulegi forseti, sem fram kom á fundi menntamálanefndar og fjárlaganefndar með starfsmönnum menntamálaráðuneytisins, að í raun hafa framhaldsskólarnir aldrei verið metnir inn í reiknilíkanið út frá raunverulegri þörf skólanna. Þörfin hefur aldrei ráðið fjárveitingunum þeirra heldur hafa grunnforsendur reiknilíkansins verið miðaðar við þá upphæð sem skólarnir fengu árið 1997, áður en líkaninu var komið á. Þannig hafa möguleikar þessa reiknilíkans aldrei verið notaðir til fullnustu þar sem þessi raunverulega þörf skólanna hefur aldrei verið viðmiðið heldur einungis sú upphæð sem sett var til skólanna samkvæmt fjárlögum 1997 og síðan verið framreiknuð æ síðan.

Það er mat okkar sem skipum 2. minni hluta menntamálanefndar að þörf sé á að endurskoða þetta mál því að á hverju ári frá því að reiknilíkanið var tekið í gagnið hafa framhaldsskólarnir fært fram málefnaleg rök fyrir því að líkanið mæli ekki þörf þeirra og hafa þeir farið fram á sanngjarnar leiðréttingar á fjárframlögunum. Nú er svo komið að nokkuð margir skólanna hafa verið að skera svo mikið niður að komast ekki lengra í hagræðingunni. Ástandið er orðið þannig að búnaður margra verknámsskólanna er orðinn svo úreltur og úr sér genginn að ekki verður lengur við það unað. Aðstæður skólanna margra núna gefa ekki til kynna að stjórnvöld meini neitt með hástemmdum yfirlýsingum um hækkað menntastig þjóðarinnar, né með hátíðlegum ræðum um mikilvægi iðn- eða starfsnáms. Það er ekki fyrr en við sjáum alvarlegar aðgerðir og verulegt átak í þessum málum að hátíðaræðurnar fara að hafa eitthvert gildi og einhverja merkingu.

Út frá þessum hugleiðingum er það krafa 2. minni hluta að framlagið til skólanna verði reiknað upp á nýtt, að miðað verði við raunhæfar nemendatölur 2007 og að tekið verði mið af launa- og verðlagsþróun við endanlegar ákvarðanir um fjárframlög. Hér hefur orðið einhver leiðrétting á þó ekki hafi verið farið alla leið, það er auðvitað vel og því ber að fagna en engu að síður eru grunnprinsippin í þessu máli okkar, 2. minni hluta menntamálanefndar, fullgild.

Háskólinn á Akureyri er næstur í umfjöllun okkar í 2. minni hluta. Við gerum athugasemdir við það að háskólinn hafi síðustu árin verið rekinn með umtalsverðum halla. Við höfum vissulega reynt á Alþingi að mæta þeim halla með auknum fjárframlögum síðustu tvö ár. Það er mat 2. minni hluta að hagræðing sú og endurskipulagning sem skólinn hefur ráðist í af þessum sökum sé komin svo langt að vart verði lengra gengið. Deildir hafa verið sameinaðar, þeim fækkað úr sex í fjórar, og starfsfólki hefur verið sagt upp störfum. Til að losa skólann úr fjárhagslegri spennitreyju þarf að ráðast í varanlegar aðgerðir og tryggja hækkaðan rekstrargrunn skólans um 60 millj. kr., auk þess sem bæta þarf skólanum að fullu hækkuð útgjöld vegna launa- og verðlagshækkana.

Nú ber að taka það fram, virðulegi forseti, að hækkunin sem kemur til skólans í breytingartillögunum, samkvæmt breytingartillögum meiri hlutans er 60 milljónir. (Gripið fram í: 70.) 70, segir hv. formaður, ég er með 60 hérna, það er meira að segja prentvilla í breytingartillögunni, það stendur 40 í breytingartillögunum sem á víst að vera 60.

Það segir í nefndaráliti meiri hlutans um Háskólann á Akureyri — jú, 70 milljónir, það er rétt, en þar af eiga 40 milljónir, ef ég man rétt, að fara í hækkaða húsaleigu í rannsóknarhúsinu. — Nú hristir hv. þm. höfuðið. (Gripið fram í.) Fer það beint til rannsókna? (Gripið fram í.) Heimildir mínar segja að 40 milljónirnar sem komu í hækkun, ég man að það stendur í fjárlagafrumvarpinu, að 40 milljónir sem komu í hækkun í fjárlagafrumvarpinu, sem sagt er að eigi að hækka rannsóknafé skólans, eiga samkvæmt frumvarpinu allar að fara í hækkaða húsaleigu á rannsóknarhúsinu (Gripið fram í.) Borgum. Við vitum öll hvernig rannsóknarhúsið við Háskólann á Akureyri er til komið. Það var nú ein einkaframkvæmdarvitleysan, þar sem verið er að krefja stofnanir eins og Háskólann á Akureyri og Náttúrufræðistofnun Íslands, Akureyrarsetrið, um himinháa húsaleigu sem er svo há að helst vildu þessar stofnanir ekki þurfa að vera í húsinu. En þær eru píndar til þess með hærri fjárframlögum sem ríkið reiðir af hendi af því að þeir eru svo mikið fyrir einkaframkvæmdir.

Gott og vel. Það er þá búið að leiðrétta fjárframlögin til Háskólans á Akureyri að einhverju leyti frá því að þetta er skrifað og því ber að fagna og vonandi að það sé þá nægilega mikið til að skólinn geti vel við unað. Ég á ekki von á að það sé svo mikið að skólinn verði sáttur, því að samkvæmt upplýsingum okkar í menntamálanefnd er nauðsynlegt, til að uppfylla rannsóknarsamning menntamálaráðuneytisins við skólann, að bæta við 100–150 milljónum í rannsóknafé. Það er því mat okkar í 2. minni hluta menntamálanefndar að hækkunin sem fjárlagafrumvarpið gerði ráð fyrir og jafnvel 70 millj. kr. viðbót til Háskólans á Akureyri sé ekki nægilega mikil til að uppfylla þá samninga sem gerðir hafa verið.

Háskóli Íslands hefur fengið hækkað framlag upp á 300 milljónir, því ber að fagna. Þar með er sleginn úr höndum okkar þingmanna í 2. minni hluta menntamálanefndar sá kafli í nefndaráliti okkar um Háskóla Íslands en við færðum rök fyrir því að koma yrði til móts við háskólann og þá metnaðarfullu stefnu sem hann hefur mótað til næstu 10–15 ára. Stefna þessi hefur bæði verið samþykkt á háskólafundi og í háskólaráði og því er eðlilegt að löggjafinn taki undir þá stefnu með því að gera vel við skólann á næstu árum. Í orði kveðnu heyrist manni á meiri hluta fjárlaganefndar að það eigi að gera og því ber að fagna. Ég vona að það verði þá líka til frambúðar að þessi nýi samningur geti skilað Háskóla Íslands því sem ætlast er til, því sem skólinn stefnir að og hætt verði að halda þessum þjóðarskóla okkar við hungurmörkin og svelta hann inn á braut skólagjalda, eins og mér hefur virst núverandi meiri hluti ætla að gera, a.m.k. Sjálfstæðisflokkurinn, og Framsóknarflokkurinn hefur verið dreginn með í þeim efnum.

Enn gagnrýnir 2. minni hluti framsetningu frumvarpsins þar sem fjárveitingar til kennslu og rannsókna í háskólum eru ekki aðgreindar á viðfangsefnaliði hjá hverjum skóla fyrir sig. Það er ósvinna finnst manni að gera nefndarmönnum og öðrum þeim sem þurfa að vinna eftir fjárlagafrumvarpinu erfiðara fyrir en nauðsyn krefur, að gera okkur svona erfitt fyrir að glöggva okkur á einstökum þáttum frumvarpsins. Þá gerir framsetning frádráttarliða háskólanna, t.d. hluti af tekjum skólanna vegna skrásetningargjalda og reiknuð fjárbinding í húsnæði ríkisins, það að verkum að ekki er hægt að bera saman útgjöld ríkisins vegna skólanna. Það hlýtur að vera sanngjörn krafa að framkvæmdarvaldið geri löggjafanum svo auðvelt sem verða má að greina það sem að baki frumvarpinu liggur.

Við gerum líka athugasemd við fjárframlögin samkvæmt fjárlagafrumvarpinu til stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. Við sjáum reyndar í breytingartillögum meiri hlutans að búið er að leiðrétta þar ákveðna þætti sem við getum vel við unað og hleyp ég því yfir þann kafla álits okkar.

Þá er kafli sem fjallar um ósanngjarna aðhaldskröfu. Í honum segir að í frumvarpinu sé gerð krafa um aðhald hjá ýmsum söfnum og sjóðum sem ætlaðir eru til að styrkja listir og menningu. Má þar nefna tónlistarsjóð, bókmenntasjóð og starfsemi atvinnuleikhópa, sem og starfsemi áhugaleikfélaga. Þessir liðir voru leiðréttir, þ.e. starfsemi áhugaleikfélaga var leiðrétt í tillögum meiri hlutans og sömuleiðis starfsemi atvinnuleikhópanna, um 5 milljónir hvor, og er það auðvitað vel og eru báðir hóparnir vel að þeim auknu fjármunum komnir.

Lokakaflinn í nefndaráliti 2. minni hluta fjallar um Náttúruminjasafn. Við gerum athugasemd við það að ætlunin skuli vera að fjármagna nýtt höfuðsafn Náttúruminjasafn Íslands af óskiptum liðum menntamálaráðuneytisins. Nýtt náttúruminjasafn verðskuldar sjálfstæðan fjárlagalið nú þegar hillir undir að því verði formlega komið á laggirnar árið 2007. Rétt er þó að geta þess að fjárlagaskrifstofa fjármálaráðuneytisins kennir um skorti á upplýsingum frá menntamálaráðuneytinu, sem er ámælisvert, ekki síst í ljósi gagnrýni sem kom fram í málflutningi stjórnarandstöðu í tengslum við umfjöllun um þingmál um nýtt náttúruminjasafn á 132. löggjafarþingi og raunar líka núna síðan þetta var skrifað á þessu yfirstandandi þingi.

Undir álitið rita auk mín hv. þingmenn Einar Már Sigurðarson, Björgvin G. Sigurðsson og Mörður Árnason.

Áður en ég klára mig alveg af efnisliðum menntamálaráðuneytisins langar mig að geta um það, virðulegi forseti, að í breytingartillögum frá meiri hluta menntamálanefndar getur að líta talsvert aukin framlög til ýmissa safna og má þar nefna söfn sem fara undir Þjóðminjasafn Íslands á fjárlagalið Þjóðminjasafnsins og sömuleiðis söfn sem fara á safnliði fjárlagafrumvarpsins. Þar er um tugi milljóna að ræða sem bætt er í til safnanna og hefur fjárlaganefnd þann háttinn á, sem ég hef verið að gagnrýna í ræðu minni, að hún útdeilir án nokkurra faglegra viðmiða til ýmissa safna og sýninga, setra og safnavísa á sama tíma og safnasjóður getur bara unað við sitt áfram og fær ekki til umfjöllunar þær hugmyndir og þær umsóknir sem fjárlaganefnd fjallar um.

Nýverið hafa komið fram hugmyndir frá Gísla Sverri Árnasyni, sem hefur gert rannsókn á safnamálum á Íslandi. Hann skrifaði mastersritgerð sem kynnt var í Þjóðminjasafninu á fyrirlestri í síðustu viku þar sem hann kemur inn á opinbera stjórnsýslu varðandi söfn og kemur með hugmynd um að það væri kannski ráð að fara að stofna umdæmissöfn á Íslandi, sérstök umdæmissöfn sem gætu þá orðið eins og millistig á milli hinna eiginlegu höfuðsafna og svo þeirra litlu safna sem eru samt svo mikilvæg í hinum dreifðu byggðum landsins. Ég held að það sé mjög tilhlýðilegt að menntamálanefnd og fjárlaganefnd líti aðeins á hugmyndir Gísla Sverris sem ganga út á það að þær 350 safnaeiningar sem starfræktar eru í landinu, afar smáar og veikburða langflestar, fái einhvers konar lífsmöguleika. Það er eðlilegt að skoða hvort umdæmissöfn af því tagi sem Gísli Sverrir leggur til að verði komið á laggirnar gætu ekki einmitt orðið til þess að styrkja lággróðurinn og mynda tengsl á milli höfuðsafnanna og þessara smáu eininga. Í niðurstöðu rannsóknarinnar kemst Gísli að þeirri niðurstöðu að þetta sé fýsilegt og þetta á sér fordæmi í nágrannalöndum okkar þar sem þrískipting safnastarfsemi er þekkt eða þriggja þrepa stjórnsýsla safnamála og hefur verið til eflingar safnastarfi og mundi eflaust verða það hér.

Það er athyglisvert í niðurstöðum Gísla Sverris að fram kemur að 2003 hafi safnasjóður úthlutað einungis 17% af framlögum sem úthlutað var það ár til safna. Hver úthlutaði þá 83%? Jú, mikið rétt, það var fjárlaganefnd. Gaman væri að reikna út úthlutanir fjárlaganefndar þetta árið til safna og þróunina á því. Ég spyr því hv. formann fjárlaganefndar hvort honum finnist þetta gott verklag og góð stjórnsýsla og hvort ásættanlegt sé að í gegnum safnasjóð — sem hefur það lögbundna hlutverk að úthluta styrkjum til safna sem þurfa að uppfylla ákveðnar kröfur, ákveðnar faglegar kröfur og standa sig í þeim efnum, þetta eru söfn sem safnasjóður eða safnaráð hefur eftirlit með — fari innan við 20% af því sem úthlutað er til safna. Það stangast beinlínis á við vilja Alþingis þegar safnasjóður var stofnaður og safnaráði komið á laggirnar. Fjárlaganefnd er því að mínu mati að fara á svig við vilja Alþingis þegar hún úthlutar 83% og kannski meiru fram hjá safnasjóði til verkefna sem safnasjóður með réttu ætti að annast.

Þetta er nákvæmlega sama sagan og um tónlistarsjóðinn áðan. Þetta er fyrirgreiðslupólitík, þetta er valdafíkn sem fjárlaganefnd er haldin. Hún vill ekki sleppa úr höndum sínum þeim möguleika að geta deilt og drottnað varðandi opinbera fjármuni. Hún þorir ekki eða tímir ekki að sleppa þeim áhrifum sem fjárlaganefnd eða núverandi meiri hluti telur sig geta haft þess vegna úti í hinum dreifðu byggðum, því að mest af þeim fjármunum fara í mjög góð verkefni, ég ítreka það enn og aftur. Það er ekkert að þessum verkefnum, þau eiga bara að fara í hinn faglega farveg til safnasjóðs sem var settur á laggirnar til að úthluta eftir ákveðnum reglum þess konar styrkjum. Þetta er ekki hlutverk fjárlaganefndar og hún verður að fara að átta sig á því.

Sem dæmi má nefna að náttúrustofurnar eru kerfi sem fjárlaganefnd hefur líka svelt. Alltaf er það þannig að náttúrustofurnar fá niðurskurð á hverjum einustu fjárlögum og svo er það í breytingartillögum meiri hlutans sem náttúrustofurnar fá ávallt einhverja bragarbót. Þetta er ekki nokkur stjórnsýsla. Náttúrustofurnar eiga að vera öflugur tengiliður landsbyggðarinnar við þau verkefni sem þar eru til staðar og þær eiga að fá að hafa öruggt umhverfi hvað varðar fjármuni og fjármál en ekki þetta sveiflukennda rokk sem er á fjárlaganefnd sýknt og heilagt hvað varðar náttúrustofurnar.

Ég hvet til þess að látið verði af þessum leiðu siðum fjárlaganefndarinnar. Það kemur til með að leiða til faglegra safnastarfs, faglegri úthlutana til lista og menningarmála. Það mundi eflaust breyta einhverju varðandi minnstu einingarnar í safnaflórunni en það mundi líka hjálpa safnaflórunni ef fleiri smáar einingar geta unnið saman eða tengst stærri einingum. Þannig væri lífsvon þeirra miklu meiri og möguleiki á því að gera úr þessu eitthvert net þar sem hvað styður annað.

Að lokum, virðulegi forseti, ætla ég að fara nokkrum orðum yfir álit okkar minni hluta umhverfisnefndar. Það fjallar um stofnanirnar þrjár sem eru einar af fimm stærstu stofnunum umhverfisráðuneytisins, Umhverfisstofnun, Náttúrufræðistofnun Íslands og Skipulagsstofnun. Sammerkt er í umsögn okkar um þær stofnanir að þær verða allar fyrir barðinu á niðurskurði í fjárlögunum og óhóflegri sértekjukröfu. Umhverfisstofnun hefur nýverið farið í gegnum stjórnsýsluúttekt Ríkisendurskoðunar. Sú stjórnsýsluúttekt var í raun áfellisdómur yfir framkvæmdarvaldinu, yfir ríkisstjórninni, sem fór í ótímabæra sameiningu starfandi stofnana með samþykkt laganna um Umhverfisstofnun, nr. 90/2002. Ríkisendurskoðun kemst að þeirri niðurstöðu í skýrslu sinni að hvorki hafi orðið faglegur né fjárhagslegur ávinningur af sameiningunni. Þetta verður rætt hérna sérstaklega í utandagskrárumræðu á morgun og óþarfi kannski að fara náið ofan í það núna. En það er alveg ljóst að úttekt Ríkisendurskoðunar leiðir í ljós bæði samskiptabresti og slæman undirbúning að stofnun Umhverfisstofnunar og kallar á að gerðar séu ákveðnar bragarbætur í samskiptum umhverfisráðuneytisins og stofnunarinnar.

Á fundi sem umhverfisnefnd átti með forstjóra Umhverfisstofnunar var niðurstaða Ríkisendurskoðunar í raun staðfest, tel ég, þ.e. að á skorti sameiginlegan skilning ráðuneytisins og stofnunarinnar hvað varðar fjárþörf og ég sé ekki á breytingartillögum meiri hlutans að það hafi verið leiðrétt svo nokkru nemi. Sú leiðrétting sem lögð er til eða tillaga kemur frá meiri hlutanum um hækkun vegna, ef ég man rétt, Surtseyjarstofu í Vestmannaeyjum, sem t.d. var ekki á forgangslista stofnunarinnar. Það var eitt og annað sem stofnunin hafði við fjárlagafrumvarpið að athuga og eitt og annað sem hún gat nefnt til, þætti sem nauðsynlegt var að fá aukna fjármuni í, t.d. dýraverndarþáttinn. Fjárlaganefnd sinnir því ekki en lætur hins vegar stofnunina hafa fjármuni í einhver eyrnamerkt verkefni sem voru ekki á forgangslista stofnunarinnar.

Á meðan höldum við áfram að sjá Umhverfisstofnun í fjársvelti og þá málaflokka sem helst hefðu þurft umbun, t.d. náttúruverndarsvið stofnunarinnar sem berst í bökkum. Ég held því fram að ríkisstjórnin sé að murka lífið úr því. Með hugmyndum ríkisstjórnarinnar um Vatnajökulsþjóðgarð sem dreift var hérna í þinginu í dag kemur í ljós að náttúruverndarsvið Umhverfisstofnunar virðist ekki eiga að hafa neitt hlutverk í Vatnajökulsþjóðgarði. Það stefnir því í að náttúruverndarsvið Umhverfisstofnunar missi út úr höndum sínum eða að tekin verði frá því sú stjórnsýsla sem hefur verið á þess ábyrgð hingað til er varðar þjóðgarðana okkar og þeirri stjórnsýslu á bara að koma fyrir einhvers staðar og einhvers staðar. Ég er ekki að mæla gegn því að stjórnsýslustofnanir séu í þjóðgörðunum og í sveitarfélögunum sem eiga landið sem þjóðgarðar eru í eða eru næst þjóðgörðunum, en það skiptir verulegu máli að Þjóðgarðastofnun Íslands, sem eðli málsins samkvæmt er náttúruverndarsvið Umhverfisstofnunar, verði líka öflug stofnun sem tryggi yfirsýn og samræmingu, heildarsýn stjórnsýslunnar á þjóðgörðum þjóðarinnar.

Þessar stofnanir þrjár, Umhverfisstofnun, Náttúrufræðistofnun og Skipulagsstofnun eru allar að glíma við óbærilegar sértekjukröfur og ég sé ekki að breytingartillögur meiri hlutans hafi nokkru breytt þar um. Ég sé ekki ástæðu til að fara frá orði til orðs í álitið hvað varðar Náttúrufræðistofnun en ljóst er að hún stefnir í mikinn rekstrarhalla enn eina ferðina, 80–90 millj. kr. í lok ársins ef ekki verða neinar breytingar á. Við í minni hlutanum teljum að nauðsynlegt sé að veita stofnuninni úrlausn á þessum fjárlögum. Það kom einhver smáleiðrétting á aukafjárlögunum sem fóru hérna í gegn um daginn, en við teljum að sértekjukrafa stofnunarinnar sé óraunhæf og það þurfi að færa hana niður að minnsta kosti um 30 millj. kr. Sama má segja um Skipulagsstofnun, þar teljum við að færa þurfi sértekjukröfuna niður og leiðrétta hvað það varðar.

Virðulegi forseti. Ég hef farið á hálfgerðu hundavaði yfir eitt og annað af því sem ég hef haft við þessi vinnubrögð að athuga. Ég vil meina að fjárlaganefnd þurfi að skoða vinnubrögð sín upp á nýtt því að mér finnst þessi úthlutunarárátta þeirra vera komin svo langt að ég fer að spyrja mig: Hvenær ætla þeir að fara að úthluta úr Íbúðalánasjóði? Kemur að því næst að fjárlaganefnd fari inn á svið Íbúðalánasjóðs og fari að úthluta úr honum? Hún er farin inn á svið leiklistarsjóðs, tónlistarsjóðs, safnasjóðs og svo mætti áfram telja. Hvar ætlar hún að láta staðar numið?

Þetta er ekki nægilega faglegt og það er synd að þurfa að horfa upp á þetta ár eftir ár að fjárlaganefnd skuli þrjóskast svona við að opna augu sín og viðurkenna það. Það hefur verið opin pyngja en eins og ég hef áður sagt hef ég ekkert við þessi verkefni að athuga sem slík annað en það að hlutirnir eiga að fara sína réttu boðleið sem löggjafinn hefur fyrirskrifað í lögum. Það hefur aldrei verið ætlun löggjafans að þeir hlutir fari í þann farveg sem nú stefnir í.

Virðulegi forseti. Ég læt máli mínu lokið.