133. löggjafarþing — 34. fundur,  23. nóv. 2006.

fjárlög 2007.

1. mál
[23:12]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg):

Herra forseti. Vegna orðaskipta um vinnu við fjárlagagerðina vil ég segja að ég hef gagnrýnt hvernig staðið er að fjárlagavinnu bæði af hálfu framkvæmdarvalds og þings. Þetta er í raun ekki fjárlagavinna þings. Þetta eru að meginhluta fjárlög framkvæmdarvalds og síðan meiri hluta á Alþingi.

Það sem gerist í fjárlagagerðinni, og ég hef gagnrýnt, er að fjárlagavinnan og fjárlagafrumvarpið kemur fyrst inn sem trúnaðarmál á fyrsta degi þings og tveim dögum seinna eiga þingmenn síðan að fara að ræða fjárlagafrumvarpið efnislega. Síðan er það hér í vinnslu í rúman mánuð áður en það er afgreitt sem lög.

Hér voru í heimsókn danskir fjárlaganefndarmenn. Þegar þeir heyrðu um þessi vinnubrögð og hvernig staðið væri að þessu, þá blöskraði þeim. Það lá við að þeir hlægju að því hvers konar fagleg vinnubrögð væru á ferðinni og líka blöskraði þeim hinn þingræðislegi hluti vinnubragðanna. Ekki var verið að draga það í efa að allir sem að þessu kæmu reyndu ekki að gera það á besta lund eins og hver og einn gæti persónulega gert. En þessi farvegur fyrir fjárlagavinnuna fannst þeim alveg ótækur.

Ég hef ítrekað lagt það til á undanförnum árum að fjárlagavinnan færi fram á þann hátt að á vori legði ríkisstjórnin fram grófa drætti fjárlagafrumvarps fyrir næsta ár sem færi jafnvel í gegnum eina umræðu fyrir þinglok. Fjárlaganefnd mundi síðan starfa yfir sumarið og haustið með þess vegna framkvæmdarvaldinu við að útbúa og ganga frá fjárlagafrumvarpi sem lagt yrði fyrir þingið í þingbyrjun.

Frumvarpið yrði lagt fram svipað og hinir dönsku fjárlaganefndarmenn sögðu. Það er lagt fram einum mánuði áður en 1. umr. fer fram. Þingmenn geta þá sett sig inn í það og kallað til aðila frá framkvæmdarvaldinu, frá stofnunum og frá hinum ýmsu aðilum, þannig að við 1. umr. fer í raun fram fagleg umræða á forsendum sem allir þingmenn hafa fengið tíma og tækifæri til að afla sér. Síðan fengi þetta tveggja, þriggja mánaða ferli til viðbótar í þinginu.

Hér er þetta bara gert eins og maður sé að moka í steypuvél og sé að flýta sér fyrir myrkur að vera búinn að hella steypu í mótin, því við vitum að steypa þarf vegginn. En þessi vinna getur ekki farið svona fram. Þetta hef ég gagnrýnt. Það verður að segjast eins og er að í haust þegar frumvarpið kom fram mátti segja að kastað hafi tólfunum, sérstaklega í vinnu ráðuneyta gagnvart einstaka málaflokkum.

Þetta snýst ekki um hvaða verkefni eru inni eða úti. Þetta snýst um hvernig ráðuneytin skila til þingsins vinnu og samþykktum sem hafa verið gerðar á undanförnum þingum og undir eðlilegum forsendum gangi bara áfram og ráðuneytin geti tekið með sér inn í sínar tillögur. Auðvitað hefur fjárlaganefndin sínar skyldur og fer yfir málin og þingið ber ábyrgð á afgreiðslu fjárlaga.

En eins og við upplifðum þetta í haust, öðrum haustum fremur, halda einstaka ráðherrar inni í ramma frumvarpsins — þeir fá úthlutað ramma — þeim áhersluþáttum og verkefnum sem þeim persónulega er annt um, henda síðan öðrum út sem hafa meira og minna verið föst á fjárlögum í mörg ár og ekki hafa verið neinar pólitískar tillögur um að verði teknar út eða að taka þurfi í raun um þær umræður á þinginu á hverju ári. Allt í einu er þessu núna hent út.

Stóra dæmið er náttúrlega, eins og við töluðum um áðan, framhaldsskólarnir. Það lá fyrir samkvæmt þeirra eigin reiknilíkani að 300 millj. kr. þyrfti til framhaldsskólanna. Samkvæmt þeirra eigin reiknilíkani sem þeir hafa unnið eftir, sem hefur þó verið gagnrýnt og talið að væri lágmarksdeililíkan á fjármagn en mældi ekki endilega þann raunkostnað sem við vildum hafa. Til dæmis eru 4% afskriftir af tækjum og búnaði í framhaldsskólunum, tölvum, kennslubúnaði og tækjum. Hver gæti gert ráð fyrir því að þau entust í 25 ár? Það er bara fráleitt. En þetta er grunnurinn undir reiknilíkaninu. Svo er þetta skorið niður núna og hent inn í þingið með 300 millj. kr. niðurskurði samkvæmt þeim reglum sem viðkomandi ráðuneyti hefur sett sér sem lágmark til að vinna eftir. Þær 300 milljónir hafa síðan verið notaðar í önnur gæluverkefni innan ramma sem ráðuneytið fékk og viðkomandi ráðherra hefur verið meira hrifinn af. Því hann vissi að þingið mundi aldrei — eða mundi að minnsta kosti berjast gegn því að þetta færi með þeim hætti í gegn.

Svona er með ýmsa aðra málaflokka, íþróttamál, menningarmál og marga aðra þætti sem taldir eru upp í frumvarpinu sem hafa árum saman verið á liðum menntamálaráðuneytisins, annaðhvort inni á einstaka safnliðum eða sem sérgreindir fjárveitingaliðir hjá ráðuneytinu og pólitísk sátt hefur verið um að ætti að vera þar og ekki þurfi að taka umræðu um.

Núna allt í einu er þessu hent út. Þetta er eins og að vera, og ég lýsti einhvern tíma, dómari í handboltaleik sem veit að meðan leikurinn stendur ræður hann með flautunni sinni hverja hann rekur út af, hvenær hann dæmir ruðning o.s.frv.

Svo virðist sem menntamálaráðherra, sem er mikill íþróttamaður, ég tek hæstv. menntamálaráðherra svona sem dæmi, hafi brugðið sér í gervi dómarans sem flautar og flautar því hann veit að hann á einn réttinn á að flauta meðan hann er á vellinum. Hins vegar er hann líka sem hluti af liðinu og reynir að komast eins langt á sínum vettvangi þangað til hann fær dæmdan á sig ruðning.

Auðvitað verður Alþingi að taka á þessu. Það er mjög óeðlilegt þegar þingmenn meiri hlutans koma hér og segja: Við björguðum þessu. Við áttum þennan andstæðing sem var í menntamálaráðuneytinu eða landbúnaðarráðuneytinu eða félagsmálaráðuneytinu sem kom með svona slæmt frumvarp. Og við þess vegna björguðum því inn. Slíkum vinnubrögðum hefur verið beitt núna í miklu ríkari mæli en áður var.

Fjárlaganefnd á þess vegna að vera starfandi stærri hluta ársins og vera öll virk og taka þátt í hinni efnislegu og pólitísku meðferð fjárlagafrumvarpsins. Þó að hún að sjálfsögðu beri síðan ábyrgð á afgreiðslu þess.

Hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir lagði einmitt áherslu á, eins og kom rækilega fram í ræðu hennar, að það væru ekki hin einstöku verkefni sem sett er fjármagn í heldur það ferli og hvernig þetta ber að. Svo kemur hv. formaður fjárlaganefndar og stærir sig af því að fjárlaganefnd hafi lagt til hækkun á framlögum til Háskólans á Akureyri, sem löngu var fyrirséð að þyrfti og engin pólitísk sátt var um að skera niður þó svo að ráðherra gerði tillögu um það. Þess vegna er mikilvægt að þingið leggi til þær leiðréttingar sem eru þó engan veginn fullnægjandi fyrir þá stofnun.

Ég verð því að segja, herra forseti, að hv. formaður fjárlaganefndar mætti beita sér fyrir því að tekin væru upp mun skikkanlegri vinnubrögð við fjárlagagerðina því í rauninni eru fjárlögin á hverjum tíma hin pólitíska yfirlýsing ríkisstjórnar fyrir næsta ár.

Ég sakna þess, herra forseti, að nýskipaður iðnaðarráðherra skuli ekki hafa verið hér, formaður Framsóknarflokksins, sem hefur ekki mikla þingreynslu, nánast enga, og enga reyndar því hann er ekki þingmaður. Hann er embættismaður í þinginu og hefði kannski verið hollt fyrir nýkjörinn formann Framsóknarflokksins að sitja hér og fylgjast með og taka þátt í umræðu um fjárlög þó ekki væri nema einu sinni. (Gripið fram í: Framsóknarflokkurinn er með svo góða talsmenn í ríkisfjármálunum.) Þetta snýst ekki um hverjir eru talsmenn, þetta snýst um að a.m.k. formaður flokksins sé örlítið inni í því sem verið er að fjalla um. Það er verra fyrir hann að koma eins og álfur út úr hól, m.a. í fjárlagaumræðu.

Mér hefur ekki sýnst í þeim umræðum sem hæstv. iðnaðarráðherra hefur verið, að hann sé með allt á hreinu hvað um er að ræða, án þess að ég ætli að draga það neitt sérstaklega inn í umræðuna. En það hefði verið að mínu viti mjög skynsamlegt ef hæstv. iðnaðarráðherra hefði verið hér við og svarað fyrir t.d. stóriðjustefnuna sem efnahagsstöðugleikinn veltur á, og verður horfið frá.

Ég ætla aðeins að fara í nokkur önnur atriði, herra forseti. Ég vona að hv. formaður fjárlaganefndar sé nærri svo hann heyri mál mitt. Er landbúnaðarráðherra í húsinu? Ég hefði viljað spyrja hann nokkurra spurninga, virðulegi forseti.

(Forseti (BÁ): Forseti getur upplýst að landbúnaðarráðherra er ekki í húsinu sem stendur.)

En er hann væntanlegur, veit hæstv.. forseti það? Ég vildi að hann kannaði það því að ég hef áhuga á að spyrja hann. Hér er í fjárlagafrumvarpinu og breytingartillögum sótt um heimildir til að selja 65 jarðir eða jarðarparta. Ég hefði viljað inna hæstv. landbúnaðarráðherra eftir því á hvaða forsendum verið er að fá heimildir til að bjóða þetta allt falt?

Við stöndum núna frammi fyrir því að fyrirtæki og fjársterkir einstaklingar kaupa jarðir upp í stórum stíl. Menn tala um að fyrirtækjasamstæða sé komin með kannski hundrað eða á annað hundrað jarðir. Kaupa jafnvel úr búskap, safna saman framleiðslurétti o.s.frv. Menn óttast síðan það sem þegar er hafið, að selja þær jarðir síðan til erlendra aðila. Eitt mesta áhyggjuefnið í íslenskum landbúnaði er sú óvissa sem ríkir einmitt um þennan grunn. Verður rekinn hér sjálfseignarbúskapur eða ekki? Verður linnulaus uppsöfnun á jörðum í höndum örfárra einstaklinga og fyrirtækja? Erum við að lenda í sama fari og í sjávarútveginum, að kvótinn eða fiskveiðiheimildirnar séu bara að fara á örfárra manna hendur?

Ég hef flutt frumvarp á Alþingi um að takmarka verði hversu stór hluti framleiðsluréttarins megi vera á einni hendi til að fara ekki út í það að hér verði fákeppni eða einokun á þeim markaði sem ógni atvinnuöryggi, framleiðsluöryggi og matvælaöryggi.

Hérna er landbúnaðarráðherra að sækja um að fá heimildir til að selja 65 jarðir og jarðarparta. Væri ekki nær að hæstv. landbúnaðarráðherra væri með tillögur um hvernig hann gæti styrkt, eflt og stutt landbúnaðarframleiðslu og búsetu á einhverri af þeim jörðum en að vera að sækja um heimildir til að selja þær?

Ég vil vara við þeirri stefnu sem hér er tekin, að ríkið sé að selja jarðir á opinberum markaði. Landbúnaðurinn, búsetan, framleiðslan, hin dreifða byggð, á að hafa forgang en ekki að græðgin og peningahyggjan eigi að ráða ferð um hvort jarðir safnist upp á örfárra manna hendur og þar ætti allra síst landbúnaðarráðherra að ganga fram fyrir til að selja jarðir.

Ég hefði því viljað heyra skýringar hæstv. landbúnaðarráðherra á öllum þeim jörðum sem hér er verið að auglýsa til sölu. 65 jörðum og jarðarpörtum. Sumar geta svo sem verið eðlilegar og átt sínar skýringar, ég ætla ekki að neita því. Ábúendur sem búa vel á jörðinni og hafa búið þar um árabil og vilja eignast jörðina til að tryggja sér áframhaldandi búsetu og atvinnurekstur á jörðinni. En ég sé greinilega að aðrar jarðir er verið að bjóða falar, hlunnindajarðir og jarðir sem geta verið eftirsóttar af auðmönnum og fyrirtækjum. Nokkurn veginn víst að ekki verður bændafólki gert kleift, sem vill stunda þar atvinnurekstur, hefðbundinn landbúnað eða ferðaþjónustu, að kaupa jarðirnar til þess, ef um er að ræða dýrmætar jarðir á því sviði. Ég hefði því viljað spyrja um þetta.

Annað varðandi kaup og leigu fasteigna þá vil ég benda á að liðinn 6.12, að leigja með kauprétti sérhannað fangelsishúsnæði. Eftir því sem ég man best í fjárlaganefnd var sá liður afturkallaður að beiðni nefndarinnar og ekki síst meiri hlutans sem hafði engan áhuga á því að ríkið væri enn á ný að fara í einhverjar einkaframkvæmdir eða kaupleiguframkvæmdir á mannvirkjum sem nýtast ættu til opinberrar þjónustu eins og fangelsisbygging. Enginn dregur það í efa að byggja þurfi fangelsi, það vanti, en þá verður það gert á vegum ríkisins. Ég leyfi mér því að spyrja, frú forseti, mig minnir að þessir liðir hafi átt að fara út og man ekki betur og vil spyrja hv. formann fjárlaganefndar hvort þessi heimild um að leigja með kauprétti sérhannað fangelsishúsnæði hafi átt að fara út, við ættum ekki að fara inn í neinn nýjan Sóltúnssamning með þetta.

Ég ætla aðeins að drepa á nokkur atriði í viðbót. Sjúkrahúsmálin. Það er rétt að það er verið að gera tillögur til að styrkja rekstrargrunn bæði Landspítala – háskólasjúkrahúss og Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri þó að það sé sjálfsagt engan veginn nóg. En aðrar sjúkrahússtofnanir standa meira eða minna eftir. Ég vil því spyrja formann fjárlaganefndar hvort það sé meiningin að þessum fjárlögum verði lokað án þess t.d. að taka fyrir sjúkrahúsin og heilbrigðisstofnanirnar og svo ég nefni dæmi, Hvammstanga. Reksturinn á Hvammstanga á árinu 2006 var skorinn niður um 6 millj. kr. miðað við það sem áður hafði verið og því hafði verið lofað hátíðlega í umræðum bæði í fjárlaganefnd og hér, að bætt yrði úr því á þessu ári, árinu 2006. En þess sér hvergi stað og ekki heldur að því sé bætt inn í fyrir næsta ár.

Blönduós. Sama þar, þar er niðurskurður upp á 12 millj. kr. Eru þetta sjúkrahúsin sem á að ná sér niðri á? Því hafði verið lofað við síðustu fjárlög að þetta yrði bætt á þessu ári í gegnum sérstakan safnlið á heilbrigðisráðuneytinu. Ég veit ekki til að það hafi verið gert né að settir hafi verið neinir peningar inn í þann lið á næsta ári samkvæmt því frumvarpi sem hér liggur fyrir. Sama er með Patreksfjörð og Bolungarvík svo dæmi séu tekin.

Grófasta dæmið er svo líklega Sjúkrahúsið á Akranesi. Sjúkrahúsið á Akranesi er eitt öflugasta sjúkrahús landsins. Þar hefur verið góður rekstur og þess gætt í hvívetna að halda sig innan fjárlaga þangað til á síðastliðnu ári, þá var þrengt svo að starfseminni þar að líkur eru á að þar safnist upp halli. Sömuleiðis vantar fjármagn til að standa undir rekstri næsta árs í Sjúkrahúsinu á Akranesi. Þeir sækja um brýnan fjárstuðning til starfseminnar, til tækjakaupa, til viðhalds húsnæðisins, til að efla starfsemina en það er ekki lögð króna í það. Hins vegar koma klúbbar, t.d. Lionsklúbbarnir á Vesturlandi og gefa sjúkrahúsinu mikilsverð tæki. Heimaaðilar eru að safna fyrir, að ég held sneiðmyndatæki fyrir sjúkrahúsið en þegar kemur til ríkisvaldsins þá er allt stopp. Menn spyrja: Var verið að refsa þessu sjúkrahúsi á einhvern hátt fyrir góðan rekstur? Ég vona ekki. En það vekur mér kvíða að nú þegar skuli vera farið, að því er virðist, að beita svokölluðum reiknilíkönum eða áætlunum um það hvernig skuli vera á hverju sjúkrahúsi sérstaklega úti um land án þess að fram hafi farið nokkur pólitísk umræða um t.d. hvert þjónustustigið skuli vera. Okkur í fjárlaganefnd voru kynntar hugmyndir eða drög að reiknilíkani fyrir mönnun og fyrir rekstur og heilsugæslu á heilbrigðisstofnunum. Mér vitanlega var ekki búið að ganga frá því að þetta væri grunnur til skiptingar á fjármagni á milli heilbrigðisstofnana úti á landi. Hitt er að við erum að taka þá pólitísku umræðu um hvaða þjónusta ætti að vera þar. En núna er þessu beitt. Ég vil því spyrja hv. formann fjárlaganefndar: Er það meiningin að meiri hluti fjárlaganefndar sé búinn að loka vinnu í fjárlaganefnd hvað varðar fjárhæð heilbrigðisstofnana og sjúkrahúsanna, m.a. úti um land? Ef svo er þá verð ég að lýsa mikilli óánægju. Ég reyndar mótmælti því í fjárlaganefnd að þetta væri sent út óafgreitt en ég vissi ekki að þetta væri jafnalvarlegt og ég sé að hér er.

Það sama er reyndar með öldrunarstofnanirnar. Öldrunarstofnanir vítt og breitt um landið hafa hvorki fengið úrlausn á skuldum sem þar hafa safnast upp vegna rangra ófullnægjandi fjárveitinga né fjármagn til rekstrar á næsta ári. Það eru komnar upp handahófskenndar leiðréttingar á einstökum stofnunum bæði hvað varðar uppgjör skulda og einnig rekstrarframlög á næsta ári en aðrar látnar vera alveg úti. Ég spyr hv. formann fjárlaganefndar: Er því starfi lokið að mati meiri hlutans? Eiga þær stofnanir sem ekki hafa enn fengið neina úrlausn á fjárhagsvanda sínum eða fjárþörf til næstu ára að sitja uppi með þann vanda eins og hann nú blasir við? Þá lýsi ég yfir miklum vonbrigðum með það.

Síðasta sem ég vildi líka nefna, frú forseti, eru vegamálin. Maður opnar varla svo útvarp eða sjónvarp eða sér í blöð að ekki sé verið að lofa nýjum vegi hér og þar. Hæstv. samgönguráðherra talar um stórátak í vegamálum, í samgöngumálum. Samtök verslunar og þjónustu koma nú og krefjast stórátaks í vegamálum. Þau samtök steinþögðu í sumar þegar kom yfirlýsing um frestun á vegaframkvæmdum upp á liðlega 1 milljarð kr. á Vestfjörðum og norðausturhorninu til að slá á þensluna, en þenslan var fyrst og fremst á höfuðborgarsvæðinu og tengdist annars vegar stóriðjuframkvæmdum og hins vegar þenslu á byggingamarkaði og þess háttar. Þá sögðu Samtök verslunar og þjónustu ekki orð nema þau hvöttu til aðhalds og studdu niðurskurðinn eða frestunina, það best ég veit. En nú er komið og hvatt til aukinna vegaframkvæmda og ég spyr þá eins og við gerðum í fyrra og hittiðfyrra og árið þar áður og fyrir fjórum árum. En það er samt hollt að minnast þess hver stefnan hefur verið. Fyrir fjórum árum var samþykkt metnaðarfull vegáætlun. En það var ekki fyrr búið að samþykkja hana, það var ekki fyrr búið að kjósa en hún var skorin niður, fyrst um 1.600 millj., svo um 2 milljarða, svo aftur um 2 milljarða þannig að samtals er búið að skera niður vegáætlun sem samþykkt var fyrir fjórum árum líklega um 6,5 milljarða kr. og það fyrsta sem mönnum datt í hug í sumar í efnahagsaðgerðum var að fresta vegaframkvæmdum. Og nú hrópa allir: Jú, jú, auknar vegaframkvæmdir og mikið er það gott mál, að sjálfsögðu. En ég er bara viss um að nú á að fara að leika nákvæmlega sama leik. Það verður lofað miklum vegaframkvæmdum á árinu 2008 og 2009 og 2010 og 2011 og 2012, mikil lifandis ósköp, alveg eins og gert var fyrir síðustu kosningar. En síðan geta efndirnar orðið svipaðar og á síðustu fjórum árum, það var það fyrsta sem var skorið niður. Meira að segja vegaframkvæmdir, vegáætlun plús það fjármagn sem var ætlað að setja í vegi af svokölluðum símasölupeningum, eru skornar niður um 3,5 milljarða á næsta ári. Það er raunveruleikinn. Svo tala menn hástemmt um stórar og miklar framkvæmdir, stórátak og fjölmiðlar meira að segja ganga á lagið og finnst þetta alveg stórmerkilegt. Þeir ættu að kíkja í fjárlagafrumvarpið. Tölurnar segja: Niðurskrift upp á 3,5 milljarða kr. miðað við það sem áætlað var að setja á næsta ári. Það er veruleikinn.

Síðan kemur hæstv. fjármálaráðherra í prófkjörsþröng og segir í viðtali varðandi breikkun Suðurlandsvegar og tvöföldun þjóðvegar frá Selfossi til Reykjavíkur: „Raunhæft að taka ákvörðun um útboð vegarins fyrir jól.“ Hvar er hæstv. fjármálaráðherra? Hefur hv. þingmaður og formaður fjárlaganefndar fengið afrit af loforði hans um tvöföldun á Suðurlandsvegi frá Reykjavík til Selfoss? Þetta verður vonandi framkvæmt en hefur hann fengið afrit af loforði hans um að búið væri að ganga frá samningi um útboð á þessum vegi fyrir jól? Ég vil spyrja um það og ég krefst svars þó að fjármálaráðherra sé í prófkjörsþröng og sé, eins og hann sagði í haust, farinn að líta landið allt öðrum augum eftir að hann fór í framboð á Suðurlandi. Ég hélt reyndar að fjármálaráðherra ætti að líta landið sömu augum hvar sem hann væri staddur. En hæstv. fjármálaráðherra fannst það viðeigandi.

Og þá á að leysa málið í einkaframkvæmd. Ja, mikil er lausnin. Ég spyr hv. formann fjárlaganefndar og hann getur líka borið það til varaformanns fjárlaganefndar, hv. þm. Einars Odds Kristjánssonar: Er búið að ræða við þá um allar þessar einkaframkvæmdir sem á að fara í á vegum hér? Við opnum varla svo sjónvarpsskjá að þar sé ekki annaðhvort hæstv. samgönguráðherra eða fjármálaráðherra eða einhver slíkur að lofa nýjum og nýjum vegum í einkaframkvæmd eða einhverju. Er einhver munur á áhrifum á þenslu hvort um er að ræða einkaframkvæmd eða ekki? Eru það ekki sömu fjármunirnir sem þarf til? Ég hefði haldið það. En raunveruleikinn hjá ráðherranum er um niðurskurð á næsta ári upp á 3,5 milljarða. Raunveruleikinn er niðurskurður upp á milli 6 og 7 milljarða á vegáætlun síðastliðin fjögur ár. Raunveruleikinn er sá að það fyrsta sem gripið var til á síðastliðnu sumri til að draga úr þenslu var að fresta vegaframkvæmdum á Vestfjörðum og Norðausturlandi. Svo koma sömu menn og halda að þeir geti glennt sig framan í þjóðina og sagt: Nú ætlum við að gera stórátak í vegamálum. Mér finnst þetta vera hámark hræsninnar, ég verð að segja alveg eins og er.

Þjóðin kallar á vegi, kallar á bættar samgöngur en kallar ekki á skrum. Það er það ljótasta sem gert er, það er að vera með þetta gríðarlega skrum sem menn eru með hér og ég kalla eftir svari: Hvar liggja fyrir loforðin í fjárlagaafgreiðslunni, loforð fjármálaráðherra og fleiri um tvöföldun á t.d. Suðurlandsvegi fyrir jól? Útboð? Svona vinnubrögð ganga ekki, frú forseti.

Þessi fjárlög og loforð öll, samningar sem er verið að gera tvist og bast, og ráðherrar mega ekki vera að því að taka þátt í þingstörfum eða vinna eðlilega vinnu varðandi undirbúning fjárlaga vegna þess að þeir eru að skrifa undir einhverja samninga sem eiga að taka gildi árið 2008, 2009, 2010, 2011 og 2012. Hvers konar vinnubrögð eru þetta, formaður fjárlaganefndar? Ég veit ekki til þess að neinn samningur hafi nokkurt gildi fyrr en Alþingi hefur samþykkt hann. (Gripið fram í: Ekki lögin um sölu Símans.) Þannig að þessir ráðherrar sem núna eru út og suður með loforð og undirskriftir um samninga á samninga ofan, þeir hafa enga heimild til þess. Þetta er bara kosningaskrum. Og ef formaður fjárlaganefndar vildi nú taka á sig rögg eins og formaður fjárlaganefndar á að gera, þá á hann að kalla þessa ráðherra fyrir og spyrja þá. Hvað eruð þið að gera? Hvaðan hafið þið þessar heimildir? Hverju eruð þið búnir að lofa? Þetta eru allt saman hin bestu verkefni, ekki vantar það. Og síðast skal ég vera að kasta rýrð á þau. Þá geta þau komið hingað inn á Alþingi og Alþingi samþykkt þau og þá fá þau veruleika og gildi.

Það er ýmislegt, frú forseti, sem hv. formaður fjárlaganefndar mætti beita sér fyrir að gera bragarbót á í vinnubrögðum nefndarinnar gagnvart þinginu eins og ég hef rakið. Það er svo sem hægt að fara yfir ýmislegt fleira. Eitt af því stórmerkilegasta sá ég á lið utanríkisráðuneytisins. Ég get ekki sleppt því að minnast á að enn eru menn við sama heygarðshornið. Við gerum búin að gleyma því að við erum sem betur fer laus við herinn og það besta sem við gerðum væri að segja skilið við allt hernaðarbrölt. Það besta sem við gerðum væri að afsaka það gagnvart þjóðinni, koma með skriflega og formlega yfirlýsingu til að afsaka það að við höfum tekið þátt í innrásinni í Írak. Það hafi verið hin hörmulegustu mistök íslenskra stjórnmálamanna, foringja og forustumanna að samþykkja að Ísland tæki þátt í innrásinni í Írak. Þeir hefðu átt að lýsa sig friðarþjóð og losa sig undan frekari hernaðarþátttöku og herbrölti, ekki síst þegar maður er laus við herinn. Nei, þá verður að flytja á lið utanríkisráðuneytisins: Utanríkisráðuneytið, aðalskrifstofa. Gerð er tillaga um 16 millj. kr. framlag vegna stöðu fulltrúa Íslands í höfuðstöðvum yfirherstjórnar Atlantshafsbandalagsins í Brunsum. Á kannski Halldór Ásgrímsson fyrrverandi forsætisráðherra að taka þetta með? Ég held að það væri eitthvað þarfara við þessar 16 millj. að gera en fara að senda fulltrúa til að sitja í yfirherstjórn Atlantshafsbandalagsins. Ég verð bara að segja eins og er. Það væri nær að láta þessa upphæð renna til sjúkrahússins á Hvammstanga, Blönduósi, Patreksfirði, Bolungarvík, Akranesi eða hvað eina annað en fara að setja peninga undir fulltrúa í yfirherstjórn Atlantshafsbandalagsins. Er ekki komið nóg af hernaðarþátttöku okkar? Við ættum frekar að biðjast afsökunar á því hvað við höfum verið að gera á undanförnum árum í þeim efnum og segja stopp.

Frú forseti. Ég gæti farið yfir fleiri atriði en læt þetta duga að sinni.