133. löggjafarþing — 34. fundur,  23. nóv. 2006.

fjárlög 2007.

1. mál
[23:54]
Hlusta

Frsm. meiri hluta fjárln. (Birkir Jón Jónsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er að sjálfsögðu á vettvangi þingsins sem hv. þingmenn flytja sínar tillögur. Sú hefur verið venjan hingað til.

Hv. þingmaður nefndi vanda margra heilbrigðisstofnana hringinn í kringum landið. Hann býsnaðist mikið yfir honum. En sjálfur kemur hv. þingmaður ekki með neinar tillögur inn í þennan sal um hvernig eigi að bregðast við þessum vanda. Eins og ég sagði áðan þá stendur til og það er yfirlýst stefna að taka málefni heilbrigðis- og öldrunarstofnana fyrir á milli 2. og. 3. umr. fjáraukalaga. Það er mjög mikilvægt (Gripið fram í: ... fjárlaga.) að ráðast á ýmsa skuldahala því að rekstrarafkoma viðkomandi stofnana byggist náttúrlega að sjálfsögðu að miklu leyti á því hvort viðkomandi stofnun dragi mikinn skuldahala með sér yfir áramót, því að viðkomandi stofnun lendir þá fljótlega í vanskilum ef skuldirnar eru miklar, lendir í að borga mikla dráttarvexti en það hefur mjög íþyngjandi áhrif á rekstur viðkomandi stofnana og er í raun eins og snjóbolti sem hleður utan á sig.

Eins og ég sagði hér við 2. umr. fjáraukalaga þá er það yfirlýst stefna okkar að fara mjög ítarlega ofan í skuldastöðu stofnana. Ég er sammála hv. þingmanni Jóni Bjarnasyni um að við eigum eftir að fara betur efnislega ofan í þau mál. Ég hef trú á því að ágæt samstaða verði innan nefndarinnar í þeim efnum enda er brýnt að búa vel að heilbrigðisþjónustunni í landinu. Við leggjum til sérstaklega í 2. umr. fjárlaga að lykilstofnanirnar Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri og háskólasjúkrahúsið fái auknar heimildir og við ætlum að skoða málefni annarra stofnana í fjáraukalögum í þeirri vinnu sem fram undan er.