133. löggjafarþing — 34. fundur,  23. nóv. 2006.

fjárlög 2007.

1. mál
[23:58]
Hlusta

Sigurjón Þórðarson (Fl):

Frú forseti. Hér ræðum við fjárlög næsta árs. Hv. þm. Jón Bjarnason minntist í ágætri ræðu sinni á að hann saknaði tveggja ráðherra, hæstv. landbúnaðarráðherra og einnig hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra. Ég verð að taka undir þessi orð hv. þingmanns, sérstaklega hvað varðar formann Framsóknarflokksins, sér í lagi vegna þess að ef hann væri viðstaddur þessa umræðu gæti hann kannski aðlagað sig því þekkingarstigi sem hér er í þingsölum og þá þyrftu ekki að koma honum á óvart þær fyrirspurnir sem maður ber upp. Hann gæti þá komist niður á þetta stig og aðlagað sig. En ég sakna að auki enn annars hæstv. ráðherra, sjálfs hæstv. forsætisráðherra. Hér erum við að ræða efnahagsmál og þau heyra undir hann.

Staða efnahagsmála nú, meðan hann dundar sér við að hringja inn viðskiptin í kauphöll í Ameríku, er bara ekkert góð. Hér er verðbólga, háir stýrivextir og menn reyna að halda uppi gengi íslensku krónunnar en allt kemur fyrir ekki. Gengið hefur fallið síðustu daga og sjálfur aðalhagfræðingur Seðlabankans greip til þess ráðs að bera út þá sögu að til greina kæmi að hækka vexti enn meira. Þetta eru fréttir dagsins. Síðan ætlar Seðlabankinn að taka erlent lán til að styrkja gjaldeyrisstöðu sína og koma þá í veg fyrir einhverja kollsteypu í gengismálum.

En það er ekki að sjá mikið aðhald í þessum fjárlögum, alls ekki, nema þegar kemur að gamla fólkinu. Þá er ekki hægt að taka á vanda þess. Við í stjórnarandstöðunni, Frjálslynda flokknum, Samfylkingunni og Vinstri grænum, höfum sameinast um að leggja aðaláherslu á þessi mál. Ég er alveg viss um að þjóðin er sammála okkur. Þarna skortir á.

Það er fleira sem er vert að minnast á varðandi stöðu efnahagsmála. Ýmsir þingmenn stjórnarliðsins hafa dregið upp mjög ranga mynd af stöðunni, í rauninni algera glansmynd. Menn horfast ekki í augu við staðreyndir, m.a. hv. þm. Bjarni Benediktsson sem gaf það í skyn að skuldastaða þjóðarinnar væri bara býsna góð og ein sú besta í heimi. Síðan var hann leiðréttur og honum bent á að þjóðarbúið í heild sinni er nánast það skuldugasta í víðri veröld.

En það er rétt að tala um hlutina eins og þeir eru. Hrein skuldastaða við útlönd er rúm þjóðarframleiðsla eins árs, 1.300 milljarðar. Þá er búið að draga allar eignir frá skuldum í útlöndum og við stöndum uppi með skuldir upp á 1.300 milljarða. Þetta kemur fram í hagtölum Seðlabankans. Innlánsstofnanir hafa bætt við sig gríðarlegum skuldum. Menn, eins og hv. þm. Bjarni Benediktsson í sinni ræðu, tala um að eignir standi á móti. En ef við förum yfir þessar tölur er hrein skuldastaða innlánsstofnana við útlönd 1.860 milljarðar en var árið 2004 eitt þúsund milljörðum minni. Hér hefur bæst gríðarlega í þann skuldabagga sem þjóðin ber. Þetta eru staðreyndirnar og við eigum að tala um þær eins og þær eru.

Það er leitt að verða vitni að því að hv. þingmenn Framsóknarflokksins reyni að snúa út úr málflutningi manna í stjórnarandstöðunni sem koma með ábyrgar tillögur um hvernig reka megi ríkisbatteríið betur en gert er. Við höfum m.a. bent á það í stjórnarandstöðunni að það er hægt að ná meiri árangri í t.d. heilbrigðiskerfinu ef við leggjumst yfir það að ná niður lyfjakostnaði. Menn reyna hér með mjög ómálefnalegum hætti að gera það tortryggilegt og gefa í skyn að þegar ábyrgir þingmenn benda á að hægt sé að ná fram talsverðum sparnaði ef við fáum lyf á sambærilegu verði og t.d. Norðurlandaþjóðirnar ætlum við að fara að leggja álögur á gamla fólkið og sjúklinga. Það er alveg stórundarlegt að menn skuli leyfa sér að segja svona dellu, sér í lagi þegar menn koma í veg fyrir að stjórnarandstaðan nái í gegn kjarabótum fyrir þessa hópa.

Þessi ríkisstjórn stendur fyrir ójöfnuð, gríðarlegan ójöfnuð, ójöfnuð af mjög undarlegu tagi vegna þess að ríkisstjórnin hefur tekið til sín meira skattfé af þeim hópum sem hafa lágar tekjur og alls ekki af þeim sem hafa hæstu tekjurnar. Hún hefur í rauninni tekið hlutfallslega meira af þjóðarkökunni í skatta og deilt því síðan ójafnt út. Einn hópur sleppur. Það er sá 10% hópur sem hefur hæstu tekjurnar.

Það er ekki rétt sem hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson ítrekað hefur haldið fram, að þeir sem vinna í bönkunum hafi öll þessi háu laun og að sú sé ástæðan fyrir þessum ójöfnuði eins og hans hefur orðið vart og kemur fram í mælingum hæstv. fjármálaráðherra sem hefur bent á það í skriflegu svari við fyrirspurn minni og sýnt fram á að ójöfnuðurinn á Íslandi er að verða hvað mestur í heimi. Nei, það er ekki eins og hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson segir. Það geta menn kynnt sér með því að lesa í gegnum nýja skýrslu um fjármálamiðstöðina Ísland. Þar kemur fram að 3% mannaflans vinni í bönkum og fjármálastofnununum og afli 6% atvinnutekna í landinu. Það er af og frá að ætla að þessi 3% sem hafa að vísu tvöfalt hærri laun en að jafnaði í landinu séu ástæðan fyrir þessum mikla ójöfnuði. Það er bara alls ekki svo. Það getur hver maður séð í hendi sér.

Ástæðan er allt önnur. Hún er sú að stjórnarflokkarnir hafa staðið fyrir mjög óréttlátu kvótakerfi sem m.a. fyrrverandi formaður Framsóknarflokksins hagnaðist persónulega á. Við sáum það m.a. í fréttum í vikunni að út úr þessu kvótakerfi hafi aðili á Vestfjörðum fengið 1.000 millj., bara í þessari viku. Fyrir nokkrum vikum halaði aðili í Grímsey sem rak nokkrar trillur inn aðrar 1.000 millj. Þeir menn sem fá þessa peninga borga 10% fjármagnstekjuskatt. Þetta er hópurinn sem er orsökin fyrir þessum gríðarlega ójöfnuði. Menn hafa halað til sín eitthvað sem þeir eiga ekki, hluta af þjóðarauðnum og síðan selja menn það og taka í eigin vasa. Eftir stendur atvinnugreinin stórskuldug.

Hér tala félagar okkar í stjórnarandstöðunni oft og tíðum um að Kárahnjúkavirkjun sé orsök allrar þenslunnar en ég vil leyfa mér að benda á að kvótakerfið á sinn þátt í þessu, m.a. vegna þess að a.m.k. tvær Kárahnjúkavirkjanir hafa runnið út úr kvótakerfinu. Eftir stendur atvinnugreinin stórskuldug og alls ekki hefur orðið vart við neina hagræðingu. Tekjurnar núna af sjávarútveginum eru sambærilegar við það sem þær voru fyrir fimm árum þrátt fyrir að fiskverð sé með hæsta móti.

Þarna er orsökin fyrir ójöfnuðinum og auðvitað að menn hafa selt sjálfum sér ríkiseignir fyrir lítið, eins og framsóknarmenn hafa gert ítrekað. Er skemmst að minnast þegar S-hópurinn fékk Búnaðarbankann með greiðslufresti og milljón dollara afslætti og ég veit ekki hvað og fékk síðan VÍS út úr Landsbankanum og greiddi undirverð. Þarna er hópurinn sem fær miklar tekjur af fjármagni og borgar sáralitla skatta.

Við í Frjálslynda flokknum höfum ekki áhuga á því að velta okkur upp úr þessu endalaust. Við horfum fram á veginn og viljum að þessu kvótakerfi verði hent á haugana vegna þess að það hefur náttúrlega engu skilað. Samt sem áður verða menn eins og fyrrverandi formaður Framsóknarflokksins að sæta ábyrgð í þessu máli og það þarf að rannsaka þessa einkavæðingu sem brýtur í bága við siðferðiskennd meiri hluta fólks. Vegna þess að hér er í salnum ágætur þingmaður, hv. þm. Guðjón Ólafur Jónsson, verð ég að segja að í dag hringdi í mig Skagfirðingur sem hlýddi á ræðu hans sem ég missti því miður af vegna þess að ég var á fundi með rússneska sendiherranum — mjög athyglisvert viðtal sem við fengum þar — og honum blöskraði málflutningurinn. Hv. þm. Guðjón Ólafur Jónsson gerði lítið úr því að við legðum til góðar tillögur um ríkisfjármálin, svo sem að lækka lyfjakostnað (Gripið fram í.) og fleiri atriði. Mér finnst þetta bara stórundarlegt og í rauninni stjórnarmeirihlutanum til skammar að viðhafa svona málflutning.

Það eru fleiri þættir sem við þurfum að fara í gegnum þegar við horfum á ríkisfjármálin, t.d. þessa skammsýni sem lýsir sér í áætlanagerð sem miðar ekki fram í tímann. Við sjáum t.d. að þegar menn skipuleggja vegamál er ekki horft mjög langt fram í tímann. Meira að segja í sumar var vegagerð frestað í einhverja mánuði. Við skulum láta það liggja á milli hluta enda var frestun vegagerðar á Vestfjörðum um nokkra mánuði meiri háttar aðgerð í efnahagssögu þjóðarinnar til að slá á þenslu. Það er aldrei að vita nema að þetta verði meðal útflutnings Íslands, hugmyndasmíð og hagþekking þjóðarinnar sem hún getur farið með í útflutning. Það er aldrei að vita nema Geir Haarde geri fleira en að hringja bjöllum í Ameríku. Hann fer kannski næst í fyrirlestraferð og kynnir það hvernig hann ræðst að þenslu í þjóðfélaginu með því að fresta vegagerð í einum landshluta.

Við í Frjálslynda flokknum höfum lagt til að horfa til lengri tíma hvað varðar vegamálin. Við höfum lagt upp með það að koma öllum vegum niður á láglendi, undir 200 metra hæð, og lagt fram ítarlegar tillögur hvað það varðar. Ef maður skoðar verk hæstv. samgönguráðherra og það hvernig hann hagar málum sínum hegðar hann sér greinilega með kosningar í huga. Það er dregið saman á milli kosninga og síðan bætt í rétt fyrir kosningar. Nú á t.d. að fara í stórátak. Þjóðin er farin að sjá í gegnum hann og þetta þýðir ekkert lengur. Það er svo undarlegt að samt reyna menn þetta.

Ég segi svo sem ekki að allt í þessum breytingartillögum sé alslæmt. Margt af þessu er gert af góðum hug, t.d. veit ég að hv. formaður fjárlaganefndar Birkir Jón Jónsson ber hlýjan hug til Siglufjarðar, eins og ég geri reyndar líka, og við skoðun á þessum breytingartillögum sér maður það greinilega. Það kemur fram hér að þjóðin á að setja 8 millj. í skíðamannvirki á Siglufirði og ég get tekið undir að það sé jákvætt verkefni. Síðan er Síldarminjasafnið, 5 millj., það er jákvætt verkefni. Svo er það Fjallabyggð, náttúrugripasafn, mjög jákvætt. Berjadagar, 1 millj., Þjóðlagasetur sr. Bjarna Þorsteinssonar, stofnkostnaður við sýningu, 6 millj. Þetta eru allt mjög góð verkefni og ekkert nema gott um þau að segja. Ég þekki að vísu ekki Jötunheimaverkefnið á Siglufirði. En þetta er allt af góðum hug.

Ég verð samt að segja — ég er reyndar ekki búinn að taka saman hvað þetta eru margar milljónir — að þetta er kannski lýsandi staða fyrir Framsóknarflokkinn. Hann er búinn að svipta Siglufjörð atvinnuréttinum. Siglfirðingar mega ekki einu sinni fiska síld á Síldarminjasafninu þó svo að hún vaði upp að bryggju. Það má ekki vegna þess að Framsóknarflokkurinn er fastur í þessu kvótakerfi. Það er búið að selja atvinnuréttinn frá Siglufirði og eftir standa stórskuldug fyrirtæki. Ef einhver ætlar að gera það sem forfeður þeirra gerðu mann fram af manni þarf hann að kaupa atvinnuréttinn eða leigja hann fyrir þrjá fjórðu af innkomunni.

Auðvitað skilur maður það að hv. þingmaður er lentur í slæmum félagsskap í þessu kerfi, lentur í neti, en menn verða, ef þeir ætla í rauninni að komast út úr þessu og sjá þessar byggðir dafna á ný, að veita fólkinu atvinnurétt. Það þýðir ekki bara að styrkja þessi góðu söfn um minningu um liðna tíma, heldur þurfa þessar byggðir að fá að þróast áfram. Ég vona svo sannarlega að framsóknarmenn fari að átta sig á að þetta gengur ekki svona lengur.

Ég þekki hérna eitt verkefni mjög vel, Heimskautsgerði á Raufarhöfn. Það er mjög gott verkefni og ég get stutt það þótt það fái vissulega mikla peninga, 10 millj. kr. Horfum aðeins á Raufarhöfn. Það er örugglega búið að hækka rafmagnsreikninginn á Raufarhöfn af Framsóknarflokknum um miklu hærri upphæð. Það er líka búið að taka atvinnuréttinn af fólkinu á þessum stöðum. Ef fólkið fengi aftur einhvern hluta af atvinnuréttinum væri þessi byggð fullfær um að reisa þetta ágæta Heimskautsgerði og gera það af myndarskap án atbeina ríkisins. Um það snýst þetta mál.

Við megum ekki horfa fram hjá aðalatriðum þessara byggða. Það er ekki hægt að dreifa eingöngu styrkjum í minningu um liðna tíma. Þessar byggðir verða að fá að halda áfram að þróast og það gerist ekki nema fiskveiðistjórnarkerfinu verði breytt og enn fremur er ekki til bóta það sem Framsóknarflokkurinn hefur gert, að hækka rafmagnsreikninginn hjá fólki. Mér finnst þetta mikil ósvinna sem hann hefur framkvæmt þar.

En við leggjum, eins og áður segir, mikla áherslu á velferðarmálin, m.a. vegna þess að vissir hópar hafa dregist mjög mikið aftur úr. Það hafa samtök aldraðra sýnt fram á. Þess vegna höfum við í stjórnarandstöðunni ákveðið við þessa fjárlagagerð að leggja áherslu á að bæta stöðu þeirra hópa á næsta ári. Ég stóð í þeirri von að ríkisstjórnin sem dreifir peningum hingað og þangað gæti staðið með okkur í þessu en það virðist því miður ekki verða ef marka má ummæli hv. þingmanna stjórnarflokkanna.

Það eru fleiri þættir sem við þingmenn landsbyggðarinnar leggjum áherslu á, m.a. þá stöðu sem er uppi við kostnað fólks sem þarf að senda börnin sín í skóla um langan veg. Okkur finnst afar merkilegt hvað stjórnarliðar taka dræmt í þessar almennu aðgerðir, sérstaklega í ljósi þess að þeir eru svo duglegir að veita í svona minni verkefni hingað og þangað sem flest hver eru mjög góð. Menn verða að horfa á þetta í samhengi. Það er ekki hægt að taka atvinnuréttinn af þessum byggðum. Maður spyr sig: Til hvers? Til hvers eru þeir að þessu? Fyrir hvern?

Nú er fyrrverandi formaður Framsóknarflokksins farinn af sviðinu og ég hélt að menn gætu kannski litið á heildarmyndina, á byggðaþróunina og séð það að kerfi sem skilar helmingi minni afla en fyrir daga þess er ekki gott. Alls ekki. Ekki fyrir nokkurn, a.m.k. ekki fyrir þjóðina, mögulega þá sem eiga eftir að selja sig út úr greininni en alls ekki fyrir atvinnugreinina sjálfa.

Það kom m.a. fram í svörum hæstv. ráðherra að hann gat ekki fært nokkur einustu rök fyrir meintum almannahagsmunum af því að halda áfram þessari vitleysu. Mér fannst það leitt af því að ég beið spenntur eftir því. Ég hef ekki séð þessa meintu almannahagsmuni og leitað samt lengi eftir því að fá einhvern botn í þetta dæmi. Því miður eru bara engin svör.

Að lokum vil ég aðeins minnast á fyrrverandi borgarstjóra í Reykjavík sem er kannski ekki sérstök vinkona okkar í Frjálslynda flokknum þótt ótrúlegt sé. Ég held að hún átti sig kannski ekki á því máli sem hún deilir hvað harðast á okkur fyrir, þ.e. hvað það varðar að við viljum hefta flæði erlends vinnuafls inn í landið. En hún má eiga það að hún hækkaði í borginni laun hjá fólki með lægstu launin. Einstakir þingmenn hafa haft horn í síðu hennar fyrir það og hér hafa nokkrir þingmenn flutt miklar ræður um að þetta sé orsökin fyrir efnahagsvanda þjóðarinnar. Mér hefur fundist alveg ótrúlegt að hlýða á þessar ræður. Aldrei heyrir maður þessa menn, sem hafa svona miklar áhyggjur af þeim sem hafa um 150 þús. á mánuði með öllu, kvarta yfir því að hæstu starfslokasamningar sem hljóða kannski upp á tugi eða jafnvel hundruð milljóna hafi einhver áhrif á launaþróunina, hvað þá þegar jafnvel framsóknarmenn gera samninga við þá sem hafa stýrt heilu stofnununum og brotið af sér í starfi og mögulega brotið lög. (GÓJ: Ertu að tala um Sverri Hermannsson?) Valgerður Sverrisdóttir gerði þennan starfslokasamning við (Gripið fram í.) forstjóra Byggðastofnunar og það var upplýst m.a. í útvarpsviðtali við ágætan þingmann framsóknarmanna þar sem hann fór rækilega yfir þetta mál.

Það er aldrei rætt um að þessi endi geti orsakað (Gripið fram í.) launaójafnvægi og skapað spennu á launamarkaði. (GÓJ: Farðu nú aðeins yfir Sverri Hermannsson …) Það er náttúrlega með ólíkindum að menn skuli alltaf leggjast þarna á, bæði við að skattleggja og klípa af fólkinu, t.d. af eldri borgurunum, og telja að fjárlagadæmið fari bara algerlega úr skorðum ef tillögur okkar í stjórnarandstöðunni sem hljóða upp á rúmlega 7 milljarða kr. bætur til þeirra sem hafa lægstu tekjurnar ná fram að ganga. Það er alls ekki svo. Það þarf að taka á öðrum þáttum.

Ég er svo sannfærður um að fólk sjái að það þarf að gefa stjórnarflokkunum rækilegt frí til að ná betri tökum á stjórn efnahagsmála. Þeir hafa, því miður, eins og ég fór yfir hér í byrjun ræðu minnar misst verðbólguna úr böndum. Hér hrannast upp erlendar skuldir og þeir eru ánægðir.