133. löggjafarþing — 35. fundur,  24. nóv. 2006.

fjárlög 2007.

1. mál
[10:33]
Hlusta

Einar Már Sigurðarson (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Komið er að atkvæðagreiðslu við 2. umr. um fjárlög fyrir árið 2007. Frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2007 svo og breytingartillögur meiri hluta fjárlaganefndar bera með sér að kosningar eru á næsta ári. Því er aðeins um bráðabirgðafjárlög að ræða. Það bíður nýrrar ríkisstjórnar að gera raunhæf fjárlög fyrir næsta ár. Þess vegna er rétt að skoða tillögur meiri hluta fjárlaganefndar sem tilraun ríkisstjórnarflokkanna til að tryggja áframhaldandi setu þeirra í ríkisstjórn.

Ábyrgðarleysi ríkisstjórnarflokkanna í fjármálum hefur verið áberandi undanfarin ár en nú keyrir um þverbak. Tillögur meiri hluta fjárlaganefndar eru plagg sem lítið mark er takandi á, m.a. vegna þess hve efnahags- og tekjuforsendur eru óvissar og útgjaldaákvarðanir handahófskenndar. Allt bendir til þess að ríkisstjórnarmeirihlutinn geri sjálfur ekki ráð fyrir að þurfa að framfylgja frumvarpinu. Þess vegna er frekar horft til fjölmiðlaþarfar einstakra ráðherra en mikilvægis fjárlaga gagnvart efnahagsmálum þjóðarinnar.

Frú forseti. Við höfum á undanförnum dögum séð undirskriftarþörf einstakra ráðherra þar sem ritað er undir samninga sem gilda eiga fram í tímann eða allt næsta kjörtímabil. Frumvarpið segir í raun allt sem segja þarf um nauðsyn þess að skipt verði um ríkisstjórn á vori komanda.

Frú forseti. Ábyrgð ríkisstjórnarflokkanna er alger í þessu máli. Þess vegna munum við í minni hlutanum sitja hjá við óábyrgar tillögur þeirra.