133. löggjafarþing — 35. fundur,  24. nóv. 2006.

fjárlög 2007.

1. mál
[10:38]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Við atkvæðagreiðsluna sem hér fer fram um fjárlög 2007 skal vakin athygli á því að stjórnarandstaðan flytur þrjár tillögur um aukin útgjöld upp á 7,4 milljarða kr. sem allar, ef samþykktar yrðu, mundu bæta verulega hag og afkomu aldraðra og öryrkja, einkum þeirra sem hafa úr minnstum fjármunum að spila.

Ríkisstjórnarmeirihlutinn hefur á undanförnum árum fellt allar tillögur til lagfæringar á fjárlögum sem stjórnarandstaðan hefur flutt Á síðasta hausti voru það 42 tillögur. Það hefur verið venjan með yfirstjórn ráðherraræðisins, sem þessi ríkisstjórn hefur tamið sér. Í gær var upplýst í umræðum að það vinnulag að fella allt hefði a.m.k. verið framsóknarmönnum mikil gleðistund.

Ég vænti þess, hæstv. forseti, að það verði stjórnarþingmönnum minnisstætt til framtíðar ef þeir fella tillögur okkar um átak til að bæta líf þess fólks sem vann landið úr fátækt fyrri tíðar til bjargálna. Frjálslyndi flokkurinn og þingmenn hans munu að þessu sinni sitja hjá við allar tillögur stjórnarliða, sem ekki hefur verið venja okkar til þessa, hæstv. forseti.

Ýmsar tillögur í frumvarpinu eru til bóta en annað vantar algerlega, t.d. auknar fjárveitingar til sjúkrahússins á Akranesi. Það er skilið eftir.