133. löggjafarþing — 35. fundur,  24. nóv. 2006.

fjárlög 2007.

1. mál
[10:56]
Hlusta

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Með breytingartillögum sem stjórnarandstaðan leggur hér fram eru lagðar til stórfelldar og tímabærar kjarabætur til eldri borgara og öryrkja. Sú tillaga sem við greiðum atkvæði um hér gerir ráð fyrir að frítekjumark á atvinnutekjur ellilífeyrisþega verði 75 þús. kr. á mánuði. Ríkisstjórnin leggur til 25 þús. kr.frítekjumark sem er allt, allt of lágt. Eldri borgarar eiga það inni að við leiðréttum kjör þeirra myndarlega vegna þess að hið háa Alþingi ber ábyrgð á því að eldri borgurum hefur verið haldið niðri með íþyngjandi lagasetningum. Kostnaður við þessa tillögu er ekki hár, þ.e. um 410 millj. kr. til viðbótar þeim 192 millj. sem hið smánarlega frítekjumark ríkisstjórnarinnar kostar.

Í nýliðnum prófkjörum höfðu ýmsir hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins hátt um frítekjumark til eldri borgara og ég skora á þá þingmenn að standa við stóru orðin og segja já við tillögunni. Ég segi já, frú forseti.