133. löggjafarþing — 35. fundur,  24. nóv. 2006.

fjárlög 2007.

1. mál
[11:12]
Hlusta

Jóhann Ársælsson (Sf):

Hæstv. forseti. Ríkisstjórnin hefur aukið skatta á lágtekjufólk í landinu. Hún mætir í þingsalinn ákaflega hreykin yfir þessum 25 þús. kr. sem menn mega vinna sér inn á almennum markaði eftir að þeir eru komnir á ellilaun. Það er verið að tala um fátækasta fólkið í landinu. Mér finnst þetta ekki rausnarlegt og ekki í samræmi við það sem menn hafa talað um, t.d. að hafa sveigjanleg starfslok og gefa fólki tækifæri til að aðlaga sig því að fara á eftirlaun.

Mér finnst þetta ekki í samræmi við að hafa fólk í fyrirrúmi, a.m.k. er það ekki gamla fólkið sem er í fyrirrúmi hjá þeim flokkum sem hér ráða ríkjum. Ég tel alls ekki of langt gengið með tillögum stjórnarandstöðunnar og að þær ættu jafnvel að ganga lengra. En ég segi já.