133. löggjafarþing — 35. fundur,  24. nóv. 2006.

fjárlög 2007.

1. mál
[11:21]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Frú forseti. Hér er með sama hætti og í hinu fyrra nafnakalli verið að greiða atkvæði um það hvort að þessu sinni öryrkjum verði heimilt að vinna sér inn 750 þús. kr. án þess að lífeyrisgreiðslur skerðist. Þessi ríkisstjórn skilar afgangi, og gumar af því, sem nemur 9 milljörðum kr. Hér er um útgjöld að ræða sem svara til 340 millj. kr. Nánasarháttur og níska þessarar ríkisstjórnar í garð öryrkja er með ólíkindum, eins og menn hafa sagt hér áður: Við hljótum að hafa skömm á þessari framkomu. Hvar eru nú þeir sem voru hér og riðu eins og riddarar á hvítum hesti til að frelsa öryrkja úr fótsnöru fátæktarinnar í prófkjörum liðinna vikna, fólkið sem talaði um að það ætti að leyfa fólki að hjálpa sér sjálft? Hvar er það núna? Það kemur hér hvert á fætur öðru og fellir þessa sjálfsögðu tillögu. Ég segi já.