133. löggjafarþing — 35. fundur,  24. nóv. 2006.

fjárlög 2007.

1. mál
[11:44]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Frú forseti. Hér er verið að afgreiða fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar fyrir næsta ár við lok 2. umr. Það er óhætt að segja að þetta eru kosningafjárlög þar sem ríkisstjórnin þeytir kosningaloforðum á báða bóga sem aldrei fyrr (EOK: En þið?) og kjördæmapot ráðherranna hefur sennilega aldrei birst með jafnsterkum hætti og nú, hv. þingmaður. Það er óhætt að segja að ráðherrarnir sem stynja á bekkjunum í dag hljóta að leggjast mettir til hvílu í kvöld.

Stjórnarandstaðan hefur sameinast um burðartillögur sem með táknrænum hætti undirstrika samstöðuna sem með henni hefur verið á þessum vetri og verður þegar stjórnarandstaðan (Gripið fram í.) hrindir þessari ríkisstjórn. (Gripið fram í.)

(Forseti (RG): Forseti óskar eftir að þingmenn gefi ræðumanni hljóð.)

Frú forseti. Eins og ég gerði veikburða tilraun til að segja frá áðan gegn köllum stjórnarliðsins þá er það þannig að stjórnarandstaðan hefur sameinast um tillögur sem verða burðarásar í samstarfi hennar á þessum vetri og jafnframt þegar þessari ríkisstjórn verður hrundið frá völdum. (Gripið fram í.) Á sama tíma og tillögur okkar ganga út á aukinn jöfnuð hefur þessi ríkisstjórn sameinast um það sem er að verða hið nýja aðalsmerki hins nýja Íslands, þ.e. vaxandi stéttskipting og ójöfnuður. Þessi ríkisstjórn hefur sameinast um það að hækka skatta á öllum þeim sem voru best efnaðir. Það má fullyrða að Sjálfstæðisflokkurinn hefur verið trúr hugsjónum sínum, sögu og fortíð, með því að hækka skatta á alla en standa vörð um bætt kjör þeirra (EOK: Tíminn er búinn.) sem eru best efnaðir. (Forseti hringir.)

Frú forseti. Ég hef þrjár mínútur til að gera grein fyrir atkvæði mínu og hef lokið nákvæmlega einni og hálfri mínútu.

(Forseti (RG): Forseti biðst velvirðingar en í ræðustólnum eru ræðumanni gefnar þrjár mínútur en einungis ein til atkvæðaskýringar. Þingmenn verða að virða það að ræðumaður taldi sig hafa þrjár mínútur. Ég gef ræðumanni andartak til að ljúka ræðu sinni.)

Frú forseti. Þær tillögur sem stjórnarandstaðan hefur sameinast um ganga allar út á að bæta kjör öryrkja og aldraðra. Það sem ríkisstjórnin hefur hins vegar sameinast um er að bregða fæti fyrir viðleitni stjórnarandstöðunnar til að bæta kjör þeirra sem verst eru staddir í þessu samfélagi. (Gripið fram í.)

(Forseti (RG): Því miður voru ræðumanni gefnar upp þrjár mínútur í ræðustól en það var ekki forseti sem stjórnaði því. Þingmaðurinn taldi sig því hafa lengri tíma en hann hafði. Forseti vekur athygli á að í atkvæðaskýringunni sem hér fer fram er ein mínúta fyrir hvern ræðumann.)