133. löggjafarþing — 35. fundur,  24. nóv. 2006.

tekjuskattur.

22. mál
[12:06]
Hlusta

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Pétur H. Blöndal) (S):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti frá hv. meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar sem er að finna á þskj. 455.

Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Ólaf Darra Andrason frá Alþýðusambandi Íslands, Dórótheu Jóhannsdóttur, Ingibjörgu Helgu Helgadóttur, Ingva Má Pálsson og Sigurð Guðmundsson frá fjármálaráðuneyti og Hannes G. Sigurðsson frá Samtökum atvinnulífsins. Nefndinni bárust auk þess umsagnir um frumvarpið.

Rétt til vaxtabóta eiga þeir sem greiða vaxtagjöld af lánum vegna kaupa eða byggingar á íbúðarhúsnæði til eigin nota og einnig þeir sem keypt hafa eignarhlut í almennri kaupleiguíbúð. Vaxtabætur greiðast út að lokinni álagningu opinberra gjalda og miðast við vaxtagjöld viðkomandi tekjuárs, skuldir vegna húsnæðislána, tekjur, sem og eignir í lok þess árs.

Það er einkum tekjuaukning og hækkun fasteignamats á milli ára sem leiddi til skerðingar á vaxtabótum við álagningu síðasta haust. Aðrar eignir en fasteignir og jafnframt skuldir hafa einnig áhrif á það til hve hárra vaxtabóta einstaklingur á rétt. Eignir eru t.d. ökutæki, verðbréf og innstæða í banka. Verðbréf og fasteignir hafa hækkað mikið undanfarin ár en skuldir flestra hafa hækkað í takt við verðbólgu sem hækkaði miklu minna. Þó er vitað að skuldir heimilanna hafa vaxið mjög mikið bæði vegna skuldbreytinga og hækkunar yfirdráttar. Skuldir eru t.d. húsnæðislán, yfirdráttur og námslán. Þar sem nettóeign er mismunur á eignum og skuldum viðkomandi er hún mjög næm fyrir breytingum á hvoru tveggja og getur sveiflast mjög mikið milli ára.

Í frumvarpinu er lagt til að lágmark eignaviðmiðunar að frádregnum skuldum til skerðingar á vaxtabótum verði hækkað afturvirkt um 25%. Þessi hækkun miðast við það að framtalin nettóeign allra framteljenda hækkaði um tæp 25% milli áranna 2004 og 2005. Þessar aðgerðir koma til framkvæmda þegar að samþykktu frumvarpinu og viðbótarvaxtabætur eiga að koma til útgreiðslu fyrir áramót.

Frumvarpið á rætur sínar að rekja til yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar frá 22. júní sl. í tengslum við áframhaldandi gildi kjarasamninga þar sem hún lýsti sig reiðubúna til að endurskoða ákvæði laga um vaxtabætur ef í ljós kæmi við niðurstöðu ákvörðunar vaxtabóta að hækkun fasteignaverðs árið 2005 hefði leitt til marktækrar skerðingar á vaxtabótum.

Við ákvörðun vaxtabóta í ágúst sl. kom í ljós skerðing á heildarfjárhæð vaxtabóta frá því sem reiknað hafði verið með samkvæmt forsendum fjárlaga fyrir árið 2006 og var auk þess um umtalsverða fækkun vaxtabótaþega að ræða. Varð niðurstaðan samkvæmt álagningartölum að ákvarðaðar vaxtabætur voru um 300 millj. kr. lægri en reiknað hafði verið með í fjárlögum. Var lækkunin minni en flestir bjuggust við, um 6%. Sú 25% hækkun eignamarka sem ASÍ taldi ófullnægjandi í júní sl. reyndist í ljósi álagningar í haust því vera næg til að mæta meðalhækkun nettóeignar allra framteljenda eins og að framan greinir. Það var samdóma álit gesta nefndarinnar að ekki væri unnt að elta breytingar hjá ákveðnum einstaklingum. Þess vegna hlyti hækkun eignamarka að byggjast á meðaltalshækkun.

Í umsögn ASÍ er nefnt að eignamörkin þurfi að hækka um 83% á milli ára til að einstaklingar í tiltekinni stöðu verði jafnsettir og fyrir hækkun fasteignamats. Nefndi fulltrúi ASÍ 80% á fundum með nefndinni. Sú hækkun mundi leiða til þess að hjón með 17 millj. kr. nettóeign ættu rétt á vaxtabótum. Í viðræðum við fulltrúa ASÍ var rætt ítarlega um áhrif frumvarpsins á einstaka hópa en ekki komu fram ákveðnar hugmyndir ASÍ um hækkun eignamarka. Samkvæmt frumvarpinu byrja vaxtabætur hjóna að skerðast þegar nettóeign þeirra fer yfir 7,7 millj. kr. og falla niður við 12 millj. kr. nettóeign.

Eins og að framan greinir er í þessu frumvarpi lögð til afturvirk 25% hækkun á því lágmarki nettóeignar þar sem skerðing vaxtabóta hefst. Talsvert var rætt um það í nefndinni hversu mikið lágmark eignaviðmiðunar skv. 4. mgr. B-liðar 68. gr. þyrfti að hækka til að standa við þá yfirlýsingu sem ríkisstjórnin gaf í júní sl.

Ljóst er að vegna jafnræðisreglu er ekki hægt að hafa mismunandi eignamörk fyrir einstaka hópa og landshluta. Þar sem fasteignaverð hefur hækkað miklu minna úti á landi en á höfuðborgarsvæðinu munu vaxtabætur til fólks úti á landi aukast, en minnka til fólks á höfuðborgarsvæðinu við þessa breytingu. Hins vegar mun sú hækkun sem lögð er til með þessu frumvarpi bæta stöðu þeirra sem búsettir eru á höfuðborgarsvæðinu. Nefnt hefur verið að greiðslumat byggist m.a. á vaxtabótum og það kunni að bregðast ef vaxtabætur falla niður. Því er til að svara að greiðslumatið byggist ekki síður á tekjum og þær hafa hækkað umtalsvert umfram það sem við hefði mátt búast. Þannig mun greiðslumat í flestum tilvikum standast þó að vaxtabætur skerðist.

Meiri hlutinn leggur til að hafin verði endurskoðun á vaxtabótakerfinu þar sem það hafi augljósa agnúa. Má þar nefna, líkt og fram kemur í umsögn Seðlabanka Íslands, að niðurgreiðsla á lánsfé er til þess fallin að auka skuldsetningu almennings og draga úr sparnaði. Meiri hlutinn telur ekki heppilegt að hvetja fólk til skulda á þann hátt og vill að hugað sé að gjörbreytingu á þessu kerfi.

Meiri hlutinn leggur til að eignarmörkin verði hækkuð um 30% í stað 25% eins og gert er ráð fyrir í frumvarpinu. Í því sambandi má nefna að matsverð fjölbýlishúsa í Reykjavík hækkaði um 30% á milli ára. Við þessa breytingu er áætlað að vaxtabætur hækki alls um 4,3% umfram það sem gert var ráð fyrir í fjárlögum 2006.

Sú hækkun á eignamörkum sem hér er lögð til er vegna þess óeðlilega ástands sem stafar af mikilli hækkun fasteigna og verðbréfa og telur nefndin eðlilegt að sú hækkun á eignamörkum verði tekin til endurskoðunar ef sú staða snýst við á næstu árum.

Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali:

1. Lagt er til að lágmark eignaviðmiðunar hækki um 30% í stað 25% eins og frumvarpið gerir ráð fyrir.

2. Lögð er til breytt dagsetning í 2. málsl. 1. mgr. 2. gr. frumvarpsins úr 1. desember 2006 í 31. desember 2006. Ætla má að langstærstur hluti framteljenda fái þær bætur sem þeir eiga rétt á samkvæmt frumvarpinu greiddar út á innan við viku. Hins vegar má gera ráð fyrir að það taki 2–3 vikur að endurákvarða og greiða einhverjum hluta manna.

Undir nefndarálitið rita hv. þm. Pétur H. Blöndal, Dagný Jónsdóttir, Birgir Ármannsson, Ásta Möller og Hjálmar Árnason.

Herra forseti. Ég ætla að fara nokkrum orðum um vaxtabótakerfið og hvernig það virkar. Ef hjón í ákveðinni stöðu sem skulda 15 millj., sem er ekkert mjög fjarri lagi með venjulegt fólk, eru með vaxtagjöld upp á 800 þús. og með 7,2 millj. í árstekjur, þ.e. 600 þús. kr. samanlagt á mánuði, 300 þús. kr. hvort, sem eru einmitt meðallaun ASÍ-fólks, og þessi hjón eiga 10 millj. í nettóeign fá þau 187 þús. kr. í vaxtabætur. Ef þau hins vegar hafa ákveðið í desember sl. að fara í heimsreisu sem kostar milljón og borga hana í desember lækkar eignin um milljón og við það hækka vaxtabæturnar um 66 þús. kr. á þessu ári. Ríkið styrkir heimsreisuna fyrir þetta fólk svo að maður tali ekki um ef eyðslan er meiri, þá aukast vaxtabæturnar enn frekar.

Af þessu dæmi má ljóst vera að þetta kerfi er mjög hvetjandi til skulda. Þessi hækkun á vaxtabótum, 66 þús. kr., hefði komið núna í haust og svo aftur og aftur á meðan fólkinu tekst að halda eignunum fyrir neðan eignamörkin. Það má einmitt gera með því að skulda, með því að eyða.

Þá vil ég nefna að hjón sem eru með 13 millj. í árstekjur, þ.e. 1,1 milljón á mánuði samanlagt, geta fengið bætur frá ríkinu. Ef þau skulda nægilega mikið geta þau fengið bætur þó að þau séu með 1,1 milljón á mánuði samanlagt í tekjur. Í mínum huga er þetta ekki velferðarkerfi. Ég tel að fólk í þeirri stöðu þurfi ekki bætur.

Samkvæmt frumvarpinu hækka eignamörkin þannig að hjá hjónum byrja bæturnar að skerðast við 8 millj. kr. og hætta að skerðast við tæplega 13 millj. kr. eign. Ég tel, herra forseti, að fólk sem á 8 millj., að maður tali ekki um 13 millj., í eign þurfi ekki á bótum frá velferðarkerfinu að halda, hvað þá ef menn ætla að hækka þetta enn frekar eins og menn gáfu í skyn að þyrfti að gera.

Í nefndaráliti minni hlutans kemur fram að hann vísi allri ábyrgð á niðurstöðu þessa máls á ríkisstjórnina og það eru engar tillögur, herra forseti, ekki neitt. Það er ekki hægt að segja hvað þeir ætla að fara með mörkin hátt. Hv. þm. Ögmundur Jónasson sem skrifar undir það nefndarálit vill fara með mörkin enn hærra þannig að fólk sem er jafnvel með — ég veit ekki hvaða mörk hann ætlar sér að fara með og ég mun spyrja hann að því á eftir og hann vill láta fólk fá bætur úr velferðarkerfinu sem er með eignir upp á 14, 15, 17 millj. Hvernig fær það staðist þá stefnu sem hv. þingmaður, sem ritar undir nefndarálitið, aðhyllist um jafnaðarmennsku?

Eins og kemur fram í nefndaráliti meiri hlutans mundu þær hugmyndir sem ASÍ var með gera það að verkum að fólk sem á eignir upp á 17 millj. fengi bætur úr velferðarkerfinu, nettóeignir, eignir umfram skuldir. Það var reyndar ekki neglt niður, heldur var það nefnt á fundum nefndarinnar og í greinargerð frá ASÍ að hækkunin þyrfti að vera eitthvað í þeim takti. Ég reyndi að koma með dæmi um hjón sem tiltölulega nýlega hefðu keypt sér íbúð með 80–90% skuldsetningu og benti á að það þyrfti að hækka eignamörkin um 370% til að þau töpuðu ekki vaxtabótunum. Þessi dæmi ættu að sýna fólki, herra forseti, að þetta kerfi er ekki á vetur setjandi. Þess vegna leggur meiri hlutinn til að þessu kerfi verði breytt og í leiðinni gætu menn gjarnan tekið á húsaleigubótakerfinu sem hefur ekki síðri agnúa, herra forseti.

Ég flutti reyndar fyrir nokkrum árum frumvarp um að taka upp húsnæðisbætur í staðinn fyrir hvort tveggja vegna þess að vaxtabæturnar gera ráð fyrir því að menn skuldi og húsaleigubæturnar gera ráð fyrir því að menn leigi nægilega dýrt. Ég held að það sé mjög brýnt, herra forseti, að breyta þessu kerfi, sérstaklega í ljósi þeirra dæma sem ég nefndi hér. Það er ljóst að það fólk sem fær bætur eftir þessa breytingu verður annað fólk en það sem fékk bætur í fyrra vegna þess hvað þessi eignarviðmið eru kvik.

Það er líka því miður ljóst að það fólk sem sýnir ráðdeild og sparsemi og stofnar ekki til nýrra skulda missir vaxtabæturnar en hinum sem eru duglegir að kaupa sér jeppa, fara í utanlandsreisur og annað slíkt og eyða og spenna er hyglað, herra forseti.

Ég fellst á þessa hækkun með þeim rökstuðningi sem ég nefndi en ég er ekki aðdáandi þessa kerfis enda hef ég margoft lagt til, herra forseti, að því verði breytt en eins og með svo margt annað taka þingmenn ekki á slíkum vandamálum eða sjá þau ekki eða segja að þetta sé ekkert vandamál.