133. löggjafarþing — 35. fundur,  24. nóv. 2006.

tekjuskattur.

22. mál
[12:23]
Hlusta

Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég er viss um að mörgum mun bregða í brún þegar þeir átta sig á innihaldi þessa frumvarps frá ríkisstjórninni sem kveður á um leiðréttingu á útgreiddum vaxtabótum frá í ágúst vegna verulegrar hækkunar á fasteignamati. Ég býst við að það séu margir sem bíða eftir því núna að frumvarpið verði afgreitt og vænta þess þá að fá leiðréttingu á vaxtabótum sínum. Eins og vitað er skertust vaxtabætur mjög margra, fjölda manns, í ágúst síðastliðnum þegar vaxtabætur voru greiddar út vegna hins háa fasteignamats. Staðan var raunar sú hjá mörgum sem höfðu fengið fullar vaxtabætur í ágúst árið áður, að þeir fengu engar vaxtabætur í ágúst síðastliðnum þó ekkert hefði breyst í kjörum eða tekjum viðkomandi, nema að fasteignamatið hafði hækkað. Það var það eina sem hafði breyst í kjörum mjög margra sem nú búast við að fá vaxtabætur.

Ég ætla að rifja það upp, virðulegi forseti, að stjórnarandstaðan krafðist þess á Alþingi síðastliðið vor að lögum yrði þá þegar breytt þannig að komið yrði í veg fyrir þann skell á fjárhag heimilanna sem var yfirvofandi vegna skerðingar á vaxtabótum. Við því var ekki orðið með þeim afleiðingum, eins og ég var að lýsa, að vaxtabætur skertust verulega hjá fjölda einstaklinga og í mörgum tilvikum þurrkuðust þær alveg út, jafnvel hjá þeim sem höfðu fengið fullar vaxtabætur árið áður. Ég held að ekki sé ofsagt að margir áttuðu sig ekki á þeim skelli sem þeir urðu fyrir í ágúst og gerðu ráð fyrir vaxtabótum í fjárhagsáætlunum sínum á árinu.

Staðan eins og hún er nú, eftir að frumvarpið er komið úr meðferð í efnahags- og viðskiptanefnd, er að ríkisstjórnin kom ekki aðeins aftan að fjölda íbúðareigenda með því að leiðrétta ekki vaxtabæturnar strax í vor með tilliti til gífurlegrar hækkunar á fasteignamati, heldur kemur hún enn og aftur í bakið á fjölda heimila í landinu sem enga leiðréttingu fá með frumvarpinu, sem þó höfðu verið gefnar væntingar um.

Minni hlutinn í efnahags- og viðskiptanefnd, sem flytur hér sameiginlegt nefndarálit, átelur harðlega að ekki skuli vera staðið við yfirlýsingu um vaxtabætur sem gerð var í sumar í tengslum við endurskoðun kjarasamninga. Við gagnrýnum því bæði vinnubrögðin og eins efnisinnihaldið og niðurstöðuna í frumvarpinu. Yfirlýsingin sem gerð var í sumar var í tengslum við endurskoðun kjarasamninga og þá kvað yfirlýsingin á um að leiðrétta ætti vaxtabætur ef í ljós kæmi veruleg skerðing á vaxtabótum vegna hækkunar á fasteignamati.

Í umsögn ASÍ um frumvarpið, sem kom fyrir efnahags- og viðskiptanefnd, kemur fram að það hafi verið og sé skilningur fulltrúa ASÍ á yfirlýsingunni að á grundvelli hennar eigi að finna leið til að gera þá sem verða fyrir marktækri skerðingu nokkurn veginn jafnsetta. Ég endurtek, hæstv. forseti, nokkurn veginn jafnsetta og ef ekki hefði komið til hinnar miklu hækkunar á fasteignamati. Þetta er grundvallaratriði.

Einnig kemur fram í umsögninni að leiðinni sem valin er í frumvarpinu til að leiðrétta þá miklu skerðingu sem orðið hafði á vaxtabótum, hafi ASÍ hafnað í sumar. Þeirri leið var sem sagt hafnað sem ríkisstjórnin kom svo með inn í þingið nú á haustdögum, þeirri leið var þegar hafnað í júní í sumar í tengslum við kjarasamninga. Niðurstaðan þá, eins og fram kom í umsögn ASÍ, var að aðilar urðu ásáttir um að nýta tímann — ég bið hæstv. forseta að taka eftir því, að nýta tímann til hausts til að skoða málið og samráð yrði haft við ASÍ. Í umsögn ASÍ kemur fram að ekkert hafi orðið af slíku samráði og það sem meira er að ASÍ hefur ekki einu sinni fengið umbeðin gögn til að geta lagt mat á skerðinguna og hvaða leiðir hægt væri að fara til að fólk fengi eðlilega leiðréttingu sinna mála.

Svona vinnubrögð, hæstv. forseti, eru ekki forsvaranleg. Menn leggja upp í það í sumar að leiðrétta vaxtabæturnar vegna hækkunar á fasteignamati, menn sammælast um að setjast niður og fara sameiginlega yfir forsendur á nýjum útreikningum, en ekkert hefur verið gert í því máli, virðulegi forseti, ekkert sem heitið geti. Ekki er hægt að kalla það samráð þótt ASÍ hafi í september verið kallað til einu sinni eða tvisvar til að kynna því hvaða leið ríkisstjórnin væri að fara í þessu efni. Engin tilraun var gerð til að fara yfir og meta sameiginlegar forsendur sem nýir útreikningar áttu að byggja á.

Ég tel að þetta sé mjög alvarlegt vegna þess að í meðförum efnahags- og viðskiptanefndar kom í ljós að ASÍ hafði einlægan vilja til að ná sameiginlegri lendingu með ríkisstjórninni í málinu. Mér kæmi ekki á óvart, virðulegi forseti, að eftirmáli yrði í samskiptum ASÍ og ríkisstjórnarinnar vegna þeirrar niðurstöðu og málsmeðferðar í umræddu máli. Það hlýtur að kólna í viðskiptum milli þessara aðila þegar ekki er staðið við það samráð sem menn sammæltust um að yrði varðandi forsendur þessara útreikninga. Það sem meira er og alvarlegt er að ASÍ ætlaði þá sjálft að reyna að mynda sér skoðun um forsendur á þessu máli og kallaði þá eftir gögnum — ég ætla að ítreka það, virðulegi forseti, þannig að hér verði ekki útúrsnúningar á eftir um það, að kallað var eftir ópersónugreinanlegum gögnum frá ríkisskattstjóra til að hægt væri að fara yfir hvaða forsendur væru sanngjarnar við útreikning á þessum málum með það að markmiði, eins og ASÍ lagði upp með, að þeir sem urðu fyrir marktækri skerðingu vegna hækkunar á fasteignamati yrðu nokkurn veginn jafnsettir eftir sem áður.

Við í stjórnarandstöðunni gerðum ítrekaðar tilraunir til þess, meðan málið var í meðferð í efnahags- og viðskiptanefnd, að fá þá aðila þar sem himinn og haf var milli skoðana hjá varðandi þessa útreikninga til að setjast yfir málið og reyna að koma sér saman um sameiginlegar forsendur í útreikningunum, þannig að sá tími sem málið væri í meðferð hjá nefndinni yrði þá nýttur til þess að menn gætu staðið bærilega sáttir frá borði eftir að hafa reynt að komast að sameiginlegri niðurstöðu í málinu. En tíminn var alls ekki nýttur til þess, virðulegi forseti. Það var ekki fyrr en í gær, eftir mikinn eftirrekstur frá stjórnarandstöðunni, að fulltrúar ASÍ og fjármálaráðuneytisins, og þá væntanlega formaður efnahags- og viðskiptanefndar, settust yfir það til að ná sameiginlegri niðurstöðu. Niðurstaðan varð sú að breytingin á eignamörkunum verður ekki 25% heldur 30% eins og formaður nefndarinnar lýsti áðan. Og það er ekki sameiginleg niðurstaða ASÍ og stjórnvalda að þarna sé komin sameiginleg lausn á þessu máli vegna þess að sú breyting sem þarna er gerð er raunverulega bitamunur en ekki fjár með tilliti til þeirra markmiða sem ASÍ setti sér, að aðilar yrðu nokkurn veginn jafnsettir.

Ég heyrði að formaður efnahags- og viðskiptanefndar kallaði hér af hverju stjórnarandstaðan flytji ekki breytingartillögu. Stjórnarandstöðunni var ekki gert það kleift frekar en ASÍ að fá fram þær forsendur sem nauðsynlegar voru til að stjórnarandstaðan eða ASÍ gætu lagt fram útreikninga og forsendur, og þá eftir atvikum breytingartillögur, sem byggðu á útreikningum sem nauðsynlegir voru til þess að hægt væri að leggja fram slíka breytingartillögu. Við mótmælum vinnubrögðum í þessu máli, bæði gagnvart stjórnarandstöðunni og ekki síst gagnvart ASÍ, og líka efnisinnihaldi þessa máls. Niðurstaðan er sú að fjöldi einstaklinga og fjölskyldna í landinu, sem skapaðar hafa verið væntingar hjá að mundu nú í desember hljóta leiðréttingu á þeirri miklu skerðingu á vaxtabótum sem fram kom í ágústmánuði sl., verður fyrir miklum vonbrigðum, en hjá mörgum heimilum, einstaklingum og hjónum hurfu vaxtabæturnar hreinlega alveg.

Málið er vissulega líka seint á ferðinni. Það var lagt fram á fyrstu dögum þingsins en það kom ekki til nefndarinnar fyrr en 7. nóvember, ef ég man dagsetninguna rétt. Allt þetta verður til þess að fólk fær ekki vaxtabæturnar afgreiddar á þeim tíma sem tiltekinn var í frumvarpinu þegar það var lagt fram í haust, þ.e. 1. desember. Ef frumvarpið verður afgreitt á þeim degi eru líkur á því að stór hluti þeirra sem fær endurgreiðslu samkvæmt þessu frumvarpi — menn hafa nefnt töluna 80–90% án þess að ég hafi hugmynd um hvað er á bak við hana — fái vaxtabæturnar endurgreiddar á bilinu 1.–5. desember, alla vega er stefnt að því að það verði fyrir 31. desember en það er auðvitað ófært að ekki sé hægt að standa við að greiða þær allar út 1. desember. En það má eins og annað rekja til vinnubragða við alla meðferð þessa máls, bæði áður og eftir að það kom inn í þingið.

Það er því ljóst, virðulegi forseti, að stjórnvöld hafa algerlega gengið á svig við samkomulagið en í umsögn sem við fengum kemur orðrétt fram um þessa yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar:

„Aðilar urðu því ásáttir um að nýta tímann til hausts til að skoða málið og að samráð yrði haft við ASÍ. Því miður hefur ekkert orðið af slíku samráði.“ — Segir í umsögn ASÍ og í lok umsagnarinnar kemur síðan fram: — „Í ljósi þess sem að framan er rakið telur ASÍ að frumvarpið eins og það er fram sett sé með öllu óásættanlegt og ekki í samræmi við þær viðræður sem áttu sér stað milli ríkisstjórnar og ASÍ í aðdraganda yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar.“

Þetta er staðan í málinu þegar það er tekið til 2. umr. og þó að við í stjórnarandstöðunni séum ósátt við þetta mál munum við greiða því leið gegnum þingið í dag, þannig að það geti orðið að lögum til þess að þeir sem fá þó einhverja leiðréttingu á sínum málum með þessu frumvarpi þegar að lögum er orðið, fái þá leiðréttingu sem fyrst.

Ég tók eftir því að formaður efnahags- og viðskiptanefndar finnur vaxtabótakerfinu allt til foráttu og tínir til dæmi um hjón sem eiga einhverja ákveðna eign og þeim dettur síðan í hug að fara í sólarlandaferð, ég man nú ekki hvað hann nefndi, (Gripið fram í: Heimsreisu.) heimsreisu sem kosti milljón og þá geti þessi hjón fengið vaxtabætur út á þá skuldsetningu. Þá er bara verið að fara fram hjá lögunum ef það er hægt, vegna þess að það stendur hér: „Maður sem skattskyldur er skv. 1. gr. og ber vaxtagjöld af lánum, sem tekin hafa verið vegna kaupa eða byggingar á íbúðarhúsnæði …“ (Gripið fram í.) — Það stendur hér í lögunum, ég er að lesa beint upp úr lögunum — „vegna kaupa eða byggingar á íbúðarhúsnæði til eigin nota, þar með talin kaup á eignarhlut í almennri kaupleiguíbúð, á rétt á sérstökum bótum, vaxtabótum, enda geri hann grein fyrir lánum og vaxtagjöldum af þeim í sérstakri greinargerð með skattframtali í því formi sem ríkisskattstjóri ákveður.“ (Gripið fram í.) Þannig að samkvæmt lögunum sjálfum … (Gripið fram í.) Hef ég ekki orðið, virðulegi forseti? Samkvæmt lögunum sjálfum má ekki greiða út vaxtabætur nema vegna öflunar á húsnæði. Vöxtum af einhverju öðru sem er algerlega óskylt íbúðarhúsnæðinu á að gera grein fyrir á öðrum stöðum í skattframtalinu. Það skiptir engu máli hver eignamörkin eru í því sambandi, ef skuldsetningin er ekki vegna húsnæðisöflunar má ekki greiða út vaxtabætur samkvæmt lögunum. Þetta er bara klárt og kvitt í lögunum sjálfum. (Gripið fram í.) Og menn sem setja aðra skuldsetningu á skattframtöl sín til þess að reyna að fá út vaxtabætur fara ekki að lögum. Þannig er staðan. Ég sé að hv. þingmaður hristir höfuðið og það væri kannski þess virði að kalla til ríkisskattstjóra milli 2. og 3. umr. og biðja hann að túlka fyrir okkur lögin, hvort okkar fari með rétt mál í þessu sambandi.

ASÍ hefur í umsögn sinni sett fram sláandi dæmi um hvernig sú leið sem ríkisstjórnin leggur til með hækkun á eignarstuðli um 25%, sem er að vísu kominn í 30% núna eftir að þessi dæmi voru sett fram, dugi hvergi til að bæta fjölda heimila þá skerðingu sem þau hafa orðið fyrir. Í mörgum tilvikum er ekki um neina leiðréttingu að ræða hjá fólki með lágar og meðaltekjur, þrátt fyrir þessa hækkun á eignarstuðlinum, sem er algerlega óviðunandi. Við erum að stærstum hluta til að fjalla um fólk með lágar tekjur og meðaltekjur. Það skýrist af því að skerðing vaxtabóta, sem hefst þegar eignin nær 6,2 millj. hjá hjónum en þær falla alveg út þegar hún er orðin 9,9 millj., er á svo þröngu eignabili að gífurleg hækkun á fasteignamati, allt upp í 35% en meðaltali sennilega 29% á höfuðborgarsvæðinu þar sem það hækkaði mest, kemur í veg fyrir nokkra leiðréttingu vaxtabóta, þrátt fyrir þessa 25% hækkun á eignastuðlinum. Með því að hækka hann í 30%, sem er sennilega í dæmi því sem ASÍ setur upp, þar eru tvö dæmi tekin, annað af hjónum og hitt af einstaklingi, mundi þetta sennilega í öðru dæminu a.m.k. kannski rétt skríða undir þessi eignamörk, sem heldur aukast við þá breytingartillögu sem meiri hlutinn gerir.

ASÍ tekur dæmi af hjónum með 440 þús. kr. í tekjur sem áttu eign upp á 25 millj. kr. en 19 millj. í skuld, eða 6 millj. kr. nettóeign, sem fengu fullar vaxtabætur við álagningu 2005. Síðan hefur ekkert breyst í aðstæðum þessa fólks nema að fasteignamatið hefur rokið upp þannig að eignin hefur þá orðið verðmætari, a.m.k. um tíma. Þetta er auðvitað eignabóla, þetta er ekkert fast í hendi hjá fólki. Fólk lifir ekkert betur við það að fasteignamatið hækki og eignin hækki á pappírnum. Miðað við 29% hækkun á fasteignamati milli áranna 2005 og 2006 hækkar eignin í þessu tilviki í rúmar 32 millj. en skuldin hækkar aðeins um rúm 4%, fer úr 19 millj. kr. 2005 í 19 millj. og 760 þús. Nettóeignin er því 12 millj. og 490 þús. eftir hækkunina á fasteignamatinu en var áður 6 millj. Vaxtabætur falla niður við 9,9 millj. kr. eign og því fengu þessi hjón engar vaxtabætur í ágúst sl. Nú þegar búið er að hækka eignastuðulinn um 25% fer eignin í 12,4 millj. og sennilega eitthvað örlítið meira með þeirri breytingu sem hér er gerð og við þessa hækkun fær fólkið í dæmi ASÍ enga leiðréttingu á vaxtabótum sínum. Það er líka tekið dæmi af einstaklingi sem ég tel óþarft að rekja hér en þar er um að ræða einstakling með 15 millj. kr. húsnæðiseign, hann fékk í vaxtabætur 105 þús. á árinu 2005 en fær engar nú, þrátt fyrir þessar leiðréttingar, vegna þess að fasteignamatið fer langt upp fyrir eignamörkin jafnvel þó að þau hækki núna um 25–30%.

Þetta er niðurstaðan, virðulegi forseti, eftir að ríkisstjórnin hefur setið yfir þessu máli frá því í sumar. Það sem er gagnrýnisvert, og við gagnrýnum auðvitað mjög harðlega, er að ekki var reynt að leita að raunverulegu samráði við ASÍ um þetta mál þannig að við stæðum ekki frammi fyrir því núna að fjöldi einstaklinga sem væntir þess að fá vaxtabætur fær þær ekki þegar þessi leiðrétting er komin fram.

Það er ekki eins og það sé í fyrsta skipti, virðulegi forseti, sem ríkisstjórnin skerðir vaxtabætur hjá fólki. Þessari ríkisstjórn er meinilla við vaxtabætur og eins og við heyrðum af orðum hv. formanns efnahags- og viðskiptanefndar vill hann örugglega helst slá þær af ef hann réði einn og gæti ráðið ferðinni í þessu efni. Það hefur verið reiknað út að á árunum 2003–2006 hafi vaxtabætur verið skertar um 1,4 milljarða kr. Það hefur auðvitað komið mjög hart niður á mörgum heimilum sem byggt hafa greiðsluáætlanir sínar m.a. á greiðslu vaxtabóta. Þegar verið er að vinna greiðslumat fyrir fólk, hvort heldur er í bönkum eða hjá Íbúðalánasjóði, og verið að meta greiðslugetu fólks þá eru vaxtabæturnar auðvitað hafðar með, vegna þess að þær hafa áhrif á greiðslubyrði fólks og því er auðvitað verið að koma í bakið á fólki þegar sífellt er fundin einhver leið til að skerða vaxtabætur meira og meira .

Árin 2003 og 2004 miðuðust vaxtabætur við 7% eftirstöðva skulda. Árið 2005 var þetta hlutfall lækkað í 5,5 og síðan í 5% á þessu ári. Samkvæmt fjárlagafrumvarpinu á ekki að ganga nema til hálfs við að vinda ofan af skerðingunni og er miðað við 6%. Í öðru lagi voru einungis greidd út 90% af hámarksupphæð vaxtabóta árið 2004 og 95% árið 2005. Í þriðja lagi hefur húsnæðisverð hækkað mikið á tímabilinu og langtum meira en eignaviðmið til útreiknings vaxtabóta sem stóð í stað milli áranna 2005 og 2006. Ég hef tekið eftir því að hæstv. fjármálaráðherra hefur stundum notað það sem rök þegar hann er að skerða vaxtabæturnar að vextir hafa verið að lækka í landinu. (Gripið fram í.) Jú, vextir af húsnæðislánum lækkuðu nokkuð á tímabilinu frá 2004–2006 en það eru samt nálægt 50 þúsund manns, þegar ég leitaði eftir þeim upplýsingum t.d. hjá Íbúðalánasjóði, sem eru með fasta vexti sem eru hærri en vextirnir þegar þeir voru að lækka, með vexti yfir 5% og 5,5%. Það voru því ekki rök sem hægt var að nota fyrir tugi einstaklinga sem treystu á vaxtabæturnar að vegna þess að vextir hefðu lækkað væri hægt að breyta vaxtabótakerfinu og minnka útgreiðslur á vaxtabótum.

Ég tel ekki ástæðu til að hafa fleiri orð um þetta mál. Ég harma auðvitað að þetta skuli verða niðurstaðan. Það munu verða mikil vonbrigði, eins og ég sagði, fyrir fjölda heimila í landinu þegar fólki verður ljóst að það muni ekki fá leiðréttingu á vaxtabótum sínum eins og það hafði vonað. Það eru líka mikil vonbrigði hvernig ríkisstjórnin hefur hunsað eðlilegt samráð við Alþýðusamband Íslands í þessu máli og ég ítreka að það kæmi mér ekki á óvart þó að einhver eftirmál yrðu í samskiptum ASÍ og ríkisstjórnarinnar vegna þess.

Niðurstaða okkar í minni hlutanum er því að vísa allri ábyrgð á niðurstöðu málsins á ríkisstjórnina og við áteljum harðlega að fjöldi fólks sem væntir leiðréttinga á greiðslum vaxtabóta muni annaðhvort fá litla eða enga greiðslu á vaxtabótum nú í desember eins og lofað hafði verið.