133. löggjafarþing — 35. fundur,  24. nóv. 2006.

tekjuskattur.

22. mál
[12:46]
Hlusta

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Pétur H. Blöndal) (S) (andsvar):

Frú forseti. Í fyrsta lagi athugasemd um þær fullyrðingar hv. þingmanns að dæmið mitt um milljón króna útgjöld til ferðalaga sé ekki rétt. Vextirnir sem menn nota við útreikning vaxtabóta eru eingöngu tengdir láni af íbúðakaupum. Hins vegar eru eignirnar samkvæmt lögunum allar eignir, þ.e. eignir mínus skuldir, hverju nafni sem þær nefnast, námsskuldir, yfirdráttur eða annað. Ég var bara að tala um eignaskerðinguna, ég var ekki að tala um að menn tækju vexti af þessari skuld til frádráttar, eingöngu eignaskerðinguna. Nettóeignin er eignir mínus skuldir. Dæmið er hárrétt að því leyti.

Mig langar til að spyrja hv. þingmann sem skrifar undir nefndarálitið og nefnir enga tölu — nú þarf að fara að gera eitthvað, frú forseti, það þarf virkilega að fara að koma með einhverja ákveðna tölu til að hægt sé að leiðrétta: Hvað ætlar hv. þingmaður að gera? Ætlar hún að styðja frumvarp ríkisstjórnarinnar? Ætlar hún að fella tillögu meiri hlutans, ætlar hún að samþykkja hana, sitja hjá, ekki að taka afstöðu? Hún hefur ekki lagt fram neinar tillögur, ekki sagt 40% hækkun, 35% hækkun, ekki neitt. Hún er algjörlega aðgerðalaus, ætlar ekki að gera neitt til að laga stöðuna.

Hvað ætlar hv. þingmaður að gera? Ætlar hún að greiða atkvæði með breytingartillögu meiri hluta hv. efnahags- og viðskiptanefndar, sitja hjá, greiða á móti og samþykkja tillögu ríkisstjórnarinnar eða ætlar hún líka að fella hana? Á þetta allt að verða óbreytt?