133. löggjafarþing — 35. fundur,  24. nóv. 2006.

tekjuskattur.

22. mál
[12:54]
Hlusta

Dagný Jónsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hér hefur margt komið fram. Af því að hv. þingmaður kom inn á mál varðandi hv. formann efnahags- og viðskiptanefndar, Pétur Blöndal, langaði mig aðeins að taka upp að mér finnst ekki rétt að ráðast á hv. þingmann vegna þess að hann fékk þó aðilana til að setjast niður. Ég tel að við hefðum frekar getað gagnrýnt fjármálaráðuneytið fyrir að hafa ekki nýtt þennan tíma í betra samráð. Við fengum reyndar upplýsingar um að einhver samskipti hefðu átt sér stað en hins vegar er það aldrei gott þegar menn svara ekki erindum.

Mig langaði að segja að við verðum þó að taka tillit til þess að hér er verið að setja 590 millj. aukalega í þennan málaflokk, í vaxtabæturnar, og menn geta auðvitað reiknað sig í hvað sem er eins og hv. þm. Pétur Blöndal kom inn á áðan. Þess vegna tel ég ekki rétt að segja að stjórnvöld hafi algerlega gengið á svig við samkomulagið. Ég er þó þeirrar skoðunar að vaxtabætur ættu meira að koma efnaminna fólki og ungu fólki til hjálpar. Við fengum upplýsingar um að með þessum breytingum og ef farið hefði verið með þetta upp í hærri prósentutölu hefði jafnvel eldra fólk komið inn. Mér finnst vera tími til kominn að endurskoða kerfið en með þeim rökum að ég vil að efnaminna fólk og ungt fólk fái þessa aðstoð og fái bæturnar í auknari mæli vegna þess að það er það sem við viljum stefna að.

Ég tek undir að það má gagnrýna ýmislegt í þessu ferli en við stöndum frammi fyrir þessu og viljum auðvitað að fólk fari að fá þetta greitt út um næstu mánaðamót og spyr því hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur hvort hún mundi taka undir að farið yrði í slíka endurskoðun.