133. löggjafarþing — 35. fundur,  24. nóv. 2006.

tekjuskattur.

22. mál
[12:58]
Hlusta

Dagný Jónsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að ég og hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir séum ekkert mjög langt hvor frá annarri í áherslum á vaxtabótakerfið. Ég ítreka þá afstöðu mína að ég vil að það lifi áfram en með þessum áherslum sem ég ítrekaði áðan á yngra fólk og þá tekjulágu. Við megum reyndar ekki gleyma þeim hópi ungs fólks sem er t.d. að koma úr námi og er með mikið af skuldum, námslán og margt annað, er að reyna að kaupa sér húsnæði, sem er nú ekki auðvelt eins og staðan er í dag, og er kannski með ágætistekjur en miklar skuldir. Það fær auðvitað sitt.

Mér finnst mikilvægt að við hömrum á þessum hlutum. Auðvitað verðum við að líta líka til þess að undanfarin ár hafa tekjur hækkað og vextir sömuleiðis að ákveðnu marki og eignir hafa aukist. Það er ástæðan fyrir því að bæturnar hafa kannski ekki vaxið eins og áður. Hins vegar eru mjög margir aðrir hlutir sem við verðum að taka tillit til. Það er kannski þessi hópur sem á húsnæði sem hefur hækkað mikið út af fasteignamatinu en er ekkert að hreyfa sig, það nýtur ekki ágóðans, er ekki að selja eða neitt slíkt. Þar hækka gjöldin og hækka og mér finnst fólk ekki fá næga umbun fyrir að sýna aðhaldssemi og spara og ekki fjárfesta of mikið.

Eins og ég segi, ég held að það sé virkilega tími til kominn að endurskoða þetta kerfi án þess þó að fórna einhverjum grundvallarhugsjónum sem við viljum að vaxtabótakerfið endurspegli. Ég ítreka að ég held að við hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir höfum svipaðar áherslur í þeim málum en því er ekki að neita að reiknireglurnar á bak við þetta vaxtabótakerfi eru orðnar einkennilegar og ákveðnir hlutir hafa of mikil áhrif á það hvernig það þróast. Ég ítreka að við erum að auka útgjöldin til vaxtabótanna, teljum okkur standa við samkomulagið og það er nauðsynlegt að fólk fái þetta greitt út sem fyrst.