133. löggjafarþing — 35. fundur,  24. nóv. 2006.

tekjuskattur.

22. mál
[13:01]
Hlusta

Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þingmaður talar gegn betri vitund þegar hún segir að stjórnarliðar séu að standa við samkomulagið. Hv. þingmaður hefur eins og aðrir hlustað á ASÍ. Hv. þingmaður hefur eins og aðrir í efnahags- og viðskiptanefnd lesið umsögn ASÍ og þar kemur fram að ekki sé staðið við samkomulagið, það sé farið á svig við það vegna samráðsleysis, það liggur bara fyrir. Ég hygg að það muni alveg örugglega heyrast í ASÍ eftir þessa niðurstöðu.

Hv. þingmaður ber hag unga fólksins fyrir brjósti og ég ætla ekkert að draga það í efa. Hún fylgir þessari ríkisstjórn og ríkisstjórnin hefur gert marga hluti sem hafa skert verulega hag unga fólksins, t.d. eins og ég var að nefna með fæðingarorlofið. Ekki eru nú greidd 80% af launum, heldur er fæðingarorlofið komið niður í 75% af launum vegna skerðingarinnar og viðmiðunartímans sem reiknaður er út.

Hverjir eru nafnvextir í dag t.d. hjá fólki sem er að taka sér lán þegar við skoðum verðbólguskattinn svonefnda? Ég hugsa að nafnvextirnir séu um 13%. Það hefur komið mjög hart niður á unga fólkinu sem hv. þingmaður ber fyrir brjósti hvernig farið hefur verið með t.d. Íbúðalánasjóð. Hæstv. ráðherra hefur ekki leiðrétt brunabótamatið þannig að lán til unga fólksins sem er að kaupa sér íbúð er ekki 90% af verði íbúðar. Lánin frá Íbúðalánasjóði eru komin niður í 40–50% af verði íbúðar.

Það er þetta sem er að fara með íbúðakaupendur, lánin sem fólk fær og sparnaður þessa fólks brennur upp núna í þessum hækkunum sem hafa orðið og sérstaklega vegna þess að hæstv. félagsmálaráðherra og ríkisstjórnin hafa neitað að breyta (Forseti hringir.) þessu viðmiði sem hefur komið mjög hart niður á unga fólkinu.