133. löggjafarþing — 35. fundur,  24. nóv. 2006.

tekjuskattur.

22. mál
[13:45]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Mér finnst þetta ekki vera sérstaklega einföld spurning. Ég er því almennt fylgjandi að hér verði komið upp traustum húsaleigumarkaði, en ég skal segja það að ég hef verið fylgjandi því að fólki sem vill eiga sitt húsnæði sé gert það kleift. Ég hef verið fylgjandi sjálfseignarstefnu í húsnæði. Ef menn eru það verðum við að horfa til þess að fólk með meðaltekjur geti fest kaup á húsnæði sem er fyrir fjölskyldu á bilinu 20–30 millj. kr. Þetta er bara staðreynd. Og ef við horfum til einstaklinga með millitekjur í þjóðfélaginu duga þær ekki til, ef á að auðvelda fólki að eignast sitt húsnæði.

Það sem hv. þingmaður telur vera mjög einfalda spurningu og óskar eftir hreinum og einföldum svörum er kannski ekki alveg svona einfalt. Kannski snýst þetta um annað og meira. Kannski snýst þetta um stefnuna í húsnæðismálum. Hvað viljum við? Viljum við stuðla að því að millitekjuhópar geti eignast sitt húsnæði, ég tala nú ekki um þá sem lakast standa að vígi? Ég hefði viljað stuðla að því líka fyrir þá hópa. Allra lægstu hóparnir eru komnir út af eignamarkaðnum með því fyrirkomulagi sem við búum við núna. Eftir breytingar á húsnæðislögunum sem gerðar voru fyrir nokkrum árum var ráðist gegn félagslegu þáttunum í húsnæðiskerfinu þannig að það fólk er komið yfir á húsaleigumarkaðinn. Mér finnst það vera ágætur kostur ef hann er fyrir hendi og ef hann er traustur. Ég vil hafa hinn valkostinn líka og ef við viljum það verðum við að horfa raunsætt á þessi mál.