133. löggjafarþing — 35. fundur,  24. nóv. 2006.

tekjuskattur.

22. mál
[13:47]
Hlusta

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Pétur H. Blöndal) (S) (andsvar):

Herra forseti. Velflestir landsmenn, þeir sem eiga húsnæði hafa hagnast meira á húsnæði sínu á síðasta ári en þeir höfðu í tekjur, sumir verulega miklu meira, þ.e. þeir sem voru mikið skuldsettir. (Gripið fram í.) Það verður til þess að eignir þeirra hækka mjög mikið og spurningin sem við stöndum frammi fyrir í dag er hvort við ætlum að hækka þessi eignamörk. Hvað vill hv. þingmaður hækka þau mikið? Hvað vill hann fara hátt með eignamörkin? Á fólk sem er með 15 milljónir að fá bætur frá ríkinu eða hvað vill hann gera? Það þarf að gera eitthvað. Menn geta ekki alltaf skákað í því skjólinu að þeir hafi ekki upplýsingar o.s.frv. og taki ekki neina afstöðu og komi ekki með neinar tillögur. Engar tillögur liggja fyrir aðrar en þær frá hv. efnahags- og viðskiptanefnd, sem leggur til 30% hækkun á eignamörkunum, en engar tillögur eru frá stjórnarandstöðunni, ekki neitt. Það er blankó. Ég spyr hv. þingmann: Hvað vill hann sjá þessi mörk fara hátt? Samræmist það heimsmynd hans og skoðun að fólk sem er með 14, 15, 17 millj. kr. hreina eign sé að fá bætur frá ríkinu?