133. löggjafarþing — 35. fundur,  24. nóv. 2006.

tekjuskattur.

22. mál
[13:51]
Hlusta

Ásta Möller (S):

Virðulegi forseti. Mig langar við 2. umr. um frumvarp til laga um breyting á lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt, með síðari breytingum, að segja hér nokkur orð. Frumvarpið kom fram í tengslum við samkomulag milli ASÍ og samtaka atvinnulífsins í sumar og fól í sér yfirlýsingu frá ríkisstjórninni frá 22. júní síðastliðnum þar sem ríkisstjórnin lýsti sig reiðubúna til að endurskoða ákvæði laga um vaxtabætur ef í ljós kæmi við niðurstöðu álagningar í ágúst að hækkun fasteignaverðs á árinu 2005 hefði leitt til marktækrar skerðingar á vaxtabótum. Þetta var úr yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar.

Við munum flest okkar sem vorum á vorþingi að töluverðar umræður voru á þinginu og í samfélaginu um hvaða áhrif hækkað fasteignaverð hefði á vaxtabætur nú í haust, hver upphæð þeirra yrði og hvernig þær skiptust á milli einstaklinga. Það voru ákveðnar skoðanir, ákveðnar hugmyndir í gangi um að vaxtabætur mundu verða mun lægri en fjárlög fyrir árið 2006 gerði ráð fyrir, enda kom fram í umræðu í nefndinni að bæði fulltrúar ASÍ og fjármálaráðuneytisins höfðu talið að hækkun fasteignaverðs hefði þau áhrif á upphæð vaxtabóta að lokinni álagningu að hún mundi lækka frá því sem fjárlög 2006 gerðu ráð fyrir. Í ljósi þessa má mjög vel skilja afstöðu ASÍ í vor að hafna hugmynd um 25% hækkun á eignaviðmiðun sem taldi að vaxtabæturnar mundu hafa þau áhrif að upphæðin yrði mun lægri. Núna hins vegar eftir álagningu í sumar kom í ljós að upphæð vaxtabóta var nokkuð nálægt því sem gert var ráð fyrir í fjárlögum og 25% hækkun næði að brúa það bil og gott betur.

Virðulegi forseti. Vaxtabótakerfið er flókið og margir þættir hafa áhrif á upphæð vaxtabóta. Ljóst er að hækkun á verði fasteigna á síðustu missirum hefur haft mikil áhrif. Hópurinn sem fær vaxtabætur breytist á milli ára. Eignastaða breytist, skuldastaða breytist og tekjur breytast. Það er því ekki alltaf sami hópurinn sem fær vaxtabætur frá einu ári til annars. Við hækkun á fasteignaverði hafa orðið verulegar breytingar á þeim hópi. Þeim sem fá vaxtabætur hefur fækkað á milli ára þótt upphæðin eftir álagningu hafi verið litlu lægri en á fyrra ári. Það bendir til þess að vaxtabætur séu almennt hærri en áður hjá þeim hópi sem nú fær þær bætur.

Ég verð að taka undir með þeim sem bent hafa á að sviptingar, eins og þær sem orðið hafa á síðustu missirum í fasteignaverði, og aukin skuldsetning heimilanna setur strik í reikning hjá ýmsum sem hafa gert ráð fyrir vaxtabótum þegar þeir gerðu áætlanir um fasteignakaup sérstaklega. Hins vegar er ljóst og það kom fram í umræðum nefndarinnar að ekki er með nokkrum hætti hægt að elta breytingar hjá ákveðnum einstaklingum heldur verði að horfa á heildina.

Fram kom í nefndinni að mismunandi skilningur væri á milli manna um hvort með frumvarpinu, með 25% hækkun á eignaviðmiðun, hefði verið staðið við yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar í tengslum við samkomulag aðila vinnumarkaðarins í vor. Hins vegar er ljóst, eins og hefur komið fram í ræðum fyrr í dag, að upphæðin til vaxtabóta er með frumvarpinu hærri en gert var ráð fyrir í fjárlögum fyrir árið 2006. Hún hefur þvert á móti hækkað, hún hefur hækkað um það bil 300 millj. kr. og því verður ekki annað sagt en út frá þessu sjónarmiði hafi verið staðið við samkomulagið.

Eins og fram kom í framsögu hv. þm. Péturs H. Blöndals var í umfjöllun nefndarinnar ákveðið að hækka viðmið í 30% í stað 25%. Með því var komið til móts við sjónarmið ASÍ um frekari hækkun viðmiðunar, en eins og fram hefur komið fyrr í dag setti ASÍ í raun aldrei fram neina sérstaka tölu þó gefið hafi verið dæmi um 80% hækkun eignaviðmiðunar og með því yrði þá dekkuð flestöll dæmi en það mundi leiða til verulegrar hækkunar vaxtabóta. En það var ekki hugmyndin með þessari yfirlýsingu í vor, að mínu mati. Ljóst er að engan veginn væri hægt að tryggja að allir væru jafnsettir eftir og það yrði að miða við meðaltalshækkun í hverju einasta tilviki.

Að lokum, herra forseti, vil ég lýsa þeirri skoðun minni að taka þurfi vaxtabótakerfið til gagngerðrar endurskoðunar og endurskoða tilgang þess. Ég tel að það eigi í auknum mæli að beina niðurgreiðslu á lánum, sem vaxtabótakerfið óneitanlega er, til ungs fólks sem er að kaupa sína fyrstu íbúð. Með því er lagður sterkari grunnur undir eignakaup ungs fólks til frambúðar en gert er í dag. Það mun bæta hag þeirra til framtíðar burt séð frá framtíðartekjum.