133. löggjafarþing — 35. fundur,  24. nóv. 2006.

tekjuskattur.

22. mál
[14:11]
Hlusta

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Það getur vel verið að við hv. þm. Pétur Blöndal séum ekki sammála um þá hugmyndafræði að hið opinbera eigi að standa fyrir einhvers konar kerfi til að koma til móts við skuldugan almenning. Vaxtabótakerfið er þannig hugsað að það eigi að létta róður skuldugs fólks. Til þess var til þess stofnað. Það væri fróðlegt að fá að vita hvort hv. þingmaður vilji leggja vaxtabótakerfið alveg af. Það má lesa það úr hans orðum.

Ég held að stærsti vandi íslenskra heimila sem hafa orðið mjög skuldug á mjög skömmum tíma sé ekki vegna vaxtabótakerfisins. Það er auðvitað efnahagsástandið sem hefur ýtt fólki í skuldsetningu. Hér hefur verið keyrt áfram af mikilli þenslu. Ríkisstjórnarflokkarnir viðhalda miklum væntingum meðal annars með stóriðjuframkvæmdum. Síðan er einfaldlega mjög dýrt að lifa á Íslandi. Húsnæðisverð hefur hækkað gríðarlega mikið. Við búum við eitt hæsta matvælaverð í heimi, hæstu vexti í heimi, eitt hæsta bensínverð í heimi, eitt hæsta lyfjaverð í heimi þannig að það er dýrt að vera Íslendingur. Til að ná endum saman neyðast íslenskar fjölskyldur til að taka lán.

Aðgerðir ríkisstjórnarflokkanna og aðgerðaleysi á sumum sviðum hvetja íslenskan almenning til að skuldsetja sig fyrst og fremst en ekki vaxtabótakerfið í sjálfu sér.