133. löggjafarþing — 35. fundur,  24. nóv. 2006.

tekjuskattur.

22. mál
[14:12]
Hlusta

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Pétur H. Blöndal) (S) (andsvar):

Herra forseti. Nú hefur komið í ljós á undanförnum árum að neysla almennings hefur aukist gífurlega, sérstaklega í bílum og utanlandsferðum og slíku. Eru menn þvingaðir til að kaupa sér jeppa? Ég veit ekki til þess. Ég held einmitt að vaxtabótakerfið hvetji þá sem vilja kaupa sér bíla og stofna til skulda til þess. Ég nefndi áðan dæmi um fólk sem eyðir milljón í heimsreisu. Það fær 66 þús. kr. auknar vaxtabætur. Því er kannski ekkert skrýtið þó fólk skuldsetji sig þegar velferðarkerfið verðlaunar það fyrir það.

En þeim hins vegar sem sýna ráðdeild og sparsemi er hegnt. Þeir komast fljótlega upp fyrir eignamörkin og fá þá litlar sem engar vaxtabætur. Eftir því sem þeir spara meira á vissu eignabili þeim mun minni vaxtabætur fá þeir.

Þetta er vaxtabótakerfið í hnotskurn. Það er spurning hvort hv. þingmaður sé hlynntur því enn þá.